28.9.2024 | 17:41
Um próf
Í huga þessa skrifara er skóli á öllum stigum óhjákvæmilega tengdur prófum, enda þjálfa prófin nemendur í að sýna þekkingu sína á fögum heillar annar eða vetrar (tveggja anna). Þessi þjálfun kemur sér iðulega vel í starfi síðar á ævinni. Vitneskjan um, að próf yrði haldið til að skera úr um, hvort nemandanum yrði heimilað að færast upp um deild (og nær lokaprófi), virkaði alla tíð sem ágætis aðhald um að slaka ekki á. Nám er ekki leikur, heldur vinna, sem krefst sjálfsaga. Kennarar gerðu þekkingarkröfur, og nemendur lærðu að sama skapi að gera kröfur til sjálfra sín, vildu þeir á annað borð ná viðunandi árangri í skólanum.
Engu er líkara en nú sé viðkvæðið í menntamálaráðuneytinu og á meðal kennaraforystunnar o.fl., að próf séu of íþyngjandi fyrir bæði nemendur og kennara, og bezt sé að trufla skólastarfið sem minnst með þeim. Afleiðingin er sú, að nemendur þjálfast ekki í að taka próf, sem leiðir til þess, að þegar próf er loks lagt fyrir þá, þá verður niðurstaðan hörmuleg, eins og á PISA-prófunum, og kannski vantar líka þekkingargrunninn, a.m.k. í sumum skólum. Hverjum er greiði gerður með þessum ósköpum ? Alla vega ekki nemendum, sem virðast koma grænir á bak við bæði eyrun út úr grunnskóla, og enginn þykist vita, hvernig á því stendur. Enginn samanburður á milli deilda sama skóla né á milli skóla er leyfður, svo að erfitt er um vik að fá heildarsýn yfir stöðuna eða átta sig á, hvaða kennsluaðferðir eru betri en aðrar. Þetta hlýtur hins vegar að leiða til þess, að framhaldsskólarnir fái til sín nemendur, sem eiga á brattann að sækja, ef þá hreinlega er ekki slegið af kröfum. Samfélagslega er þetta slæmt, því að sleifarlag í grunnskóla setur tóninn um allt framhaldið, og atvinnulífið hefur úr minna bitastæðum einstaklingum að moða, og þeir munu fyrr eða síðar reka sig á vegg.
Meyvant Þórólfsson þekkir þessi mál gjörla, enda prófessor emeritus við HÍ og sérfræðingur í mats- og námskrárfræðum. Af fjölmörgum greinum hans í Morgunblaðinu að undanförnu er ljóst, að hann væri vel fallinn til að leiða "grundvallarendurskoðun" á grunnskólakerfinu og til að semja nýja námsskrá, sem er bráðnauðsynlegt.
Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 22. ágúst 2024 með því dýrafræðilega heiti:
"Landspróf og slíðurhyrnd jórturdýr - söguvitund".
Hún hófst þannig:
"Árið 1957 birtist svohljóðandi prófverkefni á landsprófi miðskóla í náttúrufræði:
"Nefnið 8 tegundir slíðurhyrndra jórturdýra. Takið fram um hverja tegund, hvort hún er til villt eða tamin eða er aldauða og um villtar tegundir, hvar þær lifa."
Spurningin, hvort tiltekin tegund slíðurhyrndra jórturdýra finnst villt, tamin eða sé aldauða, var vissulega vel fallin til svars, þ.e. auðvelt að gefa fyrir rétt eða rangt. Réttmætið var hins vegar lítið, af því [að] spurningin hjálpaði lítið við að meta raunverulega þekkingu og skilning nemenda á náttúruvísindum."
