Ranghugmyndir ríkisstjórnar um skattheimtu

Sjávarútveginum er stjórnað af ríkisvaldinu með árlegri úthlutun aflaheimilda á skip, aflahlutdeild, í samræmi við ákvarðað heildaraflamark á tegund, sem er reist á ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar og langoftast samhljóða henni. Aðeins útgerðarmenn, sem eiga aflahlutdeild á skip, og þeir hafa yfirleitt keypt hana á frjálsum markaði, fá úthlutað veiðileyfi. Þeir hafa þannig keypt sér aðgang að þessari takmörkuðu auðlind, sem er í umsjón ríkisvaldsins. Þeir áttu ekki von á að þurfa að borga meira fyrir veiðiheimildir. Þessi ríkisafskipti eru mjög mikil af þessari tilteknu atvinnugrein , sem fyrir 1983 var opin öllum, og hún var rekin með bullandi tapi á tímum minnkandi fiskgengdar og allt of margra veiðiskipa.  Ríkisafskiptin og lokunin voru réttlætt með nauðsynlegri verndun nytjastofnanna gegn ofveiði, og að þannig væri verið að verja hagsmuni þjóðarinnar, enda hefðu miðin löngum verið almenningur, þ.e. öllum opin.  Miðin eru augljóslega ekki almenningur lengur, heldur hafa þeir einir rétt til nytja, sem kaupa sér aðgang.  Um þetta eru nokkrar undantekningar, t.d. strandveiðarnar. Engin ákvæði eru um fjölda veiðiskipa, en með fjárfestingum í nýrri tækni hefur framleiðni þeirra aukizt.  Auðvitað á fjárfestirinn að njóta góðs af því, en ekki ríkið sérstaklega. 

Útgerðarmenn báðu ekki um þetta kvótakerfi, heldur var það stjórnvaldsákvörðun, en ekkert var á sínum tíma rætt um greiðslu fyrir aðgang að miðunum á grundvelli auðlindarentu eða annars. Með frjálsu framsali aflaheimilda frá 1989 jukust mjög viðskipti með kvóta, og kaupendur voru í góðri trú um, að kvótinn væri eign þeirra og jafngilti veiðileyfi á ótilgreindu magni.  Þegar hagur strympu (útgerðanna) tók að vænkast, komu upp öfundarraddir um, að þetta lokaða kerfi byði upp á meiri hlutfallslegan hagnað en aðrar atvinnugreinar. Var þessi umframarðsemi nefnd auðlindarenta, en þarna voru menn of fljótir á sér, því að engum hefur tekizt að sýna fram á með gildum rökum auðlindarentu í sjávarútvegi á Íslandi, enda reksturinn háður duttlungum náttúrunnar, sem takmörkuð þekking er á. Samt hafa stjórnvöld hérlendis um hríð  lagt á s.k. veiðileyfagjald, sem er viðbótar tekjuskattur á útgerðirnar á grundvelli einhverrar meintrar auðlindarentu.  Þarna er vitlaust gefið. 

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, skrifaði grein um verðmætasköpun og skattheimtu á sjávarútveginn í Morgunblaðið 1. apríl 2025 undir fyrirsögninni:

"Íslenskur sjávarútvegur er óvinurinn".

Eins og fyrirsögnin gefur til kynna, er þessi skattheimta af pólitískum toga að mati framkvæmdastjórans, og engin efnahagsleg rök hníga að henni, því að hún er dæmd til að draga úr verðmætasköpun og þar með heildarskattspori sjávarútvegsins til ríkis og sveitarfélaga. Ríkið er nú að undirbúa alvarleg mistök við tekjuöflun.  Eftirfarandi tilvitnun í Sigríði Margréti ætti að færa mönnum heim sanninn um það:

"Virkur tekjuskattur [þ.e. raun tekjuskattur - innsk. BJo] fyrirtækja er í dag tæp 38 %.  Virkur tekjuskattur þeirra fyrirtækja, sem stunda fiskveiðar, er 58 %.  Nýtt frumvarp atvinnuvegaráðherra mun hækka virkan tekjuskatt þeirra, sem stunda fiskveiðar, í 76 %."  

Af þessu er ljóst, að um skemmdarverk stjórnvalda á heilli atvinnugrein er að ræða, sem lama mun starfsemina, valda fjármagnsflótta úr greininni og fjárfestingar og eiginfjárstaða munu ekki verða svipur hjá sjón.  Þessar tölur sýna svart á hvítu, að verðmætasköpun og skattspor munu dragast saman vegna glórulausrar skattheimtu samkvæmt lögmáli Lafflers, og sveitarfélög og ríkissjóður munu tapa á þessu.  Með flumbruhætti og pólitískum einstrengingshætti er þessi vinstri stjórn að skjóta sig í fótinn. Ekki kæmi á óvart, að slík ofurskattheimta, sem gera mun út af við sum minni útgerðarfélögin og þrýsta á samþjöppun, væri brot á stjórnarskrárákvæði um atvinnufrelsi. Það þarf mjög sterk rök til þess að réttlæta mismunandi tekjuskattsheimtu af atvinnugreinum, því að hún skekkir samkeppnisstöðu og jafngildir mismunun ríkisvalds gagnvart borgurunum.

