9.3.2025 | 10:46
Yfirgangur Bandaríkjanna keyrir um þverbak
Þann 28.02.2025 varð heimsbyggðin vitni að óheyrilegum lygum og dónaskap forseta og varaforseta Bandaríkjanna í garð gests síns í forsetaskrifstofu ("Oval Office") í Hvíta húsinu. Gesturinn að þessu sinni var Volodimir Zelensky, rétt kjörinn forseti Úkraínu og með nýlega einróma stuðningsyfirlýsingu úkraínska þingsins í farteskinu. Framkoma bandarísku ráðamannanna var ruddaskapur og dónaskapur af verstu gerð, sem sýnir, að nú hafa Bandaríkin tekið sér stöðu með Rússlandi og fleiri einræðisríkjum um þá nýju skipan heimsmálanna, að í stað laga og réttar, sem Bandaríkin hafa stutt af kostgæfni hingað til, skuli ráða réttur hins sterka. Þetta þýðir í raun klofning NATO, og að Evrópa stendur nú ein og verður að sjá um varnir sínar sjálf og taka að sér að standa ein með Úkraínu gegn innrás Rússa í landið, sem er þáttur í heimsvaldastefnu Kremlar.
Það er orðin spurning, hvort varnarsamningur Íslands við Bandaríkin frá 1951 er Íslandi byrði eða ávinningur, því að forseti Bandaríkjanna virðist meta allt til fjár án þess að ráða við það. Þetta eru firn mikil, og það hlýtur að ríkja hneykslan, fordæming og reiði í mörgum ranni fyrir vestan núna, einnig á Bandaríkjaþingi. Það, sem gerzt hefur, að forseti Bandaríkjanna gerist málpípa og bandamaður stríðsglæpamannsins á æðsta valdastóli Kremlar, er svo alvarlegt, að það hlýtur að vekja marga þingmenn á Bandaríkjaþingi upp við vondan draum, svo að unnt verði að virkja reglur um brottvísun úr starfi forseta Bandaríkjanna. Hér er alls ekki allt með felldu, svo að lögsókn gegn forsetanum verður ekki útilokuð.
Þann 25.02.2025 birtist fróðleg grein í Morgunblaðinu eftir Gunnar Gunnarsson, fyrrverandi sendiherra, undir lýsandi fyrirsögn:
"Nýlenduveldið Rússland"
Hún hófst þannig:
"Stríðsrekstur Rússlands í Úkraínu er landvinningastríð. Rússar hafa stundað hliðstæðan stríðsrekstur í mörg hundruð ár. Þetta gleymist gjarnan í umræðu um stríðið í Úkraínu, þar sem athyglinni er beint að samskiptum Rússlands við vestræn ríki og sér í lagi við Bandaríkin vegna aðildarumsóknar Úkraínu að NATO. Það, sem gleymist, er ekki sízt að huga að því, hvers konar land Rússland er."
Rússland er og hefur verið frá 17. öld heimsvaldasinnað ríki í nánast stöðugri útþenslu. Ef þessi útþensla verður ekki varanlega stöðvuð núna í Úkraínu, mun hún halda áfram að Eystrasalti og til vesturs. Árásargjarnt ríki á ekki að fá að ráða örlögum nágrannaríkja sinna. Þannig á ekki að hlusta á gjammið í Kreml, þegar NATO-aðild og ESB-aðild Úkraínu er til umræðu. Donald Trump hefur valdið straumhvörfum í alþjóðamálum. Hann hefur tekið sér stöðu með Rússlandi Pútíns og þvertekið fyrir aðild Úkraínu að NATO. Bandaríkin glata þessa dagana trúverðugleika sínum og trausti vestrænna bandamanna sinna með því að taka afstöðu með Rússlandi við atkvæðagreiðslur innan Sameinuðu þjóðanna. Evrópa virðist standa ein uppi í baráttunni gegn árásargjörnu og glæpsamlegu Rússlandi. Með framferði stjórnvalda í Bandaríkjunum munu þau standa uppi vinalaus og verða innlendri upplausn að bráð, en Evrópa mun axla sína ábyrgð og taka forystu á meðal lýðræðisþjóða í baráttunni gegn landvinningum einræðisríkisins Rússlands.
Hvernig mun núverandi Bandaríkjastjórn taka á Kína ? Gort Bandaríkjaforseta um eigið ágæti og samningatækni er innantómt bull og ekkert skárra en aðrar lygar hans.
"Mikið hefur verið rætt og ritað um ástæður þess, að Rússar beiti hervaldi gagnvart Úkraínu greinilega með það að markmiði að leggja landið undir sig. Þegar horft er til sögunnar, má sjá, að ríki fara ekki í stríð, nema þau telji fullreynt að ná pólitískum markmiðum með öðrum hætti en vopnavaldi. Rússar reyndu í mörg ár, en tókst ekki að ná tökum á Úkraínu með efnahagslegum og pólitískum þrýstingi.
Það, sem hvað oftast hefur verið nefnt sem ástæða fyrir innrás Rússlands í Úkraínu, er aðildarumsókn landsins að ESB og NATO. Efalítið eru það þættir, sem haft hafa áhrif á ákvarðanatöku Vladimirs Pútins. En þegar litið er til sögu samskipta Rússlands og Úkraínu, verður ekki hjá því komizt að álykta, að skýringanna er ekki sízt að leita í nýlendustefnu, sem nær mörg hundruð ár aftur í tímann. Stríðið í Úkraínu sýnir, að nýlenduveldið Rússland er enn til staðar og nálgast nærliggjandi lönd og svæði á sömu nótum og það hefur alltaf gert."
Það er þyngra en tárum taki, að fyrrverandi forysturíki hins vestræna heims skuli nú hafa svikið lit og tekið sér stöðu með þessu árásargjarna og frumstæða ríki, Rússlandi, sem leynt og ljóst reynir að grafa undan lýðræðinu í heiminum. Hvað í ósköpunum kom fyrir ? Hvers vegna gengur forseti Bandaríkjanna nú erinda Kremlverja ? Eru það hagsmunir Bandaríkjanna ? Það verður ekki séð. Eru það hagsmunir Donalds Trumps ? Það á eftir að koma í ljós, og þar eru ekki öll kurl komin til grafar.
Nýjasta illvirki Bandaríkjastjórnar gagnvart Úkraínu er að hætta að deila upplýsingum til Úkraínumanna um eldflaugar og herflugvélar, sem hefja sig á loft frá yfirráðasvæði Rússlands ásamt upplýsingum um herflutninga Rússa á landi. Þetta hefur valdið því, að Úkraínuher á erfiðara með að verjast árásum Rússa, einnig á borgaraleg skötmörk. Þá hafa Bandaríkjamenn dregið úr notagildi F16 herflugvéla flughers Úkraínu með því að gera óvirkan truflanabúnað þeirra fyrir rafeindamerki. Það mun taka Evrópu a.m.k. 2 mánuði að fylla þetta skarð, en mrdUSD 800 viðbótar fjárveiting ESB á 4 árum er skýrt merki frá ESB um, að þar á bæ er ætlunin að verða óháður Bandaríkjunum í öryggismálum, enda er augljóslega ekki hægt að treysta Bandaríkjunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)