8.7.2025 | 10:40
Stjórnarflokkunum eru mjög mislagðar hendur - einnig í orkumálum
Það fara ekki saman orð og athafnir hjá Samfylkingunni í veigamiklum málum. Þannig hafði hún á orði fram yfir síðustu Alþingiskosningar, að hún hygðist "rjúfa kyrrstöðu" orkumálanna. Þegar til kastanna kom, heyktist hún svo rækilega á því, að orkuskortur blasir við a.m.k. næsta áratuginn.
Svo virðist sem ráðherrana skorti allan dug til að taka til hendinni og gera það, sem gera þarf til að viðhalda traustum hagvexti í landinu. Þess í stað hengja þau sig í gamlar bábiljur vinstrisins. Þriðji áfangi rammaáætlunar var nýlega til umræðu á Alþingi, og þar heyktust stjórnarliðar á að tryggja landinu næga raforku næsta áratuginn. Um var að ræða vatnsaflsvirkjanir með orkugetu samtals 3517 GWh/ár. Minni hluti Umhverfis- og samgöngunefndar vildi setja allar virkjanirnar í nýtingarflokk, en meiri hlutinn samþykkti aðeins 760 GWh/ár í nýtingarflokk og heyktist þar með á að "rjúfa kyrrstöðuna". Þetta er upp í nös á ketti m.v. við viðbótar þörfina á næstu 10 árum til 2035 samkvæmt Landsneti, sem nemur 5000 GWh/ár. Vinstri flokkarnir féllu á orkuöflunarprófinu og kom engum á óvart.
Þann 21. júní 2025 birtist stutt og fróðleg grein í Morgunblaðinu eftir varaformann Sjálfstæðisflokksins, þingmanninn Jens Garðar Helgason. Hún hófst þannig:
"Í ræðu og riti hefur ráðherrum, þingmönnum og talsmönnum ríkisstjórnarinnar orðið tíðrætt um að rjúfa "kyrrstöðuna" í orkumálum. Vakti það von í brjósti, að flokkar, sem margir hverjir hafa áður barizt gegn frekari orkuöflun á Íslandi, væru búnir að sjá ljósið í þessum efnum. En svo er hins vegar ekki. Flokkarnir eru samir við sig, þá ekki sízt flokkur forsætisráðherra, Samfylkingin."
Einu sinni afturhald, ávallt afturhald, má segja um þá vinstri moðsuðu, sem nú er við stjórnvölinn á Íslandi og hefur ekki áhuga á öðru, eðli sínu samkvæm, en að kasta skít í tannhjól atvinnulífsins og skilur ekki frekar en Karl Marx, hvað knýr áfram þessi tannhjól og þar með hag almennings í landinu. Forystusauðir ríkisstjórnarinnar eru sljóir og hafa enga grein gert sér fyrir því, hvaða áhrif gríðarlegar skattahækkanir á grunnatvinnuvegina hafa á hagvöxt í landinu. Sauðirnir drepa efnahagslífið í dróma með því að fara ránshendi um fjármuni grunnatvinnuveganna og í tilviki sjávarútvegsins er það gert undir yfirskini auðlindarentu, sem ríkissjóður eigi rétt á. Ekkert er fjær lagi. Hvorki skilja sauðirnir hugtakið auðlindarenta né kunna þeir að reikna, hvað af hagnaði sjávarútvegsins stafar af henni. Sósíalistarnir ala á öfund og hrifsa auð frá sjávarútvegsbyggðum til ríkisins. Þetta er sósíalistísk forsjárhyggja, sem er ekki þjóðhagslega hagkvæm hugmyndafræði og leiðir yfirleitt til fátæktar.
"Í dag eru á sjóndeildarhringnum 5 virkjanakostir og stækkanir hjá Landsvirkjun. Þeir eru:
- Stækkun Þeistareykjavirkjunar (590 GWh/a)
- Stækkun Sigöldu (10 GWh/a)
- Vaðölduver (440 GWh/a)
- Blöndulundur (350 GWh/a)
- Hvammsvirkjun (720 GWh/a)
Samtals eru þetta 2110 GWh/a.
Að viðbættum 760 GWh frá meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar þá eru þannig alls 2870 GWh/a í nýtingarflokki. Til samanburðar gerir spá Landsnets ráð fyrir því, að orkuþörf til ársins 2035 muni aukast um 5000 GWh/a."
Frammistaða stjórnarmeirihlutans er enn algerlega ófullnægjandi fyrir áætlaða orkuþörf landsins næsta áratuginn. Með því að lúta leiðsögn þessa meirihluta um málefni landsins stefnir í háa verðbólgu m.v. mörk Seðlabankans, mikinn halla á ríkissjóði og þar með skuldasöfnun á kostnað komandi kynslóða, minni fjárfestingar atvinnuveganna en undanfarin ár og lítinn hagvöxt. Ofan á þetta bætist orkuskortur, sem leiða mun til hækkunar raforkuverðs og mikils tekjutaps atvinnuvega og samfélags. Allt eru þetta gamalkunnir fylgikvillar sósíalismans, en núverandi stjórnarflokkar villtu á sér heimildir í aðdraganda Alþingiskosninga og þóttust mundu standa að nýju framfaraskeiði í sögu þjóðarinnar, eftir að afturhaldið VG hafði staðið allt of lengi á bremsunum. Nú sitja landsmenn uppi með viðbrunninn graut sósíalismans, þar sem kokkarnir ætla að eyða fé og tíma í innanlandsdeilur um Evrópusambandið og bjölluat í Berlaymont.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)