Því verður þó ekki neitað, að sá nemandi, sem svarað hefur þessari spurningu rétt, hefur þetta tiltekna námsefni á valdi sínu, og fyrir það á hann skilda umbun á prófi. Hann er jafnframt líklegur til að geta skrifað stutta ritgerð um, hvenær og hvar slíðurhyrnd jórturdýr komu fram, og hvers vegna hver tegund útdauðra dýra hafi liðið undir lok, ef um þetta var fjallað í námsbókinni. Til að prófa þekkingu nemenda á þessu tiltekna námsefni var spurningin ekki slæm. Er ekki lengur ætlazt til, að nemendur tileinki sér efni námsbókanna ? Gæði námsbókanna er svo allt annað mál.
"Á 3. áratugi 20. aldar náðu breytt viðhorf yfirhöndinni, og nýjar matsaðferðir festust í sessi sbr titil ritsins "Nýjar prófaðferðir" frá 1922 eftir Steingrím Arason. Í stað munnlegra yfirheyrslna voru tekin upp samræmd, skrifleg próf, sem ætlað var að fyrirbyggja "allt handahóf" og afstýra því, að matsniðurstöður yrðu komnar undir áliti og geðfelldni kennara og prófdómara, eins og ritstjórar Skólablaðsins bentu á.
Steingrímur og félagar vildu þannig forðast skekkjur, er fylgdu jafnan huglægu mati, einkum svonefnd geislabaugsáhrif (halo effect). Þau lýsa sér þannig, að fyrri vitneskja um nemanda getur skekkt matsniðurstöður, hvort sem sú vitneskja er jákvæð eða neikvæð fyrir nemandann. Í fámenni íslenzks samfélags vissu kennarar og prófdómarar töluvert um bakgrunn hvers barns eða unglings, sem metinn var, og það gat augljóslega skekkt matsniðurstöður. Slíkur vandi þekkist reyndar enn í íslenzku skólakerfi, þegar kemur að mati og einkunnagjöf við lok grunnskóla.
Steingrímur Arason taldi taldi gerð prófa, sem hann hafði kynnzt í námi við Columbia-háskóla í New York, tryggustu leiðina til að forðast slíkar skekkjur og stuðla þannig að heiðarlegu og hlutlægu mati. Hann barðist fyrir gildi prófanna, sem réttmætra matstækja og þar með jöfnuði, nýbreytni og afnámi kennsluhátta, er stuðluðu að "þululærdómi".
Það var ekki skrýtið, að viðhorfin til skólanna breyttust á 3. áratugi 20. aldar, því að þetta var fyrsti áratugurinn eftir rothöggið á lénsskipulagið, aðalskerfið, sem leið undir lok í heimsstyrjöldinni 1914-1918. Þar með leystust ný öfl úr læðingi. Á Vesturlöndum var borgaralegt lýðræðiskerfi aðalkerfið, sem við tók, en í upplausn þjóðfélagsbreytinganna náðu ofstækisöfl sums staðar undirtökunum, t.d. kommúnistar í Rússlandi og fasistar á Ítalíu, en Bjórkjallarauppreisn nazista Adolfs Hitlers í München 1923 var kæfð í fæðingu og Adolf stungið í fangelsi, þar sem hann ritaði "Mein Kampf", stefnumörkun hins þjóðernislega sósíalistaflokks þýzkra verkamanna.
Skriflegu prófin höfðu margt til síns ágætis, sem munnlegu prófin höfðu ekki, en samt var haldið áfram með munnleg próf, t.d. í Menntaskólanum í Reykjavík, þar sem munnlegt próf var í öllum stúdentsprófsgreinunum ásamt skriflegu prófi 1969, ef ritari man rétt.
Það er ekkert vit í að afnema skrifleg próf og taka þess í stað upp e.k. símat kennara, því að þá er búið að innleiða hættu, sem Steingrímur Arason vildi sneiða hjá og fólst í mögulegri óhlutlægni kennara gagnvart nemendum, t.d. frændhygli, (geislabaugsáhrif).
Nú er íslenzki grunnskólinn í lægð, eins og PISA-prófin bera vitni um, og á meðan svo er, er mjög bagalegt að hafa ekki samræmd skrifleg próf á þessu skólastigi, en þau gætu hjálpað til við að feta umbótabraut. Við svo búið má ekki standa.
