Óttinn við loftslagsbreytingar að dvína ?

Loftslagstrúboðið hefur horn í síðu sjálfstæðs predikara heilbrigðrar skynsemi í þeim efnum, Danans Björns Lomborg, forseta Copenhagen Consensus og gestafyrirlesara við Hoover-stofnun Stanford háskóla í Bandaríkjunum. Morgunblaðið hefur verið iðið við að kynna lesendum sínum skrif þessa sjálfstæða fræðimanns, sem hefur gagnrýnt viðhorf vestrænna stjórnmálamanna og ýmissa sérfræðinga um það, hvernig barizt skuli við hlýnun jarðar, enda hefur sá skortur á kerfisbundinni aðferðarfræði, sem þar ríkir, valdið öngþveiti og árangursleysi. Björn Lomborg hefur bent á, að brýnna sé að verja fé í baráttu við hungur og sjúkdóma í þriðja heiminum.

Þann 29. júlí 2024 birtist enn ein ádeilugreinin á vestræn stjórnvöld undir tvíræðri fyrirsögn þýðandans: 

"Þessi alheimska samstaða var aðeins tíbrá".

Hún hófst þannig:

"Frá 10. áratuginum hafa loftslagsbreytingar orðið þráhyggja stjórnmálamanna og yfirstétta ríkra landa.  Hún fæddist og dafnaði í jarðvegi, þar sem heimurinn hafði rétt naumlega séð fyrir endann á Kalda stríðinu [sem eins og kunnugt er lauk með ósigri kommúnismans - innsk. BJo].  Í sögulegu ljósi var friðsælt, traust ríkti um allan heim, víðtækur hagvöxtur og örar framfarir gegn fátækt.  Sérstaklega leið íbúum höfuðborga Evrópu, eins og stærstu vandamál plánetunnar væru leyst. Loftslagsbreytingar væru síðasta víglínan. 

Þessir talsmenn loftslagsaðgerða hafa beitt sér af miklum ákafa og sannfæringu fyrir því, að við hættum að nota jarðefnaeldsneyti.  Einmitt þann orkugjafa, sem hafði knúið áfram tveggja alda undraverðan vöxt.  Vissulega myndi þetta kosta hundruð billjóna [trilljóna-1 trilljón=1000 milljarðar] dala, en það yrði alltaf meiri hagvöxtur.

Þvílík þröngsýn og barnaleg sýn á heiminn.  Tíminn hefur leikið grátt þá heimskulegu hugmynd, að loftslagsbreytingar væru síðasta víglína mannkyns, sem eftir væri, eða að íbúar jarðar myndu sameinast um að leysa vandann.  Geopólitískir árekstrar og viðskiptahagsmunir valda því, að hröð alþjóðleg umskipti frá jarðefnaeldsneyti eru óhugsandi."

Þetta er hinn bitri sannleikur, og þess vegna stendur hin opinbera loftslagsstefna Vestursins á brauðfótum.  Orkuskipti á heimsvísu í anda loftslagspostula eru ómöguleg fyrr en tækniþróunin hefur fært manninum raunhæfan orkugjafa til að taka við kolum, olíu og gasi.  Þjóðir á borð við Íslendinga, sem búa við mikið af s.k. endurnýjanlegum stöðugum orkulindum, s.s. vatnsföll og jarðgufu, og geta þannig framleitt næga raforku til að rafvæða eldsneytisferla og framleiða lífeldsneyti, sem leyst getur jarðefnaeldsneyti af hólmi, komast næst því að leysa þau verkefni, sem þarf til að uppfylla draumóra stjórnmálamanna.  Vinstri stjórnin 2009-2013 kom hins vegar á fót slíku skrifræðisbákni í kringum leyfisveitingaferli virkjana, að stöðnun hefur orðið á sviði nýrra virkjana yfir 10 MW.  S.k. Rammaáætlun er eitt af því, sem kasta þarf á haugana og hefur reynzt verri en gagnslaus.  Afleiðingin af vitleysunni, sem viðgengst, er, að upp spretta vindorkuver, eins og gorkúlur á haugi, sem eru miklu dýrari og umhverfisverndarlega verri kostur en vel hannaðar vatnsafls- og jarðgufuvirkjanir, reiknað á einingu framleiddrar raforku.  

"Leiðtogar frá Evrópu og Bandaríkjunum tala um "núllmarkmið", eins og það hafi alþjóðlegan stuðning.  En fljótt var ljóst, að þessi alheimska samstaða var aðeins tíbrá.  Fyrir það fyrsta er hinn óstöðugi möndull Rússlands, Írans og Norður-Kóreu ekkert á því að styðja viðleitni vestrænna ríkja við að draga úr loftslagsbreytingum.  Reyndar, samkvæmt McKinsey, myndi núllmarkmiðið krefja Rússa um mrdUSD 273 til loftslagsaðgerða á hverju ári.  U.þ.b. þrefalt það, sem þeir eyddu til hermála á síðasta ári.  Það mun ekki gerast. 

Geopólitískar hindranir rista enn dýpra.  Vöxtur Kína hefur þarfnazt þess að brenna sífellt meira af kolum.  Þaðan kemur yfirgnæfandi mesta magn gróðurhúsalofttegunda í heiminum auk þess að vera með mestu aukningu allra þjóða á síðasta ári.  Endurnýjanleg orka var 40 % af orkuframleiðslu Kína árið 1971, en minnkaði niður í 7 % árið 2011 með stigvaxandi kolabrennslu.  Síðan þá hefur endurnýjanleg orka aukizt aftur í 10 %.  Öflugar loftslagsaðgerðir gætu kostað Kína næstum 1,0 trnUSD/ár [1000 mrdUSD/ár] og hamlað vegferð þess í átt að því að verða rík þjóð." 

