Ráðherrann ráðalausi

Ef Ísland tæki ekki þátt í PISA-prófum OECD, væri hörmuleg frammistaða íslenzka grunnskólans við menntun grunnskólabarna ekki á almennu vitorði.  Dauðyflisháttur menntamálaforystunnar gagnvart niðurstöðum PISA er hins vegar yfirþyrmandi, því að hún hreinlega stingur hausnum í sandinn og lætur eins og Ísland geti vel við unað að vera með grunnskóla í ruslflokki, hvað þekkingarmiðlun varðar á alþjóðlegan mælikvarða. Gæðum samfélagsins mun þá hraka, og þeim er þegar tekið að hraka.  Það verður dýrkeypt að láta menn komast upp með alls konar fúsk.  Eitt dæmið er Samgöngusáttmálinn.  Sýnt hefur verið fram á, að útreikningar hans hvíla ekki á réttum forsendum og almennilegt verkefnisstjórnunarskipulag er ekki fyrir hendi hjá "Betri samgöngum".  Sú ökuferð mun þess vegna óhjákvæmilega lenda úti í skurði. 

Morgunblaðið hefur ekki látið deigan síga við gagnrýni sína á þá, sem ábyrgðina bera á leikskólum, grunnskóla og framhaldsskólum. Forystugrein blaðsins 4. september 2024 bar lýsandi ástandi vitni, ástandi, sem lýsir alvarlegri þjóðfélagsmeinsemd, en er með algerum ólíkindum árið 2024:

"Menntamál í ólestri"

og undirfyrirsögnin lýsti örvæntingu ritstjórnarinnar með stöðu, sem er samfélagsógn: "Tómlæti stjórnvalda um uppfræðslu grunnskólabarna er óþolandi".

"Morgunblaðið hefur að undanförnu fjallað mikið um menntamál og þá fyrst og fremst málefni grunnskólans.  Þar hefur námsárangri hrakað ár frá ári í nær aldarfjórðung, og reglulegum viðvörunum þar um hefur annaðhvort ekki verið sinnt eða með augljóslega röngum aðferðum. Með hverjum deginum hafa svo birzt verri fréttir, nú síðast, að læsi barna hraki stöðugt og að hluti barna þekki ekki einu sinni stafrófið í lok 1. bekkjar."

Þögn kennara og kennaraforystunnar um þessa uggvænlegu þróun veldur ugg.  Kennaraforystan gerir lítið úr gagnsemi samræmdra prófa, en þau geta þó verið afar gagnleg fyrir nemendur og kennara og foreldra.  Kennaraforystan virðist ekki vilja sjá neinn samanburð á milli skóla, og það torveldar auðvitað umbætur á náminu.  Hún virðist neita því, að draga megi lærdóma af PISA, en hangir á, að íslenzkum nemendum líði tiltölulega vel í skóla.  Metnaðarleysið keyrir um þverbak.

"Ekki er þó unnt að bera við fjársvelti, en kennurum og öðru starfsliði hefur á þessum tíma fjölgað mun örar en nemendum.  Sérstaklega er þó kvartað undan því, að stjórnvöld hafa afnumið nær allar samræmdar mælingar á námsgetunni, en vilja hafa leynd um þær mælingar á frammistöðu nemenda og skóla, sem þó fara fram undir merkjum PISA og OECD."

Það er óvitaháttur af stjórnvöldum að gera sig sek um þetta, því að þar með taka þau sitt aðalstjórn- og eftirlitstæki með skólastarfinu og fleygja því út í hafsauga.  Það er ekki kyn, þótt keraldið leki.  Kenneraforystan er metnaðarlaus fyrir hönd nemendanna og vill hafa skólana á sjálfstýringu, þar sem þekkingarlegur árangur þeirra er aukaatriði, og menntamálaráðuneytið er gagnslaust í mótunar- og eftirlitshlutverki sínu, enda er íslenzki grunnskólinn ekki nema svipur hjá sjón frá því, sem áður var.  Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra 2009-2013, kippti stoðunum undan honum með metnaðarlausri og skaðlegri námskrá.  

"Aftur á móti hefur tómlæti menntamálaráðherra vakið nokkra furðu; grunnskólarnir hafa tekið til starfa á ný, en ekkert bólar á viðbrögðum.  Eða jú, í gær kvaðst ráðherrann reikna með því, að senn yrði sent út fundarboð fyrir stóran vinnufund."

Þessi ráðherra er hugmyndasnauður og villuráfandi sauður, sem sýnir ekki einu sinni viðleitni til að snúa málum til betri vegar innan grunnskólans, enda skilur hann ekki, hvar skórinn kreppir. 

"Hér duga augljóslega engin vettlingatök. Hér ræðir um uppsafnaðan og vanræktan vanda grunnskólans, sem kallar á grundvallarendurskoðun hans.  En það er merkilegt, að í þeirri umræðu, sem þó hefur átt sér stað, hefur lítið borið á spurningum um ýmsa grunnþætti, s.s. skipan grunnskólans, námskrá, aðferðir eða annað af því taginu. 

Var til heilla að færa grunnskólann til sveitarfélaga ?  Var hringlið með námskrána til bóta ?  Gætu nýjar, en óreyndar kennsluaðferðir, eins og "byrjendalæsi", hafa valdið einhverju um vandræðin ?" 

Núna eru viðhöfð einskær vettlingatök, og menntamálaráðuneytið er ófært um að veita leiðsögn um "grundvallarendurskoðun" á grunnskólanum.  Þótt ætlunin með færslu grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga kunni að hafa verið að ýta undir fjölbreytileika, hefur lítið verið um samninga við einkafyrirtæki um að taka að sér kennsluna í verktöku fyrir sveitarfélögin með eða án aukakostnaðar fyrir foreldra.  Það þarf að koma á heilbrigðri samkeppni á milli skóla, og þá er frumskilyrði að hafa raunveruleg samræmd próf og niðurstaða þeirra niður á bekkjardeildir (ekki nemendur) ásamt PISA-niðurstöðum verði gerðar opinberar.  Um þetta þarf að kveða á um í lögum, því að menntamálaráðuneytið hefur tekið sér vald til að hindra þetta, og kennaraforystan er þversum í málinu, en á meðan "grundvallarendurskoðun" með nýrri lagasetningu og nýrri alvöru námskrá er ekki gerð, mun allt hjakka í sama farinu og Ísland jafnvel lenda á botninum í PISA. Það yrði mesta þjóðaráfall frá hruni fjármálakerfisins 2008. 

  

 


Bloggfærslur 24. september 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband