Misráðin loftslagsstefna

Forsendur ESB/EES í losunarmálum CO2, nema þá helzt Noregs, og Íslands eru svo ólíkar, að það var vanhugsað að hengja landið aftan í losunarvagn ESB/EES með sömu hlutfallslegu losunarmarkmið.  Þetta sést greinilega, þegar hlutfall jarðefnaeldsneytis í heildarorkunotkun Íslands og Evrópusambandsins er borið saman.  Á Íslandi er það um 15 %, en í ESB yfir 80 %.  Hér hefur stjórnmálamönnum hérlendum og embættismönnum þeirra enn einu sinni orðið á í messunni að átta sig ekki á, að eftir því, sem losunin er minni, verður dýrara og erfiðara á hvert tonn að draga úr henni. Ráðamenn sjá ekki að sér, heldur þvert á móti.  Þeir halda lengra út á foraðið.   

Það er mjög ánægjulegt að sjá, að a.m.k. einn Alþingismaður hefur nú komið auga á þetta og tjáð sig með róttækum hætti um málið.  Það er Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í NV, sem reit pistil um málið 20. júlí 2024 í Morgunblaðið, og hafi hann þökk fyrir, undir fyrirsögninni: 

"Jarðtengja þarf loftslagsstefnu Íslands".

Hann hófst þannig:

"Íslenzk stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum. Stefnan er reyndar sú að fylgja ESB í tölulegum markmiðum um minnkun losunar kolefna í samræmi við Parísarsamkomulagið frá 2015 og gott betur.  Markmiðið er, að árið 2030 verði losun 55 % minni en árið 2005 og árið 2040 verði Ísland kolefnishlutlaust, 10 árum á undan ESB.

Ísland hefur á síðustu áratugum náð verulegum árangri í orku- og loftslagsmálum með rafvæðingu og uppbyggingu hitaveitukerfa.  Hlutfall grænnar orku á Íslandi er mjög hátt eða um 85 %.  Þessi 15 %, sem út af standa, er innflutt olía, sem er aðallega sett á ýmis farartæki.  Til samanburðar er hlutfall grænnar orku í löndum ESB að meðaltali undir 20 %."

Þessi gríðarlegi munur á hlutfallslegri jarðefnaeldsneytisnotkun Íslendinga og íbúa ESB veldur því, að það er lítið vit í því fyrir Íslendinga að undirgangast sömu hlutfallslegu markmið og gert er í ESB.  Íslenzkir embættismenn og stjórnmálamenn sinntu þessu ekkert, heldur hikuðu ekki við að leggja á herðar landsmönnum erfiðari og þungbærari skuldbindingar en aðrir tóku á sig.  Katrín Jakobsdóttir og umhverfisráðherra VG bitu síðan höfuðið af skömminni með því að lofa kolefnishlutleysi hér áratugi á undan ESB.  Fyrir stjórnmálamenn af þessu tagi er hégómaskapur, sýndarmennska og hanastélsboð aðalatriðið, en kostnaður og heilbrigð skynsemi eru aukaatriði.  Stjórnsýsla vinstri hreyfingarinnar græns framboðs er skussa stjórnsýsla, sem hefur orðið og mun verða landsmönnum dýr, enda er ekki heil brú í stefnu flokksins.  

"Parísarsamkomulagið kveður á um, að aðildarríki skulu hafa markmið um að minnka losun og veita upplýsingar þar að lútandi.  Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ákvað þegar árið 2009 að hætta að halda til haga sérstöðu landsins, og ríkisstjórn Sigmundar Gunnlaugssonar gaf frá sér sjálfstæði í málaflokkinum til að fylgja ESB að málum árið 2015. 

Réttast er að vinda ofan af þessum ákvörðunum og taka upp loftslagsstefnu í samræmi við Parísarsamkomulagið, sem sett er á réttum forsendum og byggð er á sérstöðu Íslands og íslenzkum hagsmunum.  Stefnan verður að hvíla á raunhæfum grunni, þ.e. efnahagslegum, samfélagslegum og tæknilegum forsendum, sem samstaða ríkir um."   

Fyrsta hreina vinstri stjórnin, en svo er téð ríkisstjórn Jóhönnu, 2009-2013, stundum nefnd, var ógæfustjórn.  Menntamálaráðherrann, Katrín, eyðilagði aðalnámskrána, lagði af samræmd próf, gerði skóla án aðgreiningar að reglu og lagði grunn að hnignun grunnskólans, sem öllum má nú ljós vera.  Þar sem áður var stoltur grunnskóli, sem útskrifaði nemendur með staðgóðan þekkingargrunn fyrir lífið, er nú eitthvað, sem enginn veit, hvað er, enda hulið í sósíalískum moðreyk.  Tilraunastarfsemi af þessum toga með fjöregg æskunnar er algerlega ábyrgðarlaus. 

Þegar þessi vinstri stjórn leitaði inngöngu fyrir Ísland í ESB, hefur auðvitað verið "tabú" að halda á lofti sérstöðu og hagsmunum Íslands.  Þetta metnaðarleysi er til skammar. 

"Sem dæmi þá þarf tafarlaust að virkja meiri græna orku hér á landi, til að markmið um orkuskipti í samgöngum náist.  Ef ekki næst samstaða um að virkja meira, verður að endurskoða markmið um orkuskipti til samræmis við þann veruleika.

Að sama skapi verður þátttaka Íslands í alþjóðastarfi á sviði loftslagsmála að byggjast á sameiginlegum forsendum og hagsmunum.  Eins og sakir standa, er Ísland í slíkum afreksflokki, að ESB er varla réttur samstarfsaðili."

  Þarna kveður við nýjan tón í orku- og loftslagsmálum.  Aldrei heyrist neitt frumlegt í þessum anda frá ráðherranum, sem með þessi mál fer, enda ríkir þar alger kyrrstaða.  Vonandi er, að fyrir næstu Alþingiskosningar myndi Sjálfstæðisflokkurinn stefnu fyrir næsta kjörtímabil og lengur í þessum anda.  Það er óboðlegt að hjakka svona í sama farinu og fljóta sofandi að feigðarósi.  

 


Bloggfærslur 28. júlí 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband