Óbeysið verður það

Landsmenn hafa gáttaðir fylgzt með sjálftöku fyrrverandi borgarstjóra Samfylkingarinnar, Dags B. Eggertssonar, á MISK 10 orlofsgreiðslu 10 ár aftur í tímann, sem mun vera einsdæmi á Íslandi fyrr og síðar, enda téður Dagur engum líkur.  Hann gegndi á tímabilinu æðstu stöðu Reykjavíkurborgar.  Hver hélt þá utan um orlofstöku hans ?  Enginn veitti honum heimild til að fara í orlof, og enginn hefur hafnað orlofsbeiðni hans.  Menn í slíkum stöðum leyfa sér ekki slíkt framferði að safna upp orlofi og senda síðan reikning 10 ár aftur í tímann fyrir orlofi, sem ekkert eftirlit var með, hvort var tekið eður ei.  Hér er á ferðinni ótrúleg peningagræðgi og siðleysi.  

Slíku fólki er í engu treystandi, allra sízt fyrir opinberum fjármunum.  Vitað var, að óreiða hefur ríkt í fjármálum Reykjavíkur í stjórnartíð þessa manns, svo að borgin nýtur ekki lengur lánstrausts.  Nú stefnir í, að sá stjórnmálaflokkur, sem þessi óreiðupési hefur boðið sig fram til almannaþjónustu fyrir, Samfylkingin, muni jafnvel leika aðalhlutverkið við næstu stjórnarmyndun, og téður Dagur þá jafnvel sitja á þingi fyrir flokkinn.  Þess vegna vekur þögn formanns þessa flokks, Kristrúnar Frostadóttur, alveg sérstaka athygli, því að með þögn sinni um þetta hneykslismál er hún að leggja blessun sína yfir sukk og svínarí í umgengni við opinbert fé.  Bankadrottningin þáði stórfé sem bónus frá bankanum, sem hún starfaði hjá, þótt óljóst sé fyrir hvað, og taldi þetta fram til skatts með þeim hætti, sem skattayfirvöld sættu sig ekki við.  Fjárhagslegu siðgæði virðist svo ábótavant í forystu Samfylkingar, að flokkinum sé ekki treystandi fyrir horn.

Morgunblaðið gerði þessum borgarstjórablús allgóð skil.  Forystugrein blaðsins 19. ágúst 2024 bar yfirskriftina:

"Viðskilnaður fyrrverandi borgarstjóra-Er sjálftakan ásættanleg að mati Samfylkingar ?"

"Þegar Morgunblaðið grennslaðist fyrir um, hvernig þessum málum væri háttað hjá helztu sveitarfélögum öðrum og hjá ríkinu, kom í ljós, eins og við var að búast, að orlofsuppgjör Dags. B. Eggertssonar er algert einsdæmi. 

Uppgjörið við fyrrverandi borgarstjóra og raunar einnig aðstoðarmann hans vegna borgarstjóraskiptanna er sérkennilegt af fleiri ástæðum.  Þegar samið var um nýtt meirihlutasamstarf, lá fyrir, hvenær þáverandi borgarstjóri myndi hætta.  Það kom engum á óvart, og þess vegna hefði fyrrverandi borgarstjóri tæplega þurft á starfslokagreiðslum að halda vegna mismunar á launum borgarstjóra og launum formanns borgarráðs.  Þá hefði hann einnig getað tekið orlofsdagana sína, hefði hann talið, að hann ætti þá 10 ár aftur í tímann.

Hið sama gildir um aðstoðarmann fyrrverandi borgarstjóra, Diljá Ragnarsdóttur, áður kosningastjóra Samfylkingarinnar. Diljá var ráðin sem aðstoðarmaður ári áður en Dagur átti að hætta, en safnaði á þeim tíma réttindum, sem við starfslok námu á 8. milljón ISK vegna biðlauna og ótekins orlofs.  Með biðlaunum Dags eru greiðslur til borgarstjóra og aðstoðarmanns hans, sem aðeins hafði starfað í ár, hátt á 3. tug milljóna ISK vegna borgarstjóraskiptanna.  Má það teljast með miklum ólíkindum." 

Þessi frásögn varpar ljósi á það, hvernig Samfylkingin hleður gjörsamlega óverðskuldað skattfé almennings undir hlöðukálfa sína.  Tekur framferðið út yfir allan þjófabálk, enda siðlaust og að margra mati löglaust. Fyrrverandi borgarstjóri átti engin biðlaun að fá, því að hann gekk beint í starf formanns borgarráðs.  Ósvífnin og græðgin ríða hér ekki við einteyming, og það á líka við um hinn hlöðukálfinn í þessari sögu.  Hún var ráðin til tilgreinds stutts tíma sem aðstoðarmaður borgarstjóra.  Til hvers í ósköpunum, úr því að hann notaði þá ekki tækifærið til orlofstöku ?  Umsamin biðlaun hennar og orlofsinnistæða til greiðslu eru úr öllu hófi fram ?  Samfylkingarforkólfum er ekki treystandi fyrir horn, þegar kemur að opinberum fjármunum.  Samfylkingin er rotinn stjórnmálaflokkur.  Það hefur formaður flokksins staðfest með þögn sinni.

 "Samfylkingin hlýtur að þurfa að greina frá því, hvort þessi viðskilnaður er ásættanlegur og þar með, hvort þetta er það, sem vænta má, nái flokkurinn stjórnartaumunum í landsstjórninni í næstu kosningum.  Þetta er sérstaklega brýnt í ljósi þess, að skoðanakannanir mæla flokkinn nú stærstan, og líkur standa til, að formaður hans muni leitast eftir að leiða landssjórnina að kosningum loknum.  Almenningur á rétt á að vita, hvaða vinnubrögð Samfylkingin telur ásættanleg."

Almenningur hefur þegar fengið svar við þessari áleitnu spurningu, því að með þögninni hefur formaður Samfylkingar gefið hlöðukálfum sínum til kynna, að flokkurinn agnúist ekki út í sjálftöku úr opinberum sjóðum, enda verði "allir skattstofnar nýttir til fulls".  

 


Bloggfærslur 7. september 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband