4.8.2024 | 17:52
Koltvíildi er auðlind, ekki úrgangur
Nú er í undirbúningi hjá fyrirtækinu Carbfix, sem er eitt dótturfélaga Orkuveitu Reykjavíkur, OR, heldur betur að færa út kvíarnar frá því að vinna CO2 úr losunargufum Hellisheiðarvirkjunar, blanda þær vatni og dæla niður í bergið á Hellisheiði, yfir í að starfrækja nýtt fyrirtæki, CODA-terminal í Straumsvík, sem ætlað er að flytja inn milljónir tonna af CO2 frá iðjuverum í Evrópu og taka við CO2 frá innlendum fyrirtækjum gegn gjaldi, blanda þessu við gríðarlegt magn vatns, líklega úr Kaldánni, sem rennur þarna til sjávar á um 25 m dýpi undir hrauni, og dæla vökvanum niður í jarðlögin við Straumsvík í von um, að vökvinn krystallist þar. Þessi viðskiptahugmynd er líklega andvana fædd.
Hér á þessu vefsetri hefur verið efazt um þessa viðskiptahugmynd vegna þess, að hún er í samkeppni við nýtingu á CO2 á meginlandi Evrópu og hérlendis í framtíðinni. Hætt er við, að þetta ævintýri verði þungur fjárhagsbaggi á OR, og við hefur bætzt megn óánægja Hafnfirðinga, einkum íbúa á Völlunum, með þessar fyrirhuguðu framkvæmdir og mögulega fjárbindingu Hafnarfjarðarbæjar í gagnsleysi.
Nú er Straumsvík og ströndin úti fyrir ISAL lóðinni hrein og náttúruleg, en er hættandi á að fá aðskotaefni með unnu koltvíildi út í sjóinn ?
Þann 17. júlí 2024 birtist Sjónarhólsgrein í Morgunblaðinu eftir hagfræðinginn Þórð Gunnarsson, sem beinlínis bendir á rísandi stórmarkað fyrir koltvíildið. CODA terminal getur varla keppt við þann iðnað, sem þörf hefur fyrir CO2. Fyrirsögn greinarinnar var:
"Auðlind eða úrgangur".
"Hækkandi koltvísýringsmagn hefur haft áhrif á hitastig jarðar og hefur alltaf gert (á síðast liðnum 100 árum hefur hlutfall koltvísýrings í lofthjúpi jarðar hækkað úr 0,03 % í 0,04 %). Stórbýlið Brattahlíð á Suður-Grænlandi hefði ekki risið fyrir tilstilli Eiríks, rauða, nema því að þá var jökullinn nokkrum km innar í firðinum en hann er í dag - og veðurfar talsvert mildara. Enda var þá loftslag jarðar miklu hlýrra en það er [núna], og var það hundruðum milljóna ára þar á undan [en téð hlýskeið stafaði einmitt ekki af hærri styrk koltvíildis í andrúmslofti en nú er. Það eru deilur um, hversu mikilli hlýnun CO2 veldur.]
Boranir í Grænlandsjökul sýna, að hlýskeið landnámsaldar var af öðrum orsökum en háum CO2 styrk. CO2-kenningin er ofeinföldun á núverandi hlýnun.
"Sú siðmenning og lífsgæði, sem heimsbyggðin er orðin vön og krefst, byggist öðru fremur á orkunotkun. Í hinu hnattræna samhengi hefur sú orkunotkun fyrst og fremst verið byggð á notkun jarðefnaeldsneytis allt frá dögum iðnbyltingarinnar. Vart er raunhæft, að látið verði af notkun kolefniseldsneytis á næstu áratugum.
Stefnumótun stjórnvalda í hinum vestræna heimi hefur öðrum þræði snúið að lágmörkun á óhindraðri losun koltvísýrings út í andrúmsloftið. Tækni við föngun koltvísýrings hefur tekið hröðum framförum á undanförnum árum. Því er vert að spyrja í nafni hringrásarhagkerfisins - hvað gerum við við allar þessar koltvísýringssameindir ? Er um að ræða úrgang eða auðlind ?"
Það er líklega ofmælt, að aðferðarfræðin og búnaðurinn til að draga CO2 úr t.d. kerreyk álvera hafi þróazt hratt á undanförnum árum, því að kostnaðurinn er gríðarlegur. Kostnaður við að fjarlægja CO2 úr kerreyk nemur um þessar mundir um 500 USD/t með búnaði til þess með aðeins 1000 t/ár CO2 afkastagetu. M.v. núverandi losunargjald á CO2 er mun ódýrara að losa út í andrúmsloftið en að rembast við að dæla því niður í jörðina sem úrgangi.
Allt annað er uppi á teninginum, ef þetta unna koltvíildi er meðhöndlað sem auðlind, sem unnt er að skapa verðmæti úr. CO2 er auðvitað notað í gróðurhúsum til að örva vöxt, en ekki er víst að kerreykstvíildi sé nægilega hreint til þess. Það er hins vegar væntanlega ekkert því til fyrirstöðu að fara inn í framleiðsluferli eldsneytis fyrir skip og flugvélar.
