8.9.2024 | 18:01
Sleifarlag á orkusviði
Það þurfti enga mannvitsbrekku til að sjá fyrir kæru Skeiða- og Gnúpverjahrepps vegna virkjunarleyfis vinds ofan Búrfells. Það virðist vera sleifarlag í samskiptum Landsvirkjunar og orkuráðherrans við þennan hagsmunaaðila. Orkuráðherranum Guðlaugi Þór Þórðarsyni virðast vera mjög mislagðar hendur, enda hefur engin ný virkjun yfir 10 MW komizt á framkvæmdastig á hans dögum í loftslags- orku og umhverfisráðuneytinu. Ráðherrann virðist skorta hugmyndaflug til að ná frumkvæði, þegar á þarf að halda, t.d. í samningaviðræðum. Framkoma forstjóra Landsvirkjunar við ýmsa viðsemjendur sína hefur heldur ekki einkennzt af samningalipurð og kurteisi. Þetta tvíeyki er illa fallið til að liðka fyrir nýjum virkjunum, þar sem fyrirstaða er. Íslands óhamingju verður allt að vopni, var einu sinni sagt.
Óskar Bergsson birti sláandi frétt í Morgunblaðinu 28.08.2024 af ömurlegri stöðu raforkumála Vestfjarða, en ekki er að sjá, að þessi volaði orkuráðherra hafi orðið Vestfirðingum að nokkru gagni, en þó hafa þeir leitað til hans með sín mál. Þessi sjónumhryggi riddari virðist ekki eiga erindi sem erfiði í pólitíkina, en þó bauð hann sig fram gegn sitjandi formanni á síðasta Landsfundi Sjálfstæðisflokksins, enda vantar ekki gortið og sjálfshælnina. Téð frétt bar fyrirsögnina:
"Rafmagn á Vestfjörðum framleitt með olíubrennslu".
Hún hófst þannig:
"Orkubú Vestfjarða hefur brennt 60-70 þúsund lítrum af olíu vegna rafkyntra hitaveitna á Ísafirði, Suðureyri, Flateyri, Patreksfirði og í Bolungarvík [sem ekki fá rafmagn frá stofnkerfi landsins, þegar ein stofnlína er óvirk - innsk. BJo]. Ástæðan er sú, að Landsnet vinnur nú að fyrirbyggjandi viðhaldi á Vesturlínu, og því hefur Orkubúið þurft að grípa til olíubrennslu [í olíukyntum kötlum hitaveitanna - innsk. BJo] og skerðinga á raforku. Landsnet hefur einnig þurft að brenna 45-50 þúsund lítrum í ágúst [2024] vegna viðhaldsins."
Þessi olíubrennsla til raforkuframleiðslu á Vestfjörðum um hásumar er vegna þess, að virkjanir Vestfjarða anna álaginu ekki þá, hvað þá yfir veturinn. Þrátt fyrir þetta ófremdarástand gerist lítið í virkjanamálum Vestfirðinga. Hvalárvirkjun var seinkað eftir offors nokkurt, og téður ráðherra virðist hvorki hreyfa legg né lið til að greiða götu Vatnsdalsvirkjunar, eins og Orkubúið hefur þó farið fram á. Afturhaldið heldur því enn fram, að næg umhverfisvæn orka sé í landinu, en nú ríkir mikill kvíði fyrir komandi vetri, því að ekkert þriggja stærstu miðlunarlónanna mun ná að fyllast í haust og munar talsverðu. Óreiðan og óstjórnin er slík, að helzt lítur út fyrir, að reisa verði gasknúið raforkuver á Íslandi til að leysa bráðan aflvanda.
"Elías Jónatansson, orkubússtjóri, segir, að í tilvikum sem þessum hafi Landsnet heimild til að skerða flutning til notenda, sem séu með samninga um skerðanlegan flutning. Hann tekur undir orð Kristjáns Jóns Guðmundssonar, skrifstofustjóra rækjuvinnslunnar Kampa á Ísafirði, sem lét þau orð falla í Morgunblaðinu sl. mánudag [26.08.2024], að ef búið væri að virkja í Vatnsfirði, hefði verið óþarfi hjá Landsneti að skerða flutning á raforku til Vestfjarða. [Landsnet mun áfram verða að taka straum af Vesturlínu vegna viðhalds og viðgerða, en það mun ekki valda olíubrennslu, eins og nú, eftir að ný almennileg Vestfjarðavirkjun kemst í gagnið.]