 Evrópusambandið (ESB) hefur í hyggju að leggja innflutningstolla á vörur, sem framleiddar eru með stóru kolefnisspori, en gæti verið að skjóta sig í fótinn með svo sértækum aðgerðum.  Tíminn einn vinnur þessa baráttu, þ.e. það verður að gefa tækninni hvata til að þróa lausnir.  Vind-og sólarorka geta ekki varðað veginn að lokalausninni, en kjarnorkan getur það, en er ekki síður áhættusöm en aukinn koltvíildisstyrkur í andrúmslofti enn sem komið er.  Þetta sýnir ótti Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar um öryggi stærsta kjarnorkuvers Evrópu, sem rússneski herinn hertók og hefur nú hætt framleiðslu rafmagns í, en frá kjarnakljúfunum stafar enn mikil hætta, ef kælikerfi versins laskast eða byggingar þess verða fyrir eldflaug eða stórri sprengju. 

"Á sama tíma, þrátt fyrir allt málskrúðið, eiga auðug lönd sífellt minna fé handbært fyrir loftslagsbaráttuna.  Árlegur hagvöxtur á mann [á] meðal ríkra landa dróst saman úr 4 % á 7. áratuginum [20. aldar] í 2 % á 10. áratuginum.  Núna erum við rétt yfir 1,0 %.  Mörg þessara landa standa frammi fyrir þrýstingi á að eyða meira í varnarmál, heilbrigðisþjónustu og innviði á sama tíma og pólitískur þrýstingur og breyttar þjóðfélags- og aldurssamsetningar gera leiðir þeirra til stöðugleika og vaxtar mun óvissari.

Samt sem áður heldur fólk um alla Evrópu og Norður-Ameríku, sem fæddist í tiltölulega rólegum heimi 10. áratugarins, áfram í einstrengingslegum ákafa að þrýsta á afiðnvæðingu og samdrátt til að takast á við loftslagsbreytingar.  Þ.á.m. í vaxandi hagkerfum heimsins.  Öllum skal líða jafnilla."  

Í ESB er staðnað hagkerfi, sumpart vegna evrunnar, sem hentar ekki öllum þjóðunum alltaf á evrusvæðinu.  Vaxtastig evrubankans er jafnvel of hátt um þessar mundir fyrir þýzka hagkerfið, sem hefur glímt við miklar orkuverðshækkanir vegna kúgunartilburða Rússa.  Loftslagsstefna ESB er að sama skapi að verða afar íþyngjandi fyrir hagkerfin þar og rýrir samkeppnishæfni þeirra á alþjóðamörkuðum.  Hér innanlands hefur einmitt borið á innflutningi á þeim veruleikafirrtu kenningum róttækra græningja, sem Lomborg gerir að umræðuefni, þ.e. að alls ekki skuli virkja meira, en skapa svigrúm fyrir orkuskipti með því að loka iðjuverum landsins.  Þessi stefna, t.d. Landverndar, ber feigðina í sér og er dauðadómur yfir góðum lífskjörum á Íslandi.  Slíkar kenningar eru illa ígrundaðar, eiginlega bara kaffihúsasnakk, enda varða þær leiðina til fátæktaránauðar.  

"Nú þegar eru kjósendur í Evrópu að snúa baki við stjórnmálamönnum, sem hafa talað fyrir minni hagvexti og hagsæld í nafni loftslagsbreytinga.  6-7 kosningalotur eru framundan fyrir miðja öld, og hörð loftslagsstefna, sem getur kostað hvern mann í ríka heiminum meira en 10 kUSD/ár [1,4 MISK/ár] er dauðadæmd.  Þessar stefnur munu gera það líklegra, að kjósendur snúi sér að popúlískum [lýðskrums] þjóðernissinnuðum leiðtogum, sem munu alfarið hverfa frá rándýrum núllmarkmiðum.  Þá verður loftslagsstefnan í molum."

Kostnaður við "núllstefnuna" er svo hár, að lífskjörin verða rekin aftur um 40 ár, ef henni verður haldið til streitu, og það er engin glóra í því að keyra lífskjörin á Vesturlöndum niður, á meðan aðalmengunarvaldarnir þeysa fram í lífskjarasókn.  Allt sýnir þetta, hvað loftslagsstefna ESB, sem er sú stefna, sem rekin er blint hérlendis, er illa ígrunduð.  

"Heimurinn þarf betri leið fram á við.  Bezta lausnin er ekki sú að þrýsta á fólk til að hafa það verra með því að þvinga fram ótímabær umskipti úr jarðefnaeldsneyti yfir í ófullnægjandi græna valkosti.  Þess í stað ættum við að auka fjárfestingar í grænni nýsköpun í því [augnamiði] að draga úr kostnaði við hreina orku, þar til [að] hún verði orðin hagkvæmari en jarðefnaeldsneyti.  Þetta er miklu kostnaðarminna og mun hvetja alla, þ.á.m. Indland og önnur vaxandi hagkerfi, til að vilja breyta sínum orkugjöfum."

Þetta er hárrétt stefnumörkun af hálfu Lomborg að mati þessa skrifara og sú eina sjálfbæra, sem í augsýn er.  Jarðefnaeldsneytisforðinn fer minnkandi, sem mun valda hækkandi verði, svo að ekki mun líða á löngu, þar til að vestræn tækni getur boðið upp á eitthvað skárra en kjarnorku úr afar geislavirkum úranísótópi, hráefnisfrekar sólarhlöður eða hrottalega landfrekar vindmyllur.  

 

  

  

 


Bloggfærslur 23. ágúst 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband