27.5.2025 | 10:47
Búskaparhættir sólhvarfastjórnarinnar
Ríkisstjórnarflokkarnir sögðu kjósendum fyrir kosningar, að þeir myndu ekki hækka skatta, næðu þeir völdum. Samt hafa ýmis gjöld hækkað, s.s. kolefnisgjald, en ríkisstjórnin hyggst höggva í knérunn útflutningsatvinnuveganna á mjög hæpnum efnahagslegum forsendum. Þessu má líkja við bónda, sem sumir mundu kalla búskussa, sem þarf að ná endum saman í fjárhag búsins og ákveður að láta útgjöldin að mestu eiga sig, þótt sum megi missa sig, en ákveður að spara við búpeninginn í fóðri. Þar með munu tekjur búsins dragast saman og hallinn af búrekstrinum aukast. Þessum búskaparháttum er trúandi á Bakkabræður og vinstri sinnaða stjórnmálamenn.
Áætlanagerð ríkisbúskaparins mun ekki vera upp á marga fiska, og útgjaldaáætlanir líklega stórlega vanáætlaðar vegna launahækkana og ákvörðunar um að láta ýmsar greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins fylgja launavísitölu í stað neyzluvísitölu. Nú hefur forsætisráðherra boðað erfiðar aðgerðir á tekju- og útgjaldahlið ríkissjóðs til að ná hallalausum ríkisbúskapi 2027. Hvar mun stjórnin bera niður ? Það verður henni erfitt í ljósi kosningaloforða. Forystugrein Morgunblaðsins 3. apríl 2025 fjallaði um ríkisbúskapinn undir heitinu:
"Ábyrg ríkisfjármál".
"Í gær birtist í Viðskipta-Mogganum viðtal við Álfrúnu Tryggvadóttur, hagfræðing hjá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) og áður hjá fjármálaráðuneytinu, sem varpar ljósi á brýna þörf fyrir bætta áætlanagerð og hagræðingu í ríkisfjármálum á Íslandi.
Sú þörf er ekki ný af nálinni, og þar hefur vissulega margt verið aðhafzt af hálfu fyrri fjármálaráðherra, sem til framfara horfir. Nefna má rammafjárlög og fjármálaáætlun, sem voru vissulega til bóta, en hafa einnig haft ýmsar óætlaðar afleiðingar, sem bæta þarf úr.
Þessa dagana ræða stjórnvöld fjálglega um stöðugleikareglu, sem kann að reynast lofsverð, en á hinn bóginn getur hún opnað nær sjálfvirkum skattahækkunum leið. Það verður að forðast í lengstu lög. Á hinn bóginn blasir við nauðsyn þess, að hér verði útgjaldaregla lögfest og hún höfð að meginreglu við stjórn opinberra fjármála, sem stuðlaði að ábyrgri stjórn ríkisfjármála og auknu jafnvægi í þjóðarbúskapinum."
Útgjaldaregla af þessu tagi getur t.d. verið ákveðið hlutfall af vergri landsframleiðslu, VLF. Nú mun takast að lækka vaxtakostnað ríkissjóðs með sölu á Íslandsbanka. Á meðan s.k. innviðaskuld hangir yfir Alþingi, er ekki líklegt, að ríkisútgjöld verði lækkuð varanlega sem þessu nemur. Það má örugglega finna eignir í eignasafni ríkisins, sem borgar sig að selja, en aðrar er rétt að halda í af m.a. samkeppnisástæðum.
"Álfrún bendir á, að opinber útgjöld hafi víðast aukizt mikið á undanförnum árum, en efnahagsþrótturinn síður. Því hafi þess víða verið freistað að ná tökum á þeim með útgjaldagreiningum, kerfisbundinni skoðun á útgjaldagrunni til að leita hagræðingar án þess að laska hin félagslegu kerfi. Nokkur árangur hefur náðst í löndum eins og Danmörku, Hollandi og Kanada. Slík nálgun hafi hins vegar ekki náð fótfestu á Íslandi að hluta til vegna þess, að menn hafi ekki fundið neinn hvata til slíkrar skoðunar í miðjum efnahagsuppgangi."
Ríkisstjórn K. Frost. lét í veðri vaka í upphafi ferils síns, að hún hefði mikinn hug á sparnaði, kallaði eftir sparnaðartillögum almennings, en hafnaði svo flestum tillagnanna, og enginn veit, hverjar lyktirnar verða. Hvers vegna fór hún ekki í alvöru átak með því t.d. að kalla til ráðuneytis Álfrúnu Tryggvadóttur, hagfræðing hjá OECD ? Sýndarmennskan er of áberandi í fari ríkisstjórnarinnar.
Í lok forystugreinarinnar sagði:
"En það þarf líka góð vinnubrögð.Flaustrið við gerð frumvarpsdraga um tvöföldun veiðigjalda bendir til þess, að þeim sé stórlega ábótavant. Ekki verður séð, að þar hafi gagna verið aflað eða þau greind um afleiðingar svo stórkarlalegrar og fyrirvaralausrar breytingar, hvað þá að samráð hafi verið haft við hagaðila í sjávarútvegi, sveitarfélögum eða verkalýðshreyfingu, svo [að] augljós dæmi séu nefnd. Fjármálaráðherra virðist ekki einu sinni hafa reiknað út áhrif þessara breytinga á ríkissjóð. Þar verður að gera betur."
Téð frumvarp er svo ambögulegt, að það brýtur sennilega í bága við stjórnsýslulög og stjórnarskrá um álagningu skatta. Það er vegna þess, að verðviðmiðanir frumvarpsins, sem skattheimtan er reist á, eru út úr kú. Téð verð verða aldrei grunnur að ráðstöfunarfé fyrirtækjanna, sem skattheimtan beinist að. Varðandi bolfiskinn er um að ræða jaðarverð, sem erlendir fiskverkendur móta með tilboðum á uppboðsmarkaði, verksmiðjur í vernduðu umhverfi lægri launa en hér og stundum niðurgreiddar af hinu opinbera. Varðandi uppsjávarfiskinn er ætlunin að miða við verð í Noregi, sem myndast við markaðsaðstæður, sem ómögulegt er að varpa yfir á Ísland af nokkru viti. Grundvöllur hinnar væntanlegu nýju skattheimtu er þannig erlendur og ekki myndaður í viðskiptum fyrirtækjanna, sem á að heimta skattinn af. Þetta er óboðlegt með öllu og svo mikið óréttlæti, að enginn friður getur orðið um. Líklegt má telja, að til málshöfðana komi til að láta reyna á lögmæti vinnubragða af þessu tagi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)