31.8.2025 | 11:11
Mundi aðild bæta hag eða þjóðaröryggi hérlendis ?
Þegar ákveða á, hvort endurlífga á aðlögunina að Evrópusambandinu (ESB), sem horfið var frá í raun 2011 og formlega síðar, verður að vega og meta kosti og galla aðildar. Grein Sigurðar Kára Kristjánssonar, hæstaréttarlögmanns, í Morgunblaðinu 06.08.2025 var mikilvægt innlegg í þessa átt. Þar rakti hann í raun og veru, hvers vegna ekkert mælir með inngöngu í þennan klúbb fyrir Ísland.
Nú eru EFTA-löndin, nema Sviss, með aðild að Innra markaði ESB síðan 1994, en blikur eru á lofti um, að vera EFTA-landanna utan tollabandalags ESB þýði, að bandalagið telji sig þurfa að meðhöndla EFTA-ríkin eins og önnur lönd utan tollabandalagsins, þegar kemur að tollaákvörðun. Í því tollastríði, sem Bandaríkjastjórn hefur hrundið af stað, er þessi staða óviðunandi. Fríverzlunarsamningur hjálpar væntanlega ekki heldur. Svisslendingar eru með margháttaða samninga við ESB, og nú eru í gangi viðræður þeirra á milli um nýtt fyrirkomulag. Verður fróðlegt að sjá, hvað út úr þeim samningaviðræðum kemur. Eins og kunnugt er varð tollsetning Trump-stjórnarinnar (39 %) reiðarslag fyrir Svisslendinga, sem sjá fram á hrun Bandaríkjamarkaðar fyrir vörur sínar. Það er með endemum, hvernig Bandaríkjastjórn leyfir sér að haga sér, brjótandi niður það alþjóðakerfi, sem Bandaríkjamenn hafa öðrum fremur byggt upp.
EFTA-ríkin verða að reyna að sækja rétt sinn til ESA og EFTA-dómstólsins, ef ESB ætlar að halda tollastefnu sinni til streitu.
Ákafi Viðreisnar er mikill að koma Íslandi í ESB, og eru rökin aðallega nú öryggislegs eðlis, en það er hæpið, að her ESB bæti nokkru við varnir Íslands umfram aðildina að NATO og varnarsamninginn við Bandaríkin, þótt haldið í honum sé umdeilanlegt með Trump við völd.
Grein Sigurðar Kára Kristjánssonar nefndist:
"Ísland á ekki að íhuga aðild að ESB".
Hann tíndi til nokkrar staðreyndir þessari fullyrðingu til stuðnings:
- "Hagvöxtur á Íslandi hefur verið mun meiri en hjá ESB-ríkjum, eftir að aðildarviðræðum var hætt:
ATH.: Evran á þátt í að halda aftur af hagvexti ríkja á evrusvæðinu, því að skráning hennar tekur ekkert tillit til framleiðni og samkeppnishæfni ýmissa ríkja á evru-svæðinu.
2. Kaupmáttarvöxtur á Íslandi hefur hefur verið mun
meiri en innan ESB frá sama tíma.
ATH.: Ísland náði sér hraðar upp úr bankakreppunni en flest önnur lönd og sökk líka dýpra en flest. Íslenzka hagkerfið er að mestu reist á náttúruauðlindum, sem voru gjöfular mestan hluta tímabilsins. Á síðustu árum hafa launahækkanir verið umfram framleiðniaukningu, sem grefur undan kaupmáttaraukningu og gjaldmiðlinum.
3. Íslenzka krónan hefur verið stöðugri en evran
gagnvart bandaríkjadollar.
ATH.: ISK gæti senn lækkað að verðgildi m.v. helztu gjaldmiðla vegna kjarasamninga, sem flest fyrirtæki ná ekki að standa undir með framleiðnivexti.
4. Íslenzkt atvinnulíf hefur aldrei verið
fjölbreyttara, og nýsköpun blómstrar.
ATH.: Þetta stafar aðallega af öflugum grundvallargreinum, t.d. sjávarútvegi, sem stundað hafa vöruþróun til að auka verðmæti afurðanna og draga úr kostnaði með aukinni sjálfvirkni. Upp úr þessum jarðvegi hafa sprottið sprotafyrirtæki, sem sumum hefur heldur betur vaxið fiskur um hrygg. Með nýrri vinstri stjórn eru viðsjár í þessum efnum, því að ríkisstjórnin veikir mjög öflugustu fyrirtækin, sem leitt hafa tækniþróunina, með gjörsamlega hömlulausri og stórskaðlegri skattheimtu. Þessi óheillaþróun mun leiða til minni verðmætasköpunar en ella, sem er alvarlegt mál fyrir hagkerfið í heild.
5. Atvinnuleysi mælist varla.
ATH.: Atvinnuleysi mælist vissulega á Íslandi, og fer vaxandi undir vinstri stjórn. Það mun þó vonandi lagast með virkjunarframkvæmdum. Atvinnuleysi á Íslandi er miklu minna en í ESB og sérstaklega m.v. evrusvæðið, enda eru hagsveiflur þar teknar út á atvinnustiginu.
