Reginmisskilningur forsætisráðherra

Á óvissutíma í efnahagsmálum reynir á ríkisstjórn að létta fremur undir með atvinnulífi og heimilunum í landinu.  Ríkisstjórn K. Frost. hagar sér eins og óviti og gerir hið þveröfuga.  Hún boðar mikla útgjaldaaukningu ríkissjóðs, t.d. vegna varnarmála og aðildar Íslands að Evrópusambandinu, sem verður Íslandi fjárfrek (allt að 30 mrdISK/ár),  og auknar byrðar á atvinnulífið, sem vinna mun gegn hagsæld heimilanna.  Við þessar aðstæður ætti ríkisstjórnin að róa öllum árum að auknum hagvexti og verðmætasköpun, eins og hún vakti vonir um í stjórnarsáttmála, en það er einfaldlega ekkert að marka orð hennar.  Ríkisstjórnin hellir nú olíu á verðbólgubálið með skuldasöfnun sinni.  Allt bendir til, að útgjöldin til varnarmála eigi að fjármagna með lántöku.  Þótt Þjóðverjar geti réttlætt slíkt núna á miklum viðsjártímum í Evrópu, þar sem mikill hluti útgjaldaaukningarinnar fer til margháttaðrar aðstoðar við Úkraínu, gegnir öðru máli um Ísland, sem engin áhrif getur haft á hernaðarframvinduna í Evrópu.  Að kjósa yfir sig vinstri stjórn, býður jafnan hættunni heim. Kjósendum til afturbata má þó segja, að þeir hafi keypt köttinn í sekknum.  Hver hefði t.d. trúað því, að Flokkur fólksins myndi setjast í ríkisstjórn, sem þegar á fyrsta starfsári sínu hefur hafizt handa um að aðlaga stefnumörkun Íslands að stefnu ESB, t.d. í sjávarútvegsmálum ?  

Í forystugrein Morgunblaðsins, 2. júlí 2025, "Fjölskyldurnar", átaldi ritstjórnin forsætisráðherra harðlega fyrir fráleitan og ofstækisfullan málflutning í garð sjávarútvegsins.  Forsætisráðherra grefur skotgrafir að frumstæðum hætti í stað þess að leggja sig fram um góðar lausnir í samráði við atvinnulífið, vinnuveitendur og launþega.  K. Frost. mun ekki ríða feitum hesti frá þessu máli, enda hefur hún nú opinberað fávísi sína á efnahagsmálum og skort á samráðshæfileikum, sem góður forsætisráðherra þarf að hafa til að bera.  Téð forystugrein hófst þannig:

"Mörgum hnykkti við orð Kristrúnar Frostadóttur, forsætisráðherra, í viðtali við Ríkisútvarpið í fyrri viku [v.26/2025 - innsk.BJo], þegar hún, þvert á fyrri orð upplýsti, til hvers ríkisstjórnin áformaði svo snögga og skarpa hækkun veiðigjalda:

"Það verða alltaf einhverjir hagsmunaaðilar, sem að mínu mati ... að okkar mati eru fyrst og fremst að berjast fyrir hagsmunum 4-5 fjölskyldna í landinu; við skulum bara hafa það alveg á hreinu."

Þess eru engin dæmi í stjórnmálasögunni, að forsætisráðherra, ráðherrar hans eða stjórnarlið í þinginu lýsi því yfir, að fyrirætlanir um skattaálögur beinist að tilteknum borgurum landsins og öðrum ekki.

Þetta voru ekki orð mælt í hita leiksins, heldur var þetta hluti af skipulögðum málflutningi Samfylkingar, beint úr talpunktum handritshöfundar hennar, en ómurinn af þeim heyrðist einnig í þingræðum og óútþynntur í langlokum framkvæmdastjóra þingflokksins.

Engin tilraun hefur verið gerð til að draga þau orð til baka eða skýra þau nánar, en í þeim felst annarlegur misskilningur á grundvelli íslenzks stjórnarfars, jafnræðisreglunni og eignarréttarákvæðum stjórnarskrár.

Hann leggst þá ofan á pólitískan misskilning á eðli aflahlutdeildarkerfisins og þann hagfræðilega misskilning, að leggja megi á tugmilljarðaskatta án þess að það hafi minnstu áhrif á neitt, nema fjárhag ríkissjóðs."

K.Frost. reiðir hátt til höggs og brýtur siðferðisreglur forsætisráðherra og ber enga virðingu fyrir lögum, sem um starfshætti hans gilda.  Hún er í kviksyndi margháttaðs misskilnings og reisir ógeðfelldan málflutning sinn á lýðskrumi, öfund, og illgirni.  Allt ber þetta vott um grunnfærni, sem er svo þungur áfellisdómur yfir henni, að hafa má áhyggjur af afleiðingum starfa hennar, t.d. í viðleitni til að koma Íslandi í faðm Evrópusambandsins.  Önnur vinstri stjórn gafst upp á því viðfangsefni árið 2011.  Hvers konar lúabrögðum á að beita núna til að breyta niðurstöðunni ?

"Sá skaði, sem skattagleði ríkisstjórnarinnar hefur þegar valdið skráðum sjávarútvegsfélögum á markaði og þar með hluthöfum þeirra, þ.á.m. lífeyrissjóðfélögum, mun ugglaust reynast þeim meiri, þegar upp er staðið.  Við það verða sjávarútvegsfélög ekki viljugri til skráningar á markað eða fjárfestingarkostir lífeyrissjóða landsmanna fleiri.  

Að ógleymdum þeim skaða, sem skattagleðin mun valda verðmætasköpun og og efnahagslífinu í heild.  Hún mun bitna á öllum fjölskyldum landsins.  

Lífeyrissjóðirnir hafa haldið sér mjög til hlés í þessari umræðu til þessa.  En nú, þegar tjónið blasir við, geta þeir ekki lengur staðið þöglir hjá, [á] meðan eignir og réttindi sjóðfélaga rýrna; framtíðar framfærslu fjölskyldnanna í landinu er ógnað, af því að Kristrún Frostadóttir segist vilja sýna 4-5 fjölskyldum í tvo heimana.  Fyrir þá heiftrækni eiga eiga ekki 225 þúsund heimili að gjalda."

Ríkisstjórnin sýnir mjög mikla óvarkárni í efnahagsmálum.  Hún hættir á hrun gengis ISK með því að tefla grunnatvinnuvegum í uppnám og þar með að grafa undan gjaldeyrisöflun. Ef hún með flumbruhætti missir tökin á genginu, verður hér mikið verðbólgustökk, sem leitt getur af sér vaxtahækkanir, sem núverandi hagkerfi má ekki við.  Evrópusambandið (ESB) fótumtreður nú EES-samninginn, svo að Ísland getur misst aðgengi að Innri markaði EES fyrir mikilvægar útflutningsvörur fyrirvaralítið, af því að landið er utan tollabandalags ESB.  Þá kann að verða nauðsynlegt að velja á milli víðtæks fríverzlunarsamnings við ESB og aðildar.  Utanríkisráðherra og atvinnuvegaráðherra hafa varðað síðari leiðina með því að svipta landið sjálfstæðri utanríkisstefnu og sjálfstæðri fiskveiðistjórnunarstefnu.  Hafa þær svo víðtækar lagaheimildir til embættisverka, eða er kominn tími til að sækja þær til saka fyrir dómstólum ? Fyrst þarf Alþingi að fjalla um þessi mál og væntanlega að leggja fram vantrauststillögur á þessa ráðherra, sem virðast hafa farið offari.     

 

 


Bloggfærslur 29. júlí 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband