Næg fáanleg raforka er grundvöllur nýrrar verðmætasköpunar

Það er haldlaust að búast við hagvexti hérlendis, sem reistur er á nýjum eða auknum útflutningi á vörum eða þjónustu, á meðan núverandi orku- og aflskortur er við lýði, og hann virðist ekkert munu lagast, það sem af lifir þessum áratugi.  Það er afleit staða, sem hafa mun neikvæð áhrif á þróun hagkerfisins og hag fyrirtækja og heimila.  

Orkulindir landsins eru takmarkaðar, og þess vegna skiptir höfuðmáli að nýta fáanlega orku af kostgæfni.  Hún fer að mestu til iðnaðarnota núna, sem skapar fjölbreytta og vel launaða atvinnu, sem stóð undir velferð og hagvexti hér um langa hríð, en nú hafa undirboð Asíuríkja á markaði og furðuleg tollastefna Bandaríkjastjórnar sett strik í reikninginn um hríð. Hefur lágt verð á innfluttum blöndunarefnum í ál frá Kína leitt til þess, að kísilverksmiðjan á Bakka við Húsavík hefur orðið ósamkeppnishæf á innlendum markaði, og það hefur tekið fjármálaráðuneytið óratíma að komast að niðurstöðu um það, hvort um óleyfileg undirboð á markaði sé að ræða og þá e.t.v. brot á fríverzlunarsamninginum við Kína. Fyrir vikið hefur verksmiðju PCC á Bakka verið lokað, og veit enginn, hvort/hvenær hún verður opnuð aftur. Fyrir vikið hefur losnað um afl og orku í kerfi Landsvirkjunar og horfir nú vænlega með orkubúskapinn í vetur.  Eins dauði er annars brauð.

Þegar kemur að því að finna leiðir til að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi hérlendis, hefur komið til tals að framleiða hér rafeldsneyti.  Slíkt útheimtir mikla raforku, því að orkunýtni framleiðsluferilsins er lág.  Vænlegra virðist vera að nota jurtaolíur á borð við repjuolíu.

Þann 9. desember 2024 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Egil Þóri Einarsson, efnaverkfræðing, undir fyrirsögninni:

"Hin leiðin í eldsneytismálum".

"Helztu sóknarfæri okkar í loftslagsmálum eru að úthýsa jarðefnaeldsneyti, sem er ábyrgt fyrir 60 % af losun okkar. Meðan áherzla stjórnvalda hefur verið á framleiðslu á vetni og tilbúnu eldsneyti, sem byggt er á vetni, eigum við gnótt hráefna, sem hægt er að nýta við framleiðslu á eldsneyti með lágmarks losunargildi.  Með því að nota innlend hráefni, eins og sorp, seyru og annað lífrænt efni, gætum við minnkað talsvert þörfina á innflutningi jarðefnaeldsneytis.  Slíkt eldsneyti, eins og metan og lífdísill, er nánast kolefnishlutlaust, en hefur sama orkuinnihald og jarðefnaeldsneyti."

Jarðefnaeldsneyti er fremur ódýrt um þessar mundir á heimsmarkaði, en það mun ekki vara til eilífðarnóns. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að draga úr gjaldeyrisnotkun til eldsneytiskaupa, en fjárfesta þess í stað í framleiðslugetu á innlendum orkugjöfum.  Rafbílavæðingin hefur öðlazt skriðþunga, en vinnuvélar og skip þurfa kolefnishlutlausa olíu.  Asnastrik ríkisstjórnarinnar að lama fjárfestingargetu sjávarútvegsins er ekki loftslagsvæn aðgerð og ekki væn að neinu leyti. 

"Knýjandi þörf er á að finna "staðgengils" eldsneyti í stað jarðefnaeldsneytis.  Útskipti á jarðefnaeldsneyti með umhverfisvænu eldsneyti gerir okkur kleift að standa við skuldbindinggar okkar í loftslagsmálum. Að leita fanga í okkar eigin  garði er vænlegra til árangurs en að leggjast í stórframkvæmdir við framleiðslu á orkufreku eldsneyti úr vetni.  Til þess að gera það eftirsóknarvert þurfa stjórnvöld að koma til skjalanna með fjárstyrkjum og ívilnunum."

Það er fjárhagslega áhættusamt að fjárfesta í eldsneyti úr vetni.  Ferlið er orkukræft og nýtnin lág, svo að líklegt er, að slíkt eldsneyti geti ekki keppt við annars konar eldsneyti með enga nettó losun koltvíildis. Íslenzkum orkulindum er betur varið til annars konar framleiðslu eða til gagnavera fyrir gervigreind. 

Núverandi orkuráðherra er ekki mjög framsækinn fyrir hönd málaflokksins, því að hann hafnaði nýverið ósk Orkubús Vestfjarða um að breyta friðlýsingarskilmálum í Vatnsfirði til að koma mætti þar fyrir hagkvæmri virkjun með umhverfisvænum hætti.  Þessi virkjun hefði sameinað orkuvinnslu og umhverfisvernd með fögrum hætti.  Þessi vatnsaflsvirkjun hefði verið ólíkt "hlédrægari" í náttúrunni en þeir risaspaðar, sem kynntir hafa verið til sögunnar til slitróttrar raforkuvinnslu.

 

  

 


Bloggfærslur 12. september 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband