2.6.2024 | 14:59
Orkuskortur, hagvöxtur og úrræði
Tap þjóðarbúsins vegna skerðinga á ótryggðri raforku í vetur olli svo mikilli tekjuskerðingu, að áhrif hefur á niðurstöðu útreikninga á hagvexti. Kemur þetta ofan í tekjutap af loðnubresti, sem gæti hafa numið mrdISK 40, og makríllinn er hættur að birtast. Starfandi rekstur iðnaðarins varð fyrir alls tæplega mrdISK 20 tekjutapi, og starfsemi, sem ekkert varð af vegna orkuleysis, hefði getað skilað svipaðri upphæð. Þarna er um að ræða um 1 % af vergri landsframleiðslu. Nú er komið fram frumvarp á Alþingi, sem Teitur Björn Einarsson, þingmaður sjálfstæðismanna, mælir fyrir og mun stytta málsmeðferðartíma leyfisveitenda umtalsvert.
Frétt birtist í Morgunblaðinu 17. maí 2024 undir fyrirsögninni:
"Mikið tap vegna skerðinga á raforku".
Hún hófst þannig:
"Talið er, að á fyrstu mánuðum þessa árs [2024] hafi tapazt mrdISK 14-17 útflutningstekjur vegna skerðingar Landsvirkjunar á raforku [að söluandvirði um mrdISK 2,0 innsk. BJo]. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins, sem byggð er á mati stjórnenda fyrirtækja í orkusæknum iðnaði. Þeir telja, að á bilinu mrdISK 14-17 útflutningstekjur þjóðarbúsins hafi tapazt á þessum tíma vegna raforkuskerðinganna, en slakur vatnsbúskapur leiddi til þess, að Landsvirkjun gat ekki framleitt nægilega raforku, eins og fram hefur komið."
"Í ljós kemur, að tapið er mest hjá álverunum. Er það metið á bilinu mrdISK 9-10, en það er um 2,8 % - 3,2 % af útflutningstekjum áliðnaðarins á seinasta ári.
Bent er á, að skerðingarnar hafa bein áhrif til lækkunar tekna, en einnig óbein vegna [neikvæðra] áhrifa þeirra á viðskiptasamninga. Þessu til viðbótar fylgi skerðingunum aukinn kostnaður m.a. vegna þess, að skerðingarnar stytta líftíma fjárfestinga í kerum."
Þjóðarbúið verður á árinu 2024 fyrir tilfinnanlegum efnahagslegum höggum, sem numið geta alls mrdISK 160 eða um 4,6 % af VLF, þegar taldir eru saman loðnubrestur, orkubrestur og ferðamannabrestur. Þetta mun valda samdrætti hagkerfisins m.v. 2023, sem hlýtur að keyra niður verðbólguna og valda auknu atvinnuleysi.
"Þögn verði sama og samþykki":
"Komið er fram frumvarp á Alþingi um breytingar á lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana og skipulagslögum til þess að koma í veg fyrir óhóflegar tafir á framkvæmdum vegna seinagangs í kerfinu.
Þar er sú nýlunda helzt, að umsagnaraðilar verði að virða tímafresti laga, sem ekki verði meiri en 8 vikur. Berist ekki umsögn áður en frestur rennur út, skuli líta svo á, að viðkomandi stofnun samþykki efnislega umsóknina, sem til hennar var beint, eða telji ekki ástæðu til að bregðast við með umsögn; að þögn sé sama og samþykki."
Þetta er þarfasta frumvarpið, sem sézt hefur á Alþingi um háa herrans tíð, enda hefur ekkert til þess spurzt. Er þess að vænta, að flutningsmaðurinn, hinn ötuli þingmaður Sjálfstæðisflokksins Teitur Björn Einarsson, láti ekki deigan síga, þótt afturhaldið hafi vafalaust prjónað, þegar það leit raunverulegt framfaramál augum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)