24.7.2024 | 16:26
Vegakerfi í molum
Vegagerðin stendur frammi fyrir gríðarlegri endurbóta- og viðhaldsþörf á megninu af þjóðvegum landsins. Ástæðurnar eru 2: Umferðin, sérstaklega þungaumferðin, er meiri en vegirnir þola, og þeir eru of þröngir. Hvort tveggja gerir vegakerfið hættulegra en ásættanlegt er, og þess vegna þarf þjóðarátak til að endurbæta vegakerfi landsins. Á sama tíma er ekki hægt að ráðast í gagnslaust gæluverkefni Samfylkingar og pírata í Reykjavík, sem kallað er Borgarlína og er í raun stalínísk byltingartilraun samgönguhátta á höfuðborgarsvæðinu frá einkabílnum til almenningsvagna, sem ætlunin er að staðsetja á sérakreinum miðlægt á núverandi vegstæði. Engin spurn er eftir þessari rándýru þvingunartilraun á meðal í íbúa höfuðborgarsvæðisins, og hæpið er að halda því fram, að stjórnmálaflokkar í meirihluta sveitarstjórna hafi í sveitarstjórnarkosningum fengið umboð kjósenda til að standa að þessari hönnun og framkvæmdum. Þetta er nægilega stórt (dýrt) og afdrifaríkt mál til að réttlætanlegt sé að fara út í íbúakosningu um málið í hverju sveitarfélaganna. Verður þá að ganga tryggilega frá því, hversu mikil þátttakan þarf að vera, til að niðurstaðan verði bindandi fyrir stjórnmálamennina. Kjósa mætti um 3 kosti:
a) miðjusettar sérreinar, ein í hvora átt
b) hliðsettar sérreinar til hægri
c) hvorugur ofangreindra kosta
Þann 2. júlí 2024 birtist fróðleg grein í Morgunblaðinu um þessi mál eftir Bjarka Jóhannesson, skipulagsfræðing, verkfræðing og arkitekt:
"Þjóðvegir eða borgarlína".
Hún hófst þannig:
"Banaslys á þjóðvegum landsins eru of mörg, og nýverið voru á þeim 2 alvarleg rútuslys. Framkvæmdastjóri Vörumiðlunar, sem rekur flutningabíla á Sauðárkróki, segir í viðtali við Morgunblaðið 22. júní [2024], að "ástand þjóðveganna sé mjög slæmt. Undirlag fjölförnustu leiða sé mjög veikt, og í sumum tilvikum sé aðeins mulningur ofan á moldinni. Hringvegurinn sé ónýtur að stórum hluta, alveg frá Hvalfjarðargöngum. Vegir séu að gefa sig undan þunga, og grjótkast sé víða vandamál."
Orsök lélegs vegundirlags liggur í því, að að klæðning er notuð sem bundið slitlag á 90 % af íslenzkum þjóðvegum í stað malbiks. Klæðningin er malarslitlag með olíublönduðu asfalti. Umferðin er látin þjappa niður lausamölina með tilheyrandi steinkasti."
Undirlag mikils hluta veganna er of veikt m.v. við núverandi og framtíðar umferðarálag, þar sem tekið er tillit til fjölda öxla og öxulþunga, en álagið fylgir öxulþunga í 4. veldi. Þess vegna munar um alla þungaflutninga, sem fara sjóleiðina, til að létta á þjóðvegunum. M.v. útlit veganna er líklegt, að álagið á þá sé víða komið yfir hönnunarmörk, og breiddin er víða undir mörkum, sem Evrópustaðlar gefa.
"Þrátt fyrir þetta er í tillögu að samgönguáætlun 2024-2040 gert ráð fyrir kostnaði ríkisins við svo nefnda borgarlínu upp á mrdISK 80 á næstu 10 árum. Með upp gefnum óvissustuðli allt að 70 % fer upphæðin í tæpa mrdISK 130.
Ég hef áður skrifað, að hér er verið að kasta peningum út um gluggann, og sýndar hafa verið mun ódýrari lausnir á umferðarvanda höfuðborgarsvæðisins. Þá á eftir að telja þann kostnað, sem fellur á sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins, m.a. við undirbúningsvinnu á hæpnum forsendum og fjáraustur í skrautsamkeppnir um byggð við borgarlínuna."
Það er hægt að taka fyllilega undir þessa hörðu gagnrýni höfundarins, að með opinberum fjáraustri til Borgarlínu er verið að kasta fé út um gluggann, því að engin spurn er eftir verkefninu frá öðrum en stjórnmálamönnum forsjárhyggjunnar undir bumbuslætti Samfylkingarinnar, sem hefur lengi borið þetta gæluverkefni fyrir brjósti. Gallinn er hins vegar sá, að það leysir ekki umferðarvandann, heldur magnar hann. Þetta er algerlega óábyrg forgangsröðun fjármuna, sem Kristrún Frostadóttir virðist leggja blessun sína yfir.
"Þau rök, sem færð hafa verið fyrir borgarlínunni, eru, að hún muni draga úr notkun einkabílsins og þar með hafa jákvæð umhverfisáhrif. Hvort tveggja er mjög hæpið. Þar sem allir armar borgarlínu liggja að miðborginni, er líklegt, að notkun hennar miðist að langmestu við ferðir þangað til og frá vinnu og skóla kringum kl. 9 og 16."
Með núverandi vali á legu Borgarlínunnar er líklegt, að hana dagi uppi sem eins konar steintröll, því að svo getur farið, að ferðum í og úr vinnu í miðborginni muni fækka í framtíðinni vegna þróunar á vinnumarkaði.
"Forsvarsmenn borgarlínu gera ráð fyrir, að 12 % samgangna á höfuðborgarsvæðinu fari um borgarlínuna. Það er ofmetið, og með mikilli bjartsýni má kannski hugsa sér, að 12 % ferða til og frá sjálfri miðborginni yrði með borgarlínunni og heildarhlutur allra ferða á höfuðborgarsvæðinu í mesta lagi um 2 %."
Höfundur þessa vefseturs telur líklegra, að heildarhlutur borgarlínu í ferðum höfuðborgarsvæðisins verði nær 2 % en 12 % m.v. ferðahegðun Íslendinga og íbúa í sambærilegum borgum erlendis, ef farið verður í nokkrar framkvæmdir til að liðka fyrir almennri bílaumferð, sem líklegt er, að ákall verði senn um frá íbúunum. Þá liggur í augum uppi, að fjárfestingar fyrir borgarlínu Samfylkingarinnar eru fásinna og elgerlega út úr korti á tímum æpandi fjárþurrðar til framkvæmda og viðhalds stofnvega landsins, þar sem s.k. "innviðaskuld" gæti numið allt að mrdISK 300.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)