6. Ísland er í fyrsta sæti á lista Sameinuðu
þjóðanna yfir lífskjör (Human Development
Index ).
ATH.: Mundi Ísland halda sæti sínu á þessum lista að öðru óbreyttu en aðild að ESB ? Það er ekki víst í ljósi mikils útjöfnunarkostnaðar lífskjara, sem leggjast mundi á Ísland eftir aðild, og vegna mikilla útgjalda til varnarmála, sem blasa við löndum ESB.
7. Jafnrétti er hvergi meira en á Íslandi; sama
gildir um kaupmátt lægstu launa og bóta,
atvinnuþátttöku kvenna og launajöfnuð.
ATH.: Þessi atriði munu væntanlega draga dám af því, sem tíðkast í ESB eftir hugsanlega inngöngu Íslands í ESB.
8. Varlega áætlað eru Íslendingar 9. ríkasta þjóð
heims. "
ATH.: Þetta getur breytzt til verri vegar með aðild, því að landsmenn munu þá þurfa í einhverjum mæli að deila landhelgi sinni með öðrum aðildarþjóðum, þar sem hin sameiginlega fiskveiðistefna ESB mun ríkja hér. Þá mun væntanlega koma þrýstingur á Alþingi að innleiða 4. orkupakka ESB og að samþykkja lagningu aflsæstrengs hingað, sem hækka mun raforkuverðið enn meir, og rýrir það samkeppnihæfnina.
"Það er ekki síður áhugavert að skoða, hversu mikið landsframleiðsla hefur aukizt á Íslandi á tímabilinu 2010-2024 m.v. vöxtinn í Evrópu og í Bandaríkjunum á sama tíma:
9. Landsframleiðsla í ESB-ríkjunum hafur á tímabilinu vaxið um 15 %.
ATH.: Þetta er óeðlilega lítill vöxtur, og Draghi, fyrrverandi seðlabankastjóri evrunnar, sá ástæðu til að kryfja þetta til mergjar í langri skýrslu fyrir um 2 árum. Hann komst m.a. að þeirri niðurstöðu, að reglugerðafargan ESB væri dragbítur á fyrirtækin. Þá má nefna lokun kjarnorkuvera í Þýzkalandi, öldu flóttamanna frá Sýrlandi og víðar, áherzlu á óhagkvæma orkugjafa á borð við vind og sól og hátt raforkuverð, sem leitt hefur af orkuskorti. Það virðist mega draga þá ályktun, að innganga Íslands í ESB mundi leiða til versnandi lífskjara hérlendis.
10. Á sama tíma hefur hún vaxið um 35 % - 40 % í Bandaríkjunum.
ATH.: Í Bandaríkjunum hefur verið lifað um efni fram, eins og gríðarlegar erlendar lántökur á formi ríkisskuldabréfa gefa til kynna, og eiga þær sennilega þátt í lágu gengi USD. Nú er frumstæð og í alla staði mjög undarleg efnahagsstjórnun við lýði í Bandaríkjunum, sem snýst um háa tolla á vörur frá ríkjum með jákvæðan viðskiptajöfnuð við Bandaríkin. Þessi kaupauðgistefna hefur fellt gengi hlutabréfa í Bandaríkjunum, veikt gengi USD og kynt undir verðbólgu um leið og kaupmáttur almennings minnkar. Hvíta húsið boðaði í upphafi, að hagur almennings mundi batna við þennan fíflagang, sem sýnir, hvers konar vitsmunaverur eru nú þar við völd, enda hrapar fylgi forsetans í skoðanakönnunum.
11. Á Íslandi hefur hún vaxið um u.þ.b. 50 %. Á
mælikvarðanum verg landsframleiðsla á mann er
Ísland í 5. sæti allra ríkja heims."
ATH.: Samanburðartímabilið er auðvitað hagstætt Íslandi, því að hér varð einna mest fall landsframleiðslu á mann í heiminum í fjármálakreppunni 2007-2009. Hins vegar ber staða VLF/íb órækt vitni um árangur efnahagsstjórnunar hér, og það verður ekki annað séð en innganga í ESB bjóði þeirri hættu heim, að hér verði efnahagsstöðnun og versnandi lífskjör. Í þessu ljósi er óskiljanlegt, hvað þeim stjórnmálamönnum gengur til, sem nú vilja dusta rykið af aðildarumsókn Íslands frá 2009. Að benda á ný viðhorf til öryggismála í Evrópu heldur ekki vatni. E.t.v. er ESB orðið þreytt á EES-samninginum, en þá er lausnin ekki sú að hverfa í þjóðahafið, heldur að leita fríverzlunarsamnings við ESB, jafnvel á grundvelli EFTA-aðildarinnar. Í Noregi virðist afstaðan til ESB lítið hafa breytzt, svo að samflot með Norðmönnum og jafnvel Svisslendingum við gerð fríverzlunarsamnings virðist blasa við, ef ESB vill henda okkur út fyrir tollmúrana, þegar svo býður við að horfa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)