11.4.2025 | 09:54
Vargur í véum vestanhafs
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur kúvent hefðbundinni stefnu Bandaríkjanna í mörgum mikilvægum málum, s.s. varnarmálum, utanríkismálum og viðskiptamálum. Þetta hefur hann þó ekki gert með samþykki þingsins, hvorki Fulltrúadeildar né Öldungadeildar, eins og ætla mætti, að stjórnarskrá Bandaríkjanna áskildi í stórmálum, sem hér um ræðir, heldur með forsetatilskipunum. Það er ekki nóg með, að hann hafi sýnt hefðbundnum bandamönnum Bandaríkjanna fjandskap og lítilsvirðingu, heldur hefur hann hagað sér, eins og einræðisherra, sem hann gerir sér dælt við, Pútín, Rússlandsforseta.
Trump hefur stillt Bandaríkjunum upp sem bandamanni Rússlands gegn Evrópu og þar með Úkraínu. Fjandskapurinn í garð Úkraínu hefur ekki farið á milli mála, eins og aðför að Úkraínuforseta í Hvíta húsinu í marzbyrjun 2025 sýndi, og í kjölfarið tímabundin lokun á aðgengi Úkraínuhers að hernaðarlegum gervihnattagögnum og lömun radarvarna F16 orustuflugvéla, sem úkraínski flugherinn hafði fengið frá Danmörku og Hollandi. Trump hefur ásælzt auðlindir Úkraínu neðanjarðar með mjög ósvífnum hætti og reynt að skilyrða slíka auðlindaeftirgjöf við áframhaldandi hernaðarstuðning. Hann hefur þannig rekið harðsvíraða nýlendustefnu.
MAGA (Make America Great Again) hreyfingin í Bandaríkjunum, sem Trump fer fyrir, hefur að mörgu leyti sömu stórveldastefnu og rússneski hugmyndafræðingurinn Alexander Dughin boðar í Rússlandi, þ.e. að nágrannaríki Rússlands eigi að beygja sig í duftið gagnvart útþenslustefnu Rússlands. Þannig er MAGA á móti sjálfstæðri og óháðri Úkraínu, Kanada og Grænlandi. Trump hefur farið fram af dæmalausri ósvífni með landakröfum á hendur Kanada og Danmörku. Framkoma hans gagnvart evrópskum bandamönnum hefur rýrt traust þeirra gagnvart hernaðarstuðningi Bandaríkjamanna, komi til beinna hernaðarátaka við Rússland, t.d. í Eystrasaltslöndunum, í svo miklum mæli, að þeir þora ekki lengur að reiða sig á varnarmátt Bandaríkjanna, heldur hafa hafið endurvígvæðingu. Þótt Þýzkaland sé fyrst nú þessa dagana að fá nýja ríkisstjórn eftir Sambandsþingskosningarnar 23.02.2025, hefur þingið samt veitt gríðarlegum fjármunum (allt að trnEUR 1) til þýzka hersins að frumkvæði verðandi kanzlara, Friedrich Merz. Í Evrópu hafa orðið vatnaskil, og ríkin þar stefna á að fylla skarð Bandaríkjamanna, hvar sem því verður við komið.
Nýjasta uppátæki Bandaríkjaforseta er að tollsetja allar vörur til Bandaríkjanna. Ætlun hans með því er að rétta af vöruskiptahalla Bandaríkjanna og laða framleiðslustarfsemi til þeirra. Hvorugt þessara ætlunarverka mun takast með því að fara í tollastríð við umheiminn. Ef viðskiptajöfnuðurinn er neikvæður, er það merki um of sterkan USD, og sáralítið mun verða um fjárfestingar í vöruframleiðslu í Bandaríkjunum í skjóli tolla, því að markaðirnir eru einfaldlega að glata tiltrú á Bandaríkjunum í ljósi stjórnarhátta Donalds Trumps. Þetta kom greinilega í ljós miðvikudaginn 9. apríl 2025, þegar greinileg merki voru um, að Trump væri að steypa Bandaríkjunum í fjármálakreppu. Það var ekki nóg með gríðarlegt fall á hlutabréfamörkuðum, um trnUSD 10 á heimsvísu, heldur tóku skuldabréf að falla líka, einnig skuldabréf ríkissjóðs Bandaríkjanna. Ríki, sem Bandaríkjastjórn hefur beitt háum tollum, eiga mikið af þessum ríkisskuldabréfum, og þau hika ekki við að selja þau til að koma Bandaríkjunum á hnén. Þetta gerðist einmitt ofangreindan miðvikudag, þegar Trump kastaði hvíta handklæðinu inn í hringinn og lýsti yfir 90 daga hléi á þessu tollastríði, nema við Kína. Hann mun verða að lúta í lægra haldi fyrir Kínverjum í þessu tollastríði m.a. vegna þess, að Kínverjar eiga mikið af þessum bréfum, geta veikt USD og valdið verðbólgu í Bandaríkjunum.
Enginn forseti í sögu Bandaríkjanna hefur framið jafnstórkarlaleg mistök í upphafi kjörtímabils og Donald Trump á þessu seinna kjörtímabili sínu. Mistökin eru legio, en þau verstu eru tollastríð hans gegn öllum heiminum, sem hafa dregið mjög úr hagvexti í heiminum og gætu hrint honum í samdráttarskeið, og Bandaríkin stóðu frammi fyrir fjármálakreppu, þegar Donald dró í land. Hann hefur þegar valdið gríðarlegu tjóni með uppátæki sínu, og traustið til USD sem varasjóðsmyntar og til bandarískra stjórnvalda hefur þegar beðið alvarlegan hnekki. Þetta eru hentistefnustjórnvöld, sem reka úrelta stefnu um skiptingu heimsins á milli þriggja víðáttumikilla ríkja, Bandaríkjanna, Rússlands og Kína. Hin mikla stefnubreyting gagnvart Evrópu er, að þessi stefna virðist eftirláta Rússum Evrópu. Af þessum sökum reykspólar Evrópa nú með þungar fúlgur fjár við vígvæðingu. Evrópa ætlar ekki að þurfa að berjast við Rússa í Berlín, og þess vegna verður öll áherzla lögð á varnir hins gamla yfirráðasvæðis Ráðstjórnar-Rússlands í Evrópu, þ.m.t. Úkraínu.
Það kann að vera, að núverandi stjórnvöld Bandaríkjanna vilji flokka Ísland sem yfirráðasvæði sitt, sbr hegðun þeirra gagnvart Dönum og Grænlendingum. Þetta á þó eftir að skýrast, en kæra Íslendingar sig um að vera á yfirráðasvæði stjórnvalda, sem haga sér eins og Trump-stjórnin ? Við ákvarðanatöku hér þarf að greina stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum, þ.e. hvort líklegt sé, að flæða muni senn undan MAGA-hreyfingunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)