8.5.2025 | 17:49
Refsiskattar K. Frost. stjórnarinnar
Ríkisstjórn K. Frost., Sólhvarfastjórnin, er gamaldags vinstri stjórn, óspennandi með öllu fyrir þá, sem vinna að verðmætasköpun og gera sér grein fyrir mikilvægi jákvæðrar hugmyndaauðgi (sköpunargáfu) og nýsköpun. Hvað sem líður fögrum fyrirheitum, vinna gjörðir K. Frost. beinlínis gegn aukinni verðmætasköpun og nýsköpun. Hún gerir þetta með skattheimtu langt handan meðalhófs á fyrirtæki og fjölskyldur í dulbúningi "leiðréttinga". Þegar byrðar misheppnaðs tollastríðs Bandaríkjastjórnar gegn heiminum leggjast ofan á háskattastefnu ríkisstjórnarinnar, horfir óbjörgulega við um hagvöxt á Íslandi. Með þessu áframhaldi munu áætlanir ríkissjórnarinnar margar hverjar falla um sjálfar sig, því að þær eru reistar á hagvexti í íslenzka hagkerfinu, sem illa ígrundaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar munu drepa í dróma.
Þann 2. apríl 2025 birtist viðtal Viðskiptamoggans við forstjóra eins sjávarútvegsfélagsins, Ísfélagsins, Stefán Friðriksson, undir fyrirsögninni:
"Gæti þýtt allt að þreföldun veiðigjalda".
"Stefán Friðriksson, forstjóri Ísfélagsins, varar við alvarlegum afleiðingum þeirra áforma stjórnvalda að hækka veiðigjöld og kolefnisgjöld á sjávarútveginn. "Fyrir Ísfélagið gæti þetta þýtt þreföldun veiðigjalda sökum þess, hvað við veiðum mikið af uppsjávarfiski - þetta eru háar upphæðir, sem hafa bein áhrif á rekstur, fjárfestingar og störf í sjávarútvegi", segir hann.
Félagið, sem rekur útgerðir og vinnslu í Vestmannaeyjum, Fjallabyggð og á Þórshöfn, er stórt í uppsjávarfiski og því sérstaklega viðkvæmt fyrir loðnubresti. Stefán segir, að núverandi stefna stjórnvalda sendi röng skilaboð til fyrirtækja, sem hafa verið að fjárfesta í nýsköpun og sjálfbærni.
"Það blasir við, að verið sé að slátra mjólkurkúnni - sjávarútvegurinn skilar miklum verðmætum til þjóðarbúsins og til samfélaga á landsbyggðinni bæði beint og óbeint. Í stað þess að hlúa að greininni stendur til að refsa henni með skattahækkunum."
Ríkisstjórnin er ónæm fyrir vandræðum, sem nú blasa við uppsjávarútgerðum. Fiskgengd í íslenzku lögsöguna er svo mikilli óvissu undirorpin, að afkoma útgerðarfélaganna er undir hælinn lögð. Þessu bregst ríkisstjórnin við með því að skella skollaeyrum og láta, eins og fiskimiðin séu gullnáma, sem hægt sé að ganga að og lítið sem ekkert þurfi að hafa fyrir að breyta í verðmæti. M.ö.o. hagar ríkisstjórnin sér, eins og hún hafi fundið bullandi auðlindarentu í útgerðunum. Ekkert er fjær sanni, og ríkisstjórnin er veruleikafirrt í gjörðum sínum gagnvart atvinnulífinu. Ekki var við öðru að búast af krötum, sem ekkert skynbragð bera á, hvernig verðmæti verða til, og horfa vonaraugum til Evrópusambandsins, ESB. Sú afstaða er rétt eitt merkið um veruleikafirringu í ráðherrahópnum. Ráðherrarnir eru haldnir trúargrillum, sem þeim dettur ekki í hug að reyna að sannreyna.
