30.4.2025 | 18:21
Er auðlindarenta fyrir hendi í íslenzkum sjávarútvegi ?
Svarið við spurningunni í fyrirsögninni er lykilatriði til að meta, hvort eðlilegt geti talizt að leggja viðbótar skatt á sjávarútveginn (tekjuskattur er lagður á öll fyrirtæki). Sérstaða íslenzka sjávarútvegsins er fiskveiðistjórnunarkerfið, sem lokar aðgangi að fiskimiðunum í íslenzku fiskveiðilögsögunni fyrir öðrum en þeim, sem geta sýnt fram á eignarhald aflahlutdeildar fiskveiðiskips. Þetta er aðalreglan, en fleiri kerfi eru við lýði í lögsögunni, mishagkvæm. Aflahlutdeildir, kvótar, ganga kaupum og sölum og eru einnig leigðar. Má halda því fram, að með kaupum á aflahlutdeild hafi auðlindarenta verið greidd, því að aflahlutdeildin er afleiðing aðgangstakmarkana ríkisins að miðunum, en þessar takmarkanir eru grunnforsenda arðsemi veiðanna. Um þetta sagði "Hagræni hópurinn" í skýrslu "Auðlindarinnar okkar - sjálfbær sjávarútvegur":
Sagt er, að líklegt sé, að auðlindarenta í sjávarútvegi hjá þeim, sem nú stunda útgerð, sé lítil sem engin, "þar sem þau hafa nú þegar greitt fyrir hana í verði aflaheimilda. Við þetta má bæta, að þegar og ef auðlindarenta myndast í sjávarútvegi, þá sé um að ræða áhrif aukningar í afla eða hagstæðra gengisbreytinga".
Auðlindarenta er almennt skilgreind sem arður við starfsemi auðlindanýtingar, sem er umfram arðsemi á hefðbundnum samkeppnismörkuðum. Ekki er vitað til, að nokkur hafi með fullnægjandi hætti sýnt fram á þessa auðlindarentu yfir samfellt 5 ára tímabil eða lengur. Það hefur verið reiknað út, að veiðigjöld hafi numið 16 %-18% af reiknaðri auðlindarentu 2010-2023, en hún var þá fengin með röngum forsendum, sem sé, að útflutningsverðmæti allra sjávarafurða var lagt til grundvallar, þegar rétt er að miða við aflaverðmæti upp úr sjó.
Í skýrslunni "Auðlindinni okkar", 2022, stóð m.a.:
""Skýrar vísbendingar eru um stærðarhagkvæmni í íslenzkum sjávarútvegi og sýnt hefur verið fram á, að álagning veiðigjalda leiði til samruna fyrirtækja í greininni, þannig að þeim fækkar á sama tíma og þau stækka. Þetta er í góðu samræmi við rannsóknir, sem sýnt hafa fram á, að stærstu og fjárhagslega sterkustu fyrirtæki í sjávarútvegi greiði meirihluta innheimtra auðlindagjalda," segir í skýrslunni."
Ríkisvaldið skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækjanna með sértækri skattheimtu. Þetta á við sjávarútvegsfyrirtækin innbyrðis og þau sem heild innanlands (samkeppni um fjármagn og starfsmenn) og utanlands (markaðsstaða).
"Jafnfram segir, að það hafi verið "færð fyrir því rök, að álagning veiðigjalda umfram getu hennar til greiðslu á hverjum tíma tefli samkeppnishæfni íslenzks sjávarútvegs í tvísýnu. Einnig hefur verið bent á, að álagning veiðigjalda geti rýrt skattstofna hins opinbera, þegar til lengri tíma er litið, sem aftur geti skilað sér í minni efnahagslegum ábata af auðlindinni en annars væri."
Það eru til hagfræðilegar aðferðir til að reikna út þá skattheimtu á fyrirtæki, tæplega þó á atvinnugrein, sem er líklegust til að skila hinu opinbera hámarks tekjum til lengdar, þegar "allt" er tekið með í reikninginn. Núverandi ríkisstjórn getur ekki sýnt fram á neina slíka tilburði. Hún gerir sér lítið fyrir og tvöfaldar sérskattheimtu á sjávarútveginn og skýtur sig þar með í fótinn, því að hún er örugglega komin langt út yfir "kjörskattheimtu". Með fáránlegri aðgerð, sem á sér engin fordæmi hvorki hér né annars staðar, eykur hún skattheimtuna mjög mikið í einu stökki í stað vandaðrar greiningar. Þessari flaustursríkisstjórn er ekki treystandi til að stjórna landinu almenningi til heilla.
"Hagræni hópurinn ritaði 8. kafla í skýrslu Auðlindarinnar okkar, og er þar fjallað um þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. Lagði hópurinn fortakslaust til, að aflamarkskerfi yrði viðhaldið við stjórn fiskveiða.
Er bent á, að kerfið hafi gert útgerðum kleift að draga úr offjárfestingu í veiðum og vinnslu, [skapað] skilyrði fyrir skipulagða sókn og minnkað álag á vistkerfi sjávar. Vandamál, sem til umræðu eru í þjóðfélaginu hér á landi, séu því eðlisólík því, sem gerist erlendis; hér hafi aðallega verið til umræðu, hvernig dreifa eigi arði af nýtingu auðlindarinnar, en erlendis sé litlum sem engum arði til að dreifa."
Þessari umræðu var komið af stað með fullyrðingu um, að auðlindarenta fyndist í sjávarútvegi sem heild, en sú fullyrðing reyndist röng. Þar af leiðandi eru veiðigjöldin reist á sandi, og hækkunarfyrirætlun stjórnvalda nú er stórskaðleg.
""Það, að veiðigjöld hafi numið að meðaltali 16 % - 18 % af reiknaðri auðlindarentu, er, að öðru óbreyttu, ekki vísbending um, að núverandi veiðigjöld séu of lág. Það veldur vanda við fyrrgreinda útreikninga, að metin renta er reiknuð sem hlutfall af útflutningsverðmæti allra sjávafurða, en í þeirri upphæð er bæði sá virðisauki, sem átt hefur sér stað í vinnslu, markaðsstarf o.þ.h., auk þess sem virði afla utan Íslandsmiða er einnig tekið með. Veiðigjöld eru hins vegar lögð á veiðarnar sjálfar sem afgjald fyrir notkun og ættu því frekar að miðast við aflaverðmæti úr sjó.""
Það gætir skilningsleysis á hugtakinu auðlindarenta, þegar virðisauka vinnslunnar er bætt við aflaverðmæti úr sjó til að finna auðlindarentu. Það hefur hingað til mistekizt að réttlæta veiðigjöldin með auðlindarentu, því að hana er ekki að finna til lengdar hjá útgerðunum, þ.e.a.s. það hefur enn ekki verið sýnt fram á meiri arðsemi fyrirtækja í sjávarútvegi en í öðrum greinum yfirleitt. Stafar það líklega af sveiflum í lífríki sjávar og af því, að hægt hefur miðað við uppbyggingu þorskstofnsins. Hafa verður þar í huga gríðarlegt afrán hvala í íslenzku fiskveiðilögsögunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)