"Kröfur eru uppi um aukið hlutfall svo kallaðs sjálfbærs eldsneytis (SAF) í rekstri skipa- og einkum flugsamgangna. Evrópusambandið hefur ákveðið að stefna að 65 % hlutfalli sjálfbærs flugvélaeldsneytis árið 2025.
Óháð umræðu um gullhúðun Evrópureglugerða hér á landi munu mörg evrópsk flugfélög, sem halda úti áætlunarflugi hingað til lands, gera kröfu um aðgengi að téðu eldsneyti hér á landi.
Að óbreyttu mun Ísland því þurfa að flytja það inn, en sökum hás orkuverðs og þar af leiðandi hás framleiðslukostnaðar er SAF töluvert dýrari en steinolían, sem í dag er nýtt á flestar gerðir þotna. Framleiðsluferill SAF krefst bæði mikils magns koltvísýrings sem og orku, en í sem stytztu máli snýst það um að vetnismetta lífrænar olíur á borð við repjuolíu eða notaða djúpsteikingarolíu, og breyta þeim þannig í kolefnisvökva, sem nothæfur er til eldsneytisframleiðslu.
Nokkuð fellur til af koltvísýringi hér á landi við rekstur jarðhitavirkjana, en ekki í nægu magni, svo að byggja megi upp iðnað í kringum framleiðslu eldsneytis. Því mun Ísland þurfa að flytja inn koltvísýring í miklu magni, ef ákveðið verður að ráðast í eldsneytisframleiðslu hér á landi."
Hér er um ótrúlega metnaðarfulla markmiðssetningu ESB að ræða, sem kemur sér illa fyrir Íslendinga, sem eiga enga raforku til nýsköpunar af þessu tagi vegna óskiljanlegrar þvermóðsku afturhaldsins í landinu. Það væri þó alveg kjörið að framleiða sjálfbært eldsneyti á Íslandi vegna gnóttar endurnýjanlegra orkulinda.
Það er villandi að halda því fram, að koltvíildi falli til í jarðhitavirkjunum, því að það þarf að vinna úr gufunum, sem losna úr læðingi í þessum jarðgufuvirkjunum, og það er dýrt og orkukræft. Höfundurinn nefnir ekki CO2-losun þungaiðnaðarins hérlendis, en hann nemur yfir 2,0 Mt/ár. Þessi iðnaður gæti látið CO2 í té á verði, sem jafngildir kostnaðinum, því að í staðinn losnar hann við að kaupa losunarheimildir, sem búið er að skylda hann til. Nú er spurningin, hvort eldsneytisiðnaður á Íslandi yrði samkeppnishæfur með koltvíildi í framleiðsluferlinu, sem kostar um 500 USD/t ?
"Ísland hefur mikla hagsmuni af því að framleiða sitt eigið eldsneyti fremur en að flytja það inn. Í eðlilegu árferði flytur Ísland inn þotueldsneyti fyrir tugi mrdISK/ár. Ef fram heldur sem horfir, verður þessi dýri innflutningur enn þá dýrari á næstu árum og áratugum. Því er til mikils að vinna að koma upp framleiðslu á flugvéla- og skipaeldsneyti hér á landi með framleiðsluaðferðum, sem eru vel þekktar og þrautreyndar.
Ísland ætti að geta náð samkeppnisforskoti við framleiðslu eldsneytis til stórflutninga, ef orkumálum verður hagað með skynsamlegri hætti en verið hefur á undanförnum árum. Það eina, sem vantar hér á landi er meiri koltvísýringur - efnasamband, sem er hreinlega auðlind, ef ætlunin er að framleiða eldsneyti með öðru en vinnslu á nýrri hráolíu."
Annað hráefni inn í þessa framleiðslurás er vetni. Þess vegna þarf vetnisverksmiðju, og hún notar talsvert rafmagn. Iðnaðarráðherra, sem jafnframt er ráðherra nýsköpunar, ætti að láta setja saman framkvæmdaáætlun um þetta verkefni, sem þá verður hægt að kynna fyrir fjárfestum og notendunum, aðallega flugfélögum og skipafélögum. Orkuráðherrann, sem vanalega sefur sitjandi, ætti nú að hrista af sér slenið og láta gera áætlun um virkjanir, aðveitustöðvar og flutningslínur fyrir þetta verkefni, og síðan yrði sett sérlöggjöf um heildarmálið, enda er hér málefni, sem varðar atvinnulíf og efnahagslíf landsins miklu. Ríkissjóður mundi ekki standa í neinum fjárhagsskuldbindingum út af þessari atvinnustarfsemi, enda hefur hann meira en nóg á sinni könnu með sinn hallarekstur og skuldasöfnun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)