"Stefán bendir á, að sjávarútvegurinn sé burðarás í mörgum landsbyggðarsamfélögum.
"Við erum með starfsemi í samfélögum, þar sem sjávarútvegurinn skiptir miklu máli. Þegar skattar og álögur aukast svona mikið, dregur úr getu okkar til að halda áfram að fjárfesta og skapa aukin verðbæti", segir Stefán.
Ísfélagið hefur síðustu ár fjárfest umtalsvert. Á árinu 2024 hóf nýtt ísfiskskip, Sigurbjörg, veiðar, og frystiklefi á Þórshöfn er við það að klárast. Þá er í undirbúningi rafvæðing fiskimjölsverksmiðjunnar í Vestmannaeyjum.
"Við viljum nýta græna orku og vera hluti af orkuskiptunum, en raforka fyrir þennan iðnað er einfaldlega ekki [fyrir hendi] í nægilegu magni næstu ár", segir hann.
Samhliða veiðigjöldum hefur ríkisstjórnin boðað frekari hækkun kolefnisgjalds. Það mun bitna hart á sjávarútveginum. Stefán segir, að það sé þversagnakennt að leggja auknar álögur á grein, sem hefur staðið sig vel í sjálfbærnivinnu.
"Við höfum fjárfest í nýjum skipum, sem eru hagkvæmari og losa minna kolefni [á hvert veitt tonn - innsk. BJo]; það hefur orðið þróun í veiðarfærum og þau orðið léttari; fiskimjölsverksmiðjur hafa verið rafvæddar, en þrátt fyrir þetta eigum við að borga hærra kolefnisgjald án þess að eiga möguleika á að leita grænna lausna", segir hann.
Hann bendir einnig á, að orkuskipti í sjávarútvegi séu flókin og krefjist langtímastefnu og innviða.
"Þú breytir ekki skipum yfir í græna orku á einni nóttu, og það er langt í, að hægt verði að rafmagnsvæða skipaflotann á Íslandi. Við þurfum samvinnu, hvata og raunhæfa sýn, ekki refsiskatta", segir Stefán."
Það, sem hér er að gerast af hálfu ríkisvaldsins, er, að refsivendi þess er beitt af nýgræðingum í ráðherrastólum, reynslulausum af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja og þekkingarlausum á því hlutverki, sem sjávarútvegsfyrirtækin hafa með höndum í sjávarbyggðum landsins. Afleiðingin verður veiking sjávarútvegsins og sjávarbyggðanna að sama skapi og fjármagn er dregið úr þessum byggðum til ríkissjóðs. Þetta er glórulaus stefna, sem verður að reka til baka við fyrsta tækifæri, enda eru forsendurnar arfavitlausar. Þær eru kaupgeta erlendra og niðurgreiddra fiskvinnslna á íslenzkum uppboðsmörkuðum og mörkuðum í Noregi. Fyrirfram var ekki hægt að ætla, að nokkrum heilvita manni dytti annað eins skemmdarverk í hug.
Kolefnisgjaldið á sjávarútveginn er dæmi um örþrifaráð vinstri manna til að stoppa upp í göt ríkisrekstrarins. Sjávarútvegurinn hefur verið til fyrirmyndar í orkumálum og fjárfest í bættri orkunýtni fiskiskipa og rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja. Ríkisvaldið er blint. Með ofurskattheimtu er nú dregið úr kraftinum við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, og ræfildómur ríkisvaldsins hefur þegar valdið svo miklum raforkuskorti í landinu, að rafmagnskatlar verksmiðjanna eru að mestu ónotaðir. Við þessar aðstæður er siðlaust að þrýsta á orkuskipti sjávarútvegsins með hækkun kolefnisgjalds. Allar gerðir þessarar ríkisstjórnar gagnvart fyrirtækjum landsins og yfirleitt í fjármálum virðast vera glórulausar, enda var aldrei á góðu von.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)