"Það er ekki nægjanleg orka fyrir hendi, þegar eina flutningslínan inn á svæðið er straumlaus. Það er óásættanlegt, að heill landshluti hafi ekki nægjanlegan aðgang að orku. Ástæða þess, að Orkubú Vestfjarða hefur haldið Vatnsdalsvirkjun svo mikið á lofti í umræðunni er, að hún leysir umrætt vandamál, um leið og hún eykur afhendingaröryggi um 90 %. Virkjunin er nálægt tengipunktinum í Mjólká, þar sem 90 % af orkunotkun Vestfirðinga fara um. Verði virkjunin að veruleika, þarf ekki að bíða eftir tvöföldun flutningslínunnar inn á Vestfirði eða nýrri línu í tengipunkt í Ísafjarðardjúpi og uppbyggingu nýrra virkjana þar."
Ef ráðizt verður strax í hönnun nýrra virkjana á Vestfjörðum af myndarskap, t.d. í Vatnsfirði, þar sem orku-, loftslags- og umhverfisráðherra virðist reyndar draga lappirnar við að breyta friðlýsingu í þágu hagkvæmrar og umhverfisvænnar virkjunar, þá má fresta Vestfjarðalínu 2 lengi. Hana ætti að leggja í jörðu norðan Gilsfjarðar, svo að rekstraröryggið verði fullnægjandi. Sinnuleysi orkuráðherrans vegna orkumálefna Vestfirðinga er yfirþyrmandi, því að íbúar og fyrirtæki búa við miklu meira hamlandi skilyrði í orkumálum en annars staðar á landinu þekkist, og er þá langt til jafnað. Loftslagsráðherrann hlýtur að sjá, að með umbótum í orkumálum Vestfirðinga mun talsvert draga úr losun koltvíildis.
"Þrjú fyrirtæki á Vestfjörðum hafa orðið fyrir skerðingu á raforku vegna viðhaldsins á Vesturlínu: Rækjuverksmiðjan Kampi, Kalkþörungaverksmiðjan á Bíldudal og Orkubú Vestfjarða, þar sem skerðingin var mest. Orkubúið kaupir skerðanlegan flutning vegna rafkyntra hitaveitna í sveitarfélögunum.
"Á öllum þessum stöðum þarf í tilvikum sem þessum að keyra olíukatla til að halda húsum heitum á þessum stöðum", segir Elías.
Í langtímaáætlunum Landsnets stendur til að tvöfalda Vesturlínu að hluta. Þær áætlanir miða við, að búið verði að byggja nýjar virkjanir og tengja þær inn á tengipunkt í Ísafjarðardjúpi."
Þar sem Vestfirðir njóta ekki hringtengingar við stofnkerfi raforku, eins og aðrir landshlutar hafa notið frá lokun hrings Byggðalínu, þá er furðulegt, að ríkisvaldið skuli ekki hafa beitt sér meira fyrir eflingu rafmagnsframleiðslu innan Vestfjarða en raun ber vitni um. Vestfirðingar þurfa einfaldlega að lágmarki að verða sjálfum sér nógir um rafmagn. Þeir eiga hönk upp í bakið á ríkisvaldinu að þessu leyti, ef svo má segja. Þeir hafa vissulega undanfarið farið á fjörurnar við ríkisvaldið, en er þá mætt með súðarsvip og dauðyflishætti. Það er vissulega svo, að í ýmsum ráðherrastólanna virðast sitja hrein dauðyfli, sem ófær eru um að veita nokkra raunverulega forystu, en á bekk stjórnarandstöðunnar er útlitið ekki gæfulegra. Margir þeirra, sem gefa kost á sér til forystu í pólitíkinni, gera það án þess, að séð verði, að þeir eigi þangað nokkurt erindi. Þjóðfélagið famleiðir ekki lengur forystusauði. Það er alvarlegt mál.
Bloggar | Breytt 15.9.2024 kl. 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)