25.4.2025 | 09:55
Orð og gjörðir fara ekki saman hjá ríkisstjórninni
Ráðherrarnir skilja ekki stefnuskrá ríkisstjórnarinnar, sem þeir sitja í, eða þeir eru ráðnir í að hafa hana að engu, e.t.v. af því að þeir vilja upphefja pólitískar grillur sínar og rökstyðja með fáránlegum reiknigrunni, sem framkallar viðbótar skattheimtu af útflutningsatvinnuvegum landsins. Í ósvífni sinni kalla ráðherrarnir þetta fúsk leiðréttingu. Með þessu skjóta þeir sig og raunar landsmenn alla í fótinn, þvi að boðuð skattheimta getur engan veginn framkallað betri lífskjör í landinu. Þvert á móti mun hún rýra skattstofna og draga úr því, sem fyrirtæki og launamenn bera úr býtum. Skattheimtan á sjávarútveginn mun veikja dreifðar byggðir landsins og draga má í efa, að þessi leiðrétting standist íslenzk lög um skattheimtu.
Fyrir þjóðhagslegri óhagkvæmni leiðréttingarinnar færði einn færasti auðlindahagfræðingur landsins, prófessor emeritus Ragnar Árnason, gild rök í Morgunblaðsgrein sinni 16. apríl 2025:
"Atlaga að grunnatvinnuvegum þjóðarinnar".
Hún hófst þannig:
"Í stefnuskrá ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur eru fögur orð um að efla atvinnulífið og auka verðmætasköpun. Þar er því lýst þegar í upphafi, að ríkisstjórnin muni "vinna að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífi" og í aðgerðalista því m.a. lofað, að ríkisstjórnin muni stuðla að aukinni framleiðni (aðgerð 5) og hagstæðum rekstrarskilyrðum fyrirtækja (aðgerð 10).
Þessi stefnumið eru skynsamleg, enda er aukin verðmætasköpun forsenda þess, að unnt sé að bæta hag þjóðarinnar, svo [að] ekki sé minnzt á að draga úr fátækt, efla velferðarkerfið, styrkja menntakerfið og greiða hina svo kölluðu innviðaskuld, sem einnig er á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar."
Nú er komið í ljós, að ríkisstjórnina skipa frasahöfundar, sem þekkja ekkert til atvinnulífs og skilja þar af leiðandi ekki, hvaða afleiðingar aðgerðir hennar hafa á atvinnulífið, þjóðarhag og lífskjör. Ráðherrarnir hafa ekkert jarðsamband. Ríkisstjórnin er þar af leiðandi gagnslaus fyrir öll framfaramál, sem leitt geta til batnandi hags almennings, en hún er miklu verra fyrirbæri. Hún er þjóðhagslega hættuleg, þ.e.a.s. hún slengir fram pólitískum hugðarefnum sínum að algerlega óathuguðu máli og annaðhvort skilur ekki eða kærir sig kollótta um, að fyrirhugaðar skattahækkunaraðgerðir hennar vinna þvert á frasana, sem Ragnar Árnason vitnar til hér að ofan. Þess vegna er þetta gjörómöguleg ríkisstjórn, sem á sér engan tilverurétt. Hún er skaðleg og mun ekki leggja grunn að nokkrum nytsamlegum málum, þótt annað hafi mátt ætla af stefnuskránni. Ráðherrarnir hafa gert hana að umbúðum án innihalds. Það kann ekki góðri lukku að stýra að hafa ekkert úthugsað erindi, en vera samt full af grobbi.
"Minna framleiðsluverðmæti í ferðaþjónustu og sjávarútvegi þýðir að sama skapi minni þjóðartekjur. Minni þjóðartekjur þýða minna ráðstöfunarfé til neyzlu og því minni hagsæld landsmanna. Einnig verður minna ráðstöfunarfé til fjárfestinga og því minni hagvöxtur. Þjóðartekjur í framtíðinni dragast því enn frekar saman og þar neð hagsæld. Því mun koma að því, að öllum líkindum innan tiltölulega fárra ára, að opinberar skatttekjur dragist saman þrátt fyrir þyngri skattbyrði á sjávarútveg og ferðaþjónustu".
Hvaða lýsing er þetta ? Þetta er ósköp venjuleg lýsing á afleiðingum gjörða vinstri stjórnar. Hún kom til valda undir fölskum fána, og K.Frost. ætlaði ekki að tjalda til einnar nætur, heldur þóttist vera með plan til 8 ára. Í skápnum reyndist ekkert haldbært, heldur aðeins beinagrind sósíalistans, sem hefur ekkert vit á rekstrarhagfræði og skattleggur allt, sem hreyfist, þar til það hreyfist ekki lengur. Landsmenn köstuðu vinstri stjórninni 2009-2013 af sér með róttækum hætti. Ríkisstjórn K. Frost. á ekkert erindi annað en það, sem búast má við úr vopnabúri afdankaðra vinstri manna. Kristrún hefur ekki mótað neina nýja hugmyndafræði jafnaðarmanna, sem getur blásið lífi í þessa ríkisstjórn. Innantómir frasar eru aðeins til að kasta ryki í augu fólks.
"Aukin skattheimta á grunnatvinnuvegina, sama hvaða nafni hún er kölluð, dregur úr umsvifum þeirra og minnkar þjóðartekjur og hagvöxt. Hún rýrir því lífskjör landsmanna bæði í bráð og lengd. Vegna minni þjóðartekna munu opinberar skatttekjur jafnfram óhjákvæmilega minnka, er fram í sækir.
Því er eðlilegt, að spurt sé, hví ríkisstjórnin hafi kosið að leggja í þessa vegferð. Er ekki hlutverk hennar að bæta lífskjör landsmanna ? Telji hún, að vandinn sé að brúa fjárhalla ríkissjóðs, hefði ekki verið miklu nær lagi að minnka ónauðsynlegustu ríkisútgjöldin ? Þar er vissulega af nægum útgjaldaliðum að taka, sem lítt eða ekki nýtast fyrir íslenzka ríkisborgara."
Það kann vel að vera, að ríkisstjórnin sé í vandræðum með fjárlagahallann, því að niðurskurður útgjalda á varla breiðan samhljóm innan þingflokka stjórnarinnar, en það er algerlega siðlaust að grípa þá til sérskattlagningar á grunnatvinnuvegi þjóðarinnar, sem í tilviki sjávarútvegsins gengur þá svo nærri fjárhagnum að líkja má við eignaupptöku, og í tilviki ferðaþjónustunnar þýðir að gera slaka samkeppnisstöðu vonlausa, sem þýðir "hrun í stofninum".
Hugsunin á bak við skattheimtu ríkisstjórnarinnar af grunnatvinnuvegunum er röng, vegna þess að hún veikir afkomu þeirra um of, sem koma mun niður á lífsafkomu almennings í landinu vegna samdráttar í þessum greinum af völdum ofvaxinnar skattheimtu, eins og Ragnar Árnason hefur sýnt fram á. Ofan á þetta bætist, að grundvöllur hækkandi skattheimtu á sjávarútveginn er reistur á greiðslugetu erlendra kaupenda, sem búa við aðstæður, sem eru ósambærilegar við íslenzkar fiskvinnslur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)