Svanur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Bláa hagkerfisins ehf og sjávarútvegsfræðingur, skrifaði um málefni sjávarútvegsins af reynslu sinni og þekkingu í Morgunblaðið 18.02.2025 undir fyrirsögninni:

"Hvað er raunverulegt gagnsæi í sjávarútvegi ?"

"Ein stærsta breytingin, sem ríkisstjórnin boðar í sjávarútvegsmálum, er aukin skattheimta á greinina í formi s.k. auðlindaskatta.  En hvers vegna er verið að herða skattheimtu á grein, sem hefur þegar skilað ríkinu verulegum tekjum ?  Íslenzkur sjávarútvegur greiðir bæði veiðigjöld og tekjuskatta og stendur ekki undir neinum ríkisstyrkjum, ólíkt mörgum öðrum atvinnugreinum.  Í raun er Ísland eina landið innan OECD, þar sem sjávarútvegur greiðir meira til ríkisins en hann fær í stuðning."

Auðlindagjald þetta er reist á falsrökum, enda hefur Hæstiréttur jafnan nefnt fyrirbærið skatt, þegar hann hefur fjallað um mál af þessu tagi.  Sjávarútvegurinn hefur mun meira  vægi í byggðarlögum úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu, og þess vegna má nefna þessa skattheimtu byggðaskattheimtu.  Þingmenn dreifbýlisins hljóta að beita sér gegn þessum fjármagnsflutningi. 

"Ef útgerðum verður gert að greiða enn hærri auðlindaskatta, þarf að svara þeirri spurningu, hvernig tryggja á áframhaldandi samkeppnishæfni greinarinnar.  Sjávarútvegsfyrirtæki í samkeppnislöndum okkar njóta opinbers stuðnings, en hér er greinin stöðugt skotmark pólitískra ákvarðana, sem draga úr rekstraröryggi. Í stað þess að styrkja greinina og tryggja stöðugleika er ríkisstjórnin að leggja grunn að óvissu, sem gæti grafið undan fjárfestingum og nýsköpun í greininni."  

Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru handahófskennd.  Það er engin tilraun gerð til að grafast fyrir um auðlindarentuna, heldur er fyrri skattheimtuformúla notuð með uppboðsmarkaðsverðum, sem eru ómarktæk til þessara nota, því að tiltölulega mjög lítið magn fer um þá, og fyrir uppsjávarfiskinn er leitað til norskra uppboðsmarkaða, þar sem  gjörólíkar markaðsaðstæður ríkja. Þetta eru óviðunandi vinnubrögð.  Það dettur engum heilvita manni í hug, að tvöfalt arðsamara sé að gera út fiskiskip í íslenzkri lokaðri landhelgi en að meðaltali að reka annars konar fyrirtæki á Íslandi, en þetta verður hlutfall virks tekjuskatts útgerða og annars konar fyrirtækja á landinu (76 %/38 %).  Þessi fyrirhugaða skattheimta er glórulaus.  Auðvitað á aðeins eitt virkt tekjuskattshlutfall að vera á fyrirtækjum landsins.  

"Ef raunverulegt gagnsæi á að vera markmið, ætti umræðan ekki að snúast um eignatengsl, heldur um skýra stefnu í auðlindastýringu, betri greiningu og langtímaáætlun um aflaheimildir.  Það þarf að tryggja rekstrarlegan fyrirsjáanleika og koma á skilvirkum aðgerðum, sem styðja við byggðaþróun og atvinnu.  Þetta snýst ekki um aukið eftirlit og reglugerðir, sem kæfa greinina, heldur um að tryggja, að hún geti starfað áfram á sjálfbærum og arðbærum grunni."

Núverandi stjórnvöld á Íslandi fara þveröfuga leið við auðlindastýringu m.v. ofangreint.  Það er engin tilraun gerð til að greina auðlindarentuna og ákveða, hversu stór hluti hennar skuli ganga til ríkisins.  Þvert á móti er að hætti lýðskrumara ákveðið að reikna veiðigjaldið á bolfiski út frá innlendum uppboðsmarkaði, sem kippa mundi grundvellinum undan innlendri fiskvinnslu, væri hann lagður til grundvallar, og að þessari dæmalausu lýðskrumsákvörðun tekinni, eru engir tilburðir hafðir uppi um að  áhættugreina þessa ákvörðun m.t.t. samkeppnishæfni, sjálfbærni, atvinnuöryggis, og tekna ríkissjóðs og sveitarfélaga. Varðandi veiðigjöld á uppsjávarfiski datt búrókrötunum það snjallræði í hug að miða við uppboðsverð í Noregi.  Allt er þetta svo óvandað, að til stórskammar er, þegar haft er í huga, hversu mikið er í húfi. Flaustur og flumbrugangur ríkisstjórnar K. Frost. er slíkt, að halda mætti, að náungi að nafni Donald Trump hafi haft hönd í bagga.   

 

 

 

  

 


Bloggfærslur 8. apríl 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband