Á að hafa fé af ríkissjóði með kattarþvotti

Fjármála- og efnahagsráðherra, Daði Már Kristófersson, er á hálum ísi með því að nota 2 hæpin lögfræðiálit til að mismuna þegnum landsins stórlega varðandi endurgreiðslu á ofgreiddu fé úr ríkissjóði. Téðu hæpnu lögfræðiálitin fría Flokk fólksins þeirri skyldu að endurgreiða ríkissjóði fé, sem engin lagaheimild var til að greiða flokknum.  Þetta er hæpið, því að það gengur í berhögg við lagaákvæði og Hæstaréttardóm.  Engu breytir um stöðu Flokks fólksins gagnvart lögunum, að starfsmönnum ríkisins urðu þarna á mistök. Það bætir ekki úr sök Flokks fólksins, að honum mátti vera ljóst, að hann skorti lagaheimild til að taka við téðu fé úr ríkissjóði, enda samþykktu þingmenn hans lagasetninguna. 

Þann 12. febrúar 2025 birtist skýr grein í Morgunblaðinu frá Einari Geir Þorsteinssyni, lögfræðingi, sem varpar ljósi á lagalega hlið hins s.k. "Styrkjamáls" undir fyrirsögninni:

"Ólögmæt greiðsla til Flokks fólksins - ríkissjóður á endurkröfurétt". 

Hún hófst þannig:

"Flokkur fólksins hefur fengið samtals MISK 240 úr ríkissjóði á árunum 2022-2024, þrátt fyrir að hafa ekki verið skráður í stjórnmálasamtakaskrá, eins og lög kveða á um.  Þrátt fyrir að greiðslurnar hafi verið ólögmætar frá upphafi, virðist ekki standa til að krefja flokkinn um endurgreiðslu.  

Ef einstaklingur fær ofgreiddar bætur frá Tryggingastofnun eða opinber starfsmaður fær ofgreidd laun, er ætlazt til þess, að fjármunirnir verði endurgreiddir. Þegar stjórnmálaflokkur fær hins vegar ofgreitt fé úr ríkissjóði, virðist fjármálaráðherra líta svo á, að aðrar reglur eigi við.  Ríkissjóður virðist tilbúinn að afsala sér lögmætri kröfu um endurgreiðslu um MISK 240 af opinberu fé - án þess að láta reyna á endurkröfurétt sinn." 

Með þessu slær Viðreisnarmaðurinn og fjármálaráðherra afar varhugaverðan tón í íslenzkum stjórnmálum, sem gengur þvert á grundvallarregluna um jafnræði þegnanna gagnvart lögunum.  Það er í raun algerlega ótækt, þótt hann með því sé að bjarga skinni sólhvarfastjórnarinnar, sem er á hverfanda hveli út af þessu spillingarmáli. Þar að auki hefur nú komið fram, að ríkið leiðbeindi Flokki fólksins um frágang gagna til að sýna fram á hæfi til að taka við ríkisstyrk til stjórnmálaflokks.  Þetta gerði Skatturinn í janúar-febrúar 2024.  Ekki ætti að skipta máli, hvaðan gott kemur.  Haustið 2024 þvertók Inga Sæland fyrir, að flokkurinn hefði fengið slíkar leiðbeiningar.  Hvernig er eiginlega háttað umgengni þessa ráðherra við sannleikann ? 

Trúverðugleiki þessa ráðherra er enginn orðinn, og nú verður að fara fram ítarleg rannsókn á því, hvernig ólögmætu fé úr ríkissjóði, var ráðstafað.  Var þar farið að lögum, sem gilda um stjórnmálaflokka og styrkveitingar til þeirra, eða kemur hér til kasta refsilöggjafarinnar ? 

"Álitsgerð ríkislögmanns byggist á því, að bæði ríkið og Flokkur fólksins hafi verið í góðri trú.  Slík rök standast ekki.  Grandleysi ræðst ekki af því, hvort ríkið hafi gert mistök í verklagi, heldur af því, hvort Flokkur fólksins hafi mátt vita, að greiðslan væri ólögmæt.  Þar sem lagaskylda var skýr og skráningarskyldan ótvíræð, verður ekki annað séð en flokkurinn hafi borið fulla ábyrgð á því að hafa tekið á móti greiðslunum, sem voru ólögmætar frá upphafi."

Þingflokkur Flokks fólksins samþykkti lögin, sem hér um ræðir.  Það er ótrúlega ósvífið að halda því fram, að flokkinum hafi verið ókunnugt um efni þeirra og afleiðingar fyrir stjórnmálaflokkana. Að boðið sé upp á svona hundakúnstir af einum ríkisstjórnarflokkanna, er trúlega einsdæmi í fullveldissögu landsins.  Ríkisstjórnin er sködduð með lík í lestinni.  

"Í íslenzkum rétti gildir meginreglan, að þeim, sem fær ranglega greidda peninga, ber að endurgreiða þá.  Þetta er m.a. staðfest í dómi Hæstaréttar frá 13. september 2007 í máli nr 32/2007, en þar segir orðrétt í niðurstöðu Hæstaréttar.  

"Í íslenzkum rétti gildir meginregla um, að þeir, sem fá fyrir mistök greidda peninga, sem þeir eiga ekki rétt til, skuli endurgreiða þá."

Það fer vart á milli mála, hvernig málshöfðun gegn Ingu Sæland mundi lykta í réttarkerfinu.

"Fjármálaráðherra, Daði Már Kristófersson, hefur sagt, að málið sé "ekki á hans borði", nema að því leyti, sem varðar vinnubrögð ráðuneytisins.  Sú afstaða stenzt ekki skoðun, enda á ríkissjóður lögmæta endurgreiðslukröfu á hendur Flokki fólksins."

Ómálefnalegt er, hvernig fjármálaráðherra gerir vinnubrögð fjármálaráðuneytisins, sem kannski má nefna mistök, að aðalatriði málsins.  Það er "smjörklípuaðferð" til þess gerð að reyna að bjarga skinni ríkisstjórnarinnar.  Engin ríkisstjórn getur afborið spillingarmál af þessu tagi af hálfu eins ríkisstjórnarflokksins. 

 


Bloggfærslur 1. mars 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband