22.1.2025 | 18:03
Sólhvarfastjórnin lömuð ?
Þing er ekki enn komið saman eftir kosningar og kemur ekki saman fyrr en í byrjun febrúar 2025, og sólhvarfastjórnin 2024 hefur setið í mánuð, en stefnuyfirlýsingin er þunnur þrettándi og lítt hjálplegur, og fyrstu tilburðir stjórnarinnar fálmkenndir, eins og t.d. að leita eftir hugmyndum almennings um sparnað í ríkisrekstri, þótt fyrir hendi séu tillögur um slíkt, t.d. nýlegar frá Viðskiptaráði. Nokkur embætti ríkisins í heilbrigðisgeiranum, sem þó sinna ekki sjúklingum beint, hafa vaxið ótæpilega og eru með ótrúlega mörg stöðugildi. Nægir að nefna Landlæknisembættið, Sjúkratryggingar Íslands og Lyfjastofnun. Eru þessi embætti að búa til óþörf verkefni í von um að réttlæta stærð sína ?
Utanríkisráðherra hefur byrjað ferilinn á því að undirbúa nýtt bjölluat í Brüssel, og er það hið versta mál og gæti orðið banabiti ríkisstjórnarinnar. Að öðru leyti hefur hún farið þokkalega að ráði sínu, og er sérstök ástæða að fagna framtaki Þorgerðar Katrínar að heimsækja stjórnvöld í Kænugarði og undirstrika stuðning Íslands við baráttu Úkraínumanna fyrir land sitt og fullveldi. Þann 24. febrúar 2025 verða 3 ár liðin frá upphafi þess hryllings, sem stríðsóður einræðisherra í Kreml leiddi yfir friðsama nágrannaþjóð, sem ekki þýðist ógnarstjórn hans og heimsvaldastefnu. Nú er góðu heilli tekið að fjara undan hernaðarvél illmennisins, og efnahagur Rússlands stendur á brauðfótum. Á árinu 2025 munu sögulegir atburðir gerast, sem marka munu framhald aldarinnar.
Elías Elíasson, verkfræðingur, velti fyrir sér hugmyndum, sem frá stjórnarflokkum sólhvarfastjórnarinnar hafa komið, en uppnámi geta valdið á þingi og eru ekki líkleg til að styrkja ríkisbúskapinn til lengdar eða vekja hrifningu á Svörtuloftum. Hann ritaði grein, sem birtist í Morgunblaðinu 10. desember 2024 undir fyrirsögninni:
"Á að skattleggja fjárfesta til að auka fjárfestingar ?"
Fjárfestingar eru undirstaða hagvaxtar og atvinnusköpunar, og sparnaður er undirstaða fjárfestinga. Stjórnarflokkarnir hafa rekið hornin í sparendur með tali um hækkun fjármagnstekjuskatts, sem þegar er í hæstu hæðum vegna skattlagningar verðbóta, sem er mjög óréttlát skattheimta.
Auðlindarenta er stjórnarflokkunum hugleikin, en benda má þeim á, að með gildum rökum hefur enn ekki verið bent á hana í sjávarútveginum. Megnið af innviðum landsins fyrir innlenda orku er á höndum opinberra aðila, og það er mótsögn fólgin í því að eltast við auðlindarentu í slíkum fyrirtækjum, því að auðlindarenta, þar sem hún er raunveruleg, hlýtur alltaf að lenda hjá eigandanum.
Grein Elíasar hófst þannig:
"Stærsti valkyrjuflokkurinn á þingi vill setja auðlindagjald á sjávarútveginn til að fjárfesta í heilbrigðisgeiranum. Sá næststærsti vill líka setja auðlindagjald á orkuna, væntanlega til að auka fjárfestingu í þeim geira, enda vantar orku, og orkuskipti standa yfir. Þriðja valkyrjan virðist líta á lífeyrissjóðina sem sjálfbæra auðlind á við hinar. "Ekki er öll vitleysan eins" var stundum haft á orði fyrir vestan. Er ekki betra að ræða, hvernig samfélög virka saman áður en svona tilraunastarfsemi er hafin ?"
Téð þríeyki er í háskaleiðangri með grundvallarstarfsemi í landinu með þessum hugmyndum sínum. Það getur valdið því, að þessir tekjuskattsstofnar rýrni, og hver er bættari með það ? Núverandi veiðigjald er innheimt með mjög harðri skattheimtu eða þriþjungi af nettótekjum. Þar á ofan kemur tekjuskatturinn, og er þá þessi skattheimta komin yfir 50 %, sem er glórulaust. Norskur sjávarútvegur, sem sá íslenzki á í samkeppni við, greiðir ekkert veiðigjald, en fær styrk úr ríkissjóði, hinum geisiöfluga norska ríkissjóði. Hver hefur einhvern tímann sýnt fram á auðlindarentu í íslenzkum sjávarútvegi með haldbærum rökum ?
