6.2.2010 | 13:35
Geðþótti yfir leyfilegum mörkum
Nú hefur geðþótta stjórnvalds á Íslandi tekið út yfir allan þjófabálk. Af vizku dæmigerðrar vinstri mannvitsbrekku hefur umhverfisráðherra úrskurðað, að hrepparnir við Neðri-Þjórsá hafi farið á svig við lög með því að fá kostunaraðila til skipulagsverks. Þetta er rökstutt sem ólöglegt, af því að það sé ekki tekið fram í lögum, að þetta megi. Öllu er snúið á haus. Grundvallarreglu Rómarréttar er fórnað.
"Er þetta hægt, Matthías ?" Með öðrum orðum; það sem ekki er leyft með lögum, er ólöglegt að mati ráðamanna vinstri flokkanna. Svona vilja sameignarsinnarnir, að málum sé fyrir komið á Íslandi, en svo er þó ekki enn; hér á enn að heita réttarríki, og þess vegna verður að spyrna við fótum. Sveitarfélögin, sem í hlut eiga, hljóta að sækja rétt sinn fyrir dómi. Ofstækisfullur og dómgreindarlaus ráðherrann hlýtur að fá á sig stjórnsýsluákæru fyrir gróft lögbrot. Um er að ræða misbeitingu valds í þágu sérvitringa og gegn almannahagsmunum.
Ríkisstjórnin fitjar upp á engum nýjungum í atvinnumálum, heldur drepur allt í dróma og kæfir allt frumkvæði einkageirans til nýrra atvinnutækifæra, hvort sem um er að ræða innlend eða erlend fyrirtæki. Höfundi þessa vefpistils er vel kunnugt um stórt alþjóðlegt fyrirtæki, sem er fúst til að taka upp viðræður við ríki, sveitarfélög, virkjanafyrirtæki og aðra hagsmunaaðila hérlendis um áætlunargerð, sem miða mundi að gríðarlegum fjárfestingum á íslenzkan mælikvarða til að skapa vinnu og verðmæti úr íslenzkri orku og mannauði. Slík samningsgerð þarf hins vegar að fara fram að siðaðra manna hætti; annars verður ekkert úr henni. Slíkir láta ekki bjóða sér, að talað sé við þá með tveimur hrútshornum. Þeim bjóðast góð tækifæri annars staðar. Núverandi stjórnvöld landsins setja upp hundshaus vegna þess, að þau eru haldin fordómum gagnvart erlendum fjárfestingum og virkjunum fallvatna. Fáránlegur úrskurður VG-ráðherrans um óleyfilega kostun við skipulagsgerð brýtur jafnframt jafnræðisreglu um framkomu gagnvart lægra stjórnstigi og er til þess gerður að tefja smíði þegar hannaðra rennslisvirkjana í Neðri-Þjórsá og þar með að seinka endurreisn atvinnulífsins og uppbyggingu gjaldeyrisskapandi starfsemi.
Skipulagsstjóri ríkisins, sem gjörþekkir lagaumhverfi skipulagsmála á Íslandi, hefur opinberlega sagt, að engin lög banni sveitarfélögum að fá fyrirtæki, í þessu tilviki ríkisfyrirtæki, til að taka þátt í kostnaði við gerð skipulags. Hann hefur þannig opinberlega snuprað yfirmann sinn, enda sjálfsagt, þegar annar eins endemisgerningur á sér stað. Nú sjá kjósendur VG og Brüsselfylkingarinnar skriftina á veggnum. Með því að kjósa þessa flokka eiga þeir jafnan á hættu að leiða yfir landsmenn móðuharðindi af mannavöldum.
Ekki er betri sú músin, sem læðist, en hin, sem stekkur. Helzti talsmaður innlimunar Íslands í Stór-Evrópu, utanríkisráðherrann, og vinstri-græninginn á formannsstóli utanríkismálanefndar Alþingis, hafa nú orðið berir að gjörningi, sem væntanlega á eftir að sæta rannsókn sem innherjasvik. Nú er beðið eftir svæsnum umfjöllunum og "Kastljósviðtölum" í sorpritum og ríkisstjórnarvörpum. Harðsvíraða gróðapunga er ekki síður að finna undir hjúpi "sameignarstefnunnar" en annars staðar.
Það er þyngra en tárum taki, að þegar er hafinn alvarlegur atgervisflótti úr röðum sérfræðinga landsins til útlanda. Vinstri flokkarnir fara hrikalega að ráði sínu. Þeir leggja visna vinstri hönd ríkisvaldsins og ríkisrekstrar yfir atvinnulífið og gera einkarekstri og einstaklingum lífið eins leitt og þeir framast kunna.
Á sama tíma nær heimóttarskapur ráðherranna gagnvart útlendingum nýjum hæðum. Störf þeirra ná hvergi máli, og framganga þeirra gagnvart erlendum ráðherrum, ráðamönnum ESB og blaðamönnum heimsmiðlanna er í sumum tilvikum beinlínis skammarleg. Hér er um að ræða blöndu af ræfildómi og undirlægjuhætti gagnvart ríkisstjórnum ESB-landanna og Brüssel-valdinu. Öðrum þræði er ríkisstjórnin föst í fortíðinni, og á hinn bóginn sér hún framtíðina aðeins gegnum Brüssel-skráargat.
Allt er þetta ótækt og með öllu óþolandi. Siðleysið tröllríður aulahættinum í boði vinstri meirihluta á Alþingi. Það er algjör lágmarkskrafa, að ráðherrarnir verji hagsmuni landsins, innanlands sem utan, gegn erlendu óréttlæti og yfirgangi, en virki ekki sem málpípur þeirra, sem reka gegn landsmönnum viðskiptaofbeldi. Eftir eins árs reynslu má fullyrða, að vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er lélegri en verstu hrakspár gerðu nokkurn tíma ráð fyrir í upphafi.
Vættir landsins forði oss frá þessu föruneyti annað árið og frá öðrum örverpum vinstri flokkanna um alla framtíð.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Fjármál | Breytt s.d. kl. 23:42 | Facebook
Athugasemdir
Sammála hverju orði í öðru veldi. Það þarf að fara að sópa út úr Stjórnarráðinu. Þessi Ríkisstjórn hefur sýnt fádæma hæfileika til þess að gera afleitt ástand illt verra. Það er líkt og þeir vilji ekki taka neina skynsamlega ákvörðun nema þeir séu króaðir úti í horni og geti ekki annað. Svona er með öll mál.
Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 6.2.2010 kl. 18:19
Mér líst annars vel á ákvörðun umhverfisráðherra.
Hver vegna?
Hún mun flíta fyrir því, að við losnum við þessa ríkisstjórn.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 7.2.2010 kl. 00:34
Tek undir aðra athuga semd, í henni er von.
Hrólfur Þ Hraundal, 7.2.2010 kl. 01:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.