"Þegar leið á öldina [20.], var engu líkara en allt færi úr böndum. Samkvæmt ákvæðum fræðslulaganna frá 1946 átti landspróf miðskóla að "jafna stöðu unglinga til aðgangs að æðri menntun" og því eðlilegt, að hlutfall þeirra, sem þreyttu prófið, færi sífellt vaxandi; í upphafi gengust færri en 10 % nemenda undir landspróf, á 6. áratuginum um 20 %, og fjöldinn var kominn í þriðjung árgangs um 1970.
En á sama tíma skaut óvæntur púki upp kollinum. Hann birtist sem áköf bóknámsdýrkun ásamt framsetningu prófverkefna af því tagi, sem lýst var hér á undan. Spurt var um ótal smáatriði, sem töldust vel fallin til svars, en sögðu jafnan lítið um raunverulega kunnáttu nemenda."
Ritari þessa pistils mundi telja líklegra, að nemandi, sem kynni góð skil á smáatriðum, hefði aðalatrið fagsins á valdi sínu en sá, sem flaskar á smáatriðunum. Á Landsprófi stóðu allir nemendur, sem vildu halda námi áfram, eins jafnt að vígi og frekast var kostur, því að þeir voru allir metnir á sama mælikvarða. Nú er mismikil "bólga" í einkunnagjöf kennara, og kemur það niður á nemendum, þar sem "bólgan" er minni, við val inn í framhaldsskólana. Að leggja niður "samræmd" skrifleg próf á lokaári grunnskóla er þess vegna skref aftur á bak m.v. hagsmuni nemenda.
Að lokum skrifaði Meyvant:
"Skólafólk virðist enn brennt af þessum óförum. Í handbókinni "Fjólbreyttar leiðir í námsmati" frá árinu 2019, sem má finna á leslista í kennaranámi nú á dögum, er því haldið fram, að margir hafi efasemdir um samræmd próf. Þau stýri kennslu og valdi ofuráherzlu á staðreyndanám auk þess, sem þau leiði af sér einhæfa kennsluhætti. Í skýrslu menntamálayfirvalda frá 2020 um framtíð slíkra prófa kveður við svipaðan tón: "Prófin hafa einnig verið gagnrýnd fyrir að stýra um of skólastarfi, að aðeins sé prófað í bóklegum greinum og þeim atriðum, sem auðvelt er að meta."
Um miðjan 8. áratuginn var landspróf aflagt og samræmd lokapróf tekin upp. En þar með hvarf ekki púkinn, nema síður væri. Alla tíð síðan hefur verið tekizt á um mat að loknu skyldunámi, eðli þess og þátt í aðgengi að framhaldsskólanámi. Engum dylst, að faglega útfærð lokapróf stuðla að gæðum náms í mikilvægum námsgreinum, eins og þeim, sem prófað er úr í PISA og TIMSS. Hvernig sem öllu er á botninn hvolft, þá á hver nemandi skilið að fá sig metinn á heiðarlegan og áreiðanlegan hátt í námsgreinum, eins og stærðfræði, náttúruvísindum og móðurmáli, þegar grunnskóla lýkur. Að mati undirritaðs virðist nýtt námsmatskerfi, Matsferill, ekki uppfylla þau skilyrði."
Ritari þessa pistils er algerlega sammála Meyvanti um niðurstöðu hans í lokin. Hlutverk grunnskóla er að búa nemendur undir lífið og inngöngu í framhaldsskóla. Grunnskólakennarar geta þess vegna ekki leikið lausum hala og kennt eins og þeim þóknast. Það má koma til móts við þá með því að takmarka fagfjöldann, sem prófað er í samræmt, við 4 greinar, og ættu PISA-prófgreinarnar að vera þeirra á meðal.
Með menntamálaforystu og kennaraforystu af því tagi, sem Íslendingar búa við nú um stundir, er ekki kyn, þótt keraldið leki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)