Það er líklegra, að auðlindarenta hafi fundizt hjá framleiðendum raforku á Íslandi, en þeir eru flestir í eigu opinberra aðila, svo að það er rökleysa að leggja auðlindagjald á þessi fyrirtæki.
Málflutningur þriðja formannsins um skattlagningu á lífeyrissparnaðinn við inngreiðslu í lífeyrissjóð hljómaði í kosningabaráttunni eins og púkablístra. Púkanum á fjósbitanum var skemmt, þegar minnka átti lífeyriseign landsmanna vegna tortryggni í garð lífeyrissjóða og bábilja um, að þeir kynnu ekki með fé að fara. Efnahagsstefna sólhvarfa stjórnarinnar er ekki upp á marga fiska. Þar rekur hvað sig á annars horn, svo að fæðingin verður erfið.
"Auðlindarenta er sögð koma fram í vatnsorkunni, þegar upphaflegi fjárfestirinn hefur fengið fé sitt endurgreitt með hæfilegri ávöxtun. Hér sést fyrirbrigðið t.d. í vaxandi arðgreiðslum Landsvirkjunar til eiganda síns, sem er ríkið, [á] meðan framkvæmdir eru litlar. Það er þó ekki svo, að auðlindarenta jafnist á við afskriftir og vexti, þegar þeim lýkur; við taka viðhaldsfjárfestingar, sem oft jafnast á við 70 ára afskriftir."
Ef Landsvirkjun fengi nú á sig auðlindagjaldtöku vegna auðlindarentu, mundi arðgreiðslan minnka að sama skapi. Á tímum sem þessum, þegar brýnt er fyrir almannahag, að virkjanafyrirtækin fjárfesti eftir fremsta megni í aukinni raforkuvinnslugetu, væri það glórulaus ráðstöfun af hálfu nýs þingmeirihluta að íþyngja orkufyrirtækjunum með auðlindagjaldi. Hvernig ríkisstjórnin hagar fjáröflun fyrir ríkissjóð, verður ákveðinn prófsteinn á hana. Annar prófsteinn er auðvitað virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá, sem Héraðsdómur Reykjavíkur felldi úr gildi í janúar 2025, og hann gekk lengra. Hann felldi úr gildi leyfi Umhverfisstofnunar til breytingar á stuttu vatnshloti árinnar á grundvelli innleiddrar ESB-löggjafar. Þessi túlkun jafngildir banni við öllum vatnsaflsvirkjunum yfir ákveðnum stærðarmörkum, sem óljóst er, hver eru. Þetta er fráleit túlkun ESB-löggjafar og á vilja Alþingis, en er rakin til blýhúðunar 2011. Ef veigur hefði verið í nýja orkumálaráðherranum, hefði hann lagt fyrir ríkisstjórnina drög að bráðabirgða lögum til að setja framkvæmdir á beinu brautina, en þess í stað leikur hann tafaleik með frumvarpi fyrir Alþingi. Ef frumvarpið verður vel heppnað og verður að lögum fyrir miðjan febrúar 2025, fær ráðherrann einkunnina "Staðizt", en ella er hann fallinn.
"Hér á landi standa yfir orkuskipti, sem eru afar mikilvægt verkefni. [Þau] tryggja aukna hagkvæmni í orkunotkun, bætt orkuöryggi og þjóðaröryggi, auk þess sem þetta er ein öflugasta loftslagsráðstöfun, sem við getum ráðizt í hér á landi. En orkuverin, sem við þurfum að reisa, verða dýrari en þau, sem við höfum þegar á hendi, auk þess sem eitthvað kann að þurfa af vindorku. Vindorkan er óstöðug, og eina hagkvæma orkugeymslan, sem tiltæk er til að geta sett hana á markað í samræmi við eftirspurn eru lón vatnsorkuveranna. Til að nýta þau þannig þurfum við jafnmikið umframafl í vatnsorkuverunum og vindorkan býður fram. Aðeins takmarkað slíkt umframafl er fyrir hendi, þannig að þegar frá líður þurfum við að byggja jafnstórt vatnsorkuver á móti hverjum nýjum vindlundi. Það getur orðið dýr orka. Auðlindagjöld til viðbótar þessum fjárfestingum munu óhjákvæmilega hækka orkuverð.
Þetta segir okkur, að nú sé ekki rétti tíminn til að draga fjármagn úr þessum geira fyrir gæluverkefni stjórnvalda. Nú þarf að athuga, hvernig þessu fjármagni, sem fólgið er í auðlindarentunni, verði bezt varið. Er ríkissjóður endilega heppilegur milliáfangi fyrir þetta fjármagn ? Hvernig væri, að orkufyrirtækin ráðstöfuðu því bara sjálf ?"
Í landi takmarkaðra náttúrulegra orkulinda nær engri átt að reisa vatnsorkuver til að ganga 60 % af árinu sem varaafl fyrir vindorkuver. Við þurfum á hámarksnýtingu að halda. Vindrafstöðvagreifar eru með annað í huga. Þeir vilja nýta vindrafstöðvar fyrir álag, sem þolir sveiflukennt framboð. Þeir hafa nefnt rafeldsneyti, en afar léleg heildarnýtni fylgir slíkri framleiðslu, og fórnarkostnaðurinn er gríðarlegur, ef mannvirkin er sjánleg og heyranleg langar leiðir (tugi km), og þau spanna mikið flæmi m.v. orkuvinnslugetu. Þess vegna er þetta ekki góð leið til að samræma sjónarmið um náttúruvernd og orkuvirkjanir.
Mjög lítil orkuskipti eiga sér stað í landinu um þessar mundir vegna þess, að raforkan er uppseld, og hvatinn til rafbílakaupa var rýrður mjög í lok valdatíma síðustu ríkisstjórnar. Raforkuleysið hefur valdið því, að fjöldi álitlegra viðskiptatækifæra hefur farið í súginn. Nú er verið að endurræsa kjarnorkuverið Three Mile Island í Bandaríkjunum og búið að gera samning um sölu allrar raforkunnar þaðan til gagnavera, sem sinna gervigreind. Orkuverðið verður 110 USD/MWh. Ekki er að efa, að hægt hefði verið að laða hingað nokkur slík gagnaver, ef orkuframboð væri fyrir hendi, svo að dæmi sé tekið af viðskiptavini, loðnum um lófana.
"Sjávarútvegurinn hefur síðan kvótakerfið var tekið upp og styrkjakerfið var aflagt, hagrætt gífurlega. Þessi hagræðing var m.a. möguleg vegna stórbætts vegakerfis, sem gerði hagkvæmara að flytja afla landleiðina [á] milli afurðastöðva í stað þess að sigla með hann, og þar með urðu fiskmarkaðir skyndilega vel virkir, og bætti það um betur. Aukinn hagnaður var nýttur til að fjárfesta í skipum með betri orkunýtni, sem er mikið framlag til umhverfismála. Einnig var ríkulega fjárfest í nýsköpun, vöruþróun og markaðsmálum, sem allt bar ávöxt. Upp risu alþjóðlega viðurkennd fyrirtæki, eins og Marel og Kerecis. Enn eitt fyrirtækið, Bláa hagkerfið, vinnur nú að nýju kerfi til stjórnunar fiskveiða á grundvelli gervigreindar, sem hefur ótæpilega möguleika í för með sér til hagræðingar og verndunar stofna.
Þessu framfaraskeiði í sjávarútvegi er ekki lokið og því ekki hægt að segja, að ekki sé full þörf fyrir fjármagn í greininni. Fjármagn í fiskveiðum og -vinnslu er hins vegar ekki bundið, og opið er fyrir fjárfestingar þeirra fyrirtækja í öðrum greinum. Er ekki einfaldast, sé vilji fyrir hendi að auka fjárfestingar í heilbrigðisgeiranum, að opna rækilega fyrir einkaframtakið í þeim geira ?"
Íslenzkur sjávarútvegur býr við skökk samkeppnisskilyrði, sem stjórnmálamenn hafa búið honum, þar sem eru há veiðigjöld, á meðan sjávarútvegur, sem sá íslenzki keppir við á mörkuðum, t.d. sá norski, býr við opinberan stuðning. Sjávarútvegurinn verður að fá að safna í sjóði, því að sveiflur lífríkisins eru miklar og nægir að nefna loðnuna í því sambandi. Enginn veit, hvert kólnun hafsins af völdum bráðnunar Grænlandsjökuls leiðir. Það er því óráðshjal af hálfu núverandi ríkisstjórnarflokka að auka enn álögur á sjávarúrveginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)