11.2.2010 | 21:39
Afhjúpun aðstoðarmanns
Laugardaginn 6. febrúar 2010 birti aðstoðarkona fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, upprifjun sína á aðdraganda svo kallaðs "Icesave"-máls ásamt greiningu sinni á atburðarásinni fram til þessa. Kristrún Heimisdóttir er greinilega vel kunnug málavöxtum, enda starfaði hún í utanríkisráðuneytinu eftir að að það komst í hendur Brüsselfylkingarinnar og þar til Össur Skarphéðinsson tók þar við taumunum.
Við hugleiðingu að loknum lestri rennur upp fyrir lesanda, hvað Vinstri-hreyfingunni grænu framboði, með Steingrím J. Sigfússon í broddi fylkingar og í sæti fjármálaráðherra, raunverulega gekk til, þegar hún skyndilega og án samráðs sveigði af markaðri braut Alþingis í leyfisleysi.
Steingrímur hafði sem stjórnarandstöðuleiðtogi lýst yfir á Alþingi og ritað greinar í blöð um andstöðu sína gegn samningum við Breta og Hollendinga, sem Alþingi samþykkti leiðarvísi að, s.k. Brüssel viðmið, þann 5. desember 2008. Jafnframt hafði hann lýst sig algerlega andsnúinn samstarfi við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, AGS. Afstaða Steingríms áður en hann varð ráðherra 1. febrúar 2009 var öllum kunn, sem vita vildu, innanlands sem utan.
Af þessum orsökum var úr vöndu að ráða fyrir Steingrím að taka að sér lausn "Icesave"-málsins á vegum ríkisstjórnarinnar. Úrræði Steingríms og ráðuneytisstjóra hans í fjármálaráðuneytinu, félaga Indriða H. Þorlákssonar, reyndust vera hrapallega misráðin, og slíkt hefði blasað við hverjum heilvita manni þá þegar, ef stefnumörkunin hefði átt sér stað fyrir opnum tjöldum.
Félagarnir rufu tengsl sáttaumleitana við afgreiðslu AGS, og þeir rufu tengslin, sem mynduð höfðu verið við ESB sem sáttasemjara. Þeir kúventu án samráðs við kóng eða prest og sveipuðu málið leyndarhjúpi, enda í raun engin heimild, t.d. frá Alþingi, fyrir þessari glópskulegu kúvendingu.
Þeir ákváðu á eigin spýtur að færa málið úr þjóðréttarlegum farvegi, sem Alþingi hafði mælt fyrir um 5. desember 2008, og yfir í einkaréttarlegan farveg, sem snerist um fjármálaleg skilyrði skuldabréfs útgefnu af ríkissjóðum Bretlands og Hollands á hendur ríkissjóði Íslands vegna útgjalda hinna erlendu ríkissjóða til bóta innistæðueigendum í útibúum Landsbankans. Íslenzki ríkissjóðurinn kom að sjálfsögðu hvergi nærri skuldbindingum og fjárútlátum Breta og Hollendinga og ber ekki á þeim nokkra ábyrgð. Þessi leynilega stefnumörkun tvímenninganna voru stjórnmálaleg og lögfræðileg afglöp.
Til að geta í raun snúið við blaðinu gagnvart útlendingunum í upphafi vegferðarinnar þurfti fjármálaráðherrann að setja málið í einkaréttarlegan farveg og gat þar með haldið því á bak við luktar dyr reykfylltra bakherbergja. Vegna leyndarinnar fékk hann aðeins sér handgengna menn til starfans. Vinstri hreyfingin-grænt framboð ber á þessu máli fulla ábyrgð frá því að fyrra ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur var myndað. Nú hefur þessi endemis málatilbúnaður afturhaldsins á Íslandi steytt á skeri. Útlendingarnir neita að tala við Steingrím og félaga eina sér. Þegar Steingrímur er kominn upp að vegg, gefur hann kost á samstarfi við stjórnarandstöðuna í stærsta máli lýðveldisins.
Nú hafa þeir félagarnir, Steingrímur og Indriði, bitið höfuðið af skömminni. Sá síðar nefndi hefur í útvarpsviðtali og í blaðagrein fullyrt, að ómögulegt sé Íslendingum að ná hagstæðara samkomulagi við Breta og Hollendinga vegna þess, að þegar í desember 2008, þegar málið var á forræði Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, hafi þáverandi ríkisstjórn skuldbundið íslenzka ríkissjóðinn til að greiða skuldabréf Breta og Hollendinga. Í ljósi þess, að Indriði er þrautþjálfaður embættismaður, t.d. fyrrverandi skattstjóri, er óþarfi að fara í grafgötur um það, að aðstoðarmaður fjármálaráðherra hefur framið þennan verknað með vitund og samþykki yfirmanns síns. Þessi hefndaraðgerð þeirra félaganna er fáránlegt og afspyrnu heimskulegt frumhlaup um leið og það er algerlega óábyrgt, þar sem í hlut á æðsti maður fjármálaráðuneytisins og hjálparkokkur hans. Þeir svífast einskis og skirrast ekki við í þjónkun sinni við hið erlenda vald að gera tilraun til að færa því vopn upp í hendurnar á viðkvæmu andartaki, þegar verið er að reyna að snúa ofan af endemis vitleysunni, sem garmarnir voru búnir að vefja málið í.
Að birta upp úr þurru skjal, sem að efni til lítur út fyrir að vera tillaga Breta, en var sennilega aldrei kynnt utanríkisráðherra og aldrei rætt í ríkisstjórn, og að halda því síðan fram, að tilvist þessa skjals varði endanlega veginn að "Icesave"-samkomulagi og að þar verði engu um þokað, vitnar um endemis þrælslund þeirra félaga. Verður með engu móti séð, að réttlætanlegt sé að hafa slíka menn á launaskrá íslenzka ríkisins.
Forsætisráðherra hefur sagt þjóðinni, að hún efist um, að heppilegt hafi verið að velja Svavar Gestsson til að leiða þessar erfiðu samningaviðræður við Breta og Hollendinga. Bragð er að, þá barnið finnur. Þegar þessi formaður samninganefndarinnar kom heim með þrælahlekki, sem ekki er hægt að kalla samning, skrifaði Steingrímur undir í skjóli nætur ásamt Jóhönnu. Hvers konar stjórnsýsla er það ? Það eru áhöld um, að þau hafi vitað, hvað þau gerðu. Keyra átti málið síðan gegnum þingið án efnislegra umræðna, enda áttu þingmenn að fá aðeins mjög takmarkaðar upplýsingar um samninginn.
Þjóðin var blekkt og því haldið að henni, að snilldarlausn hefði fundizt. Grein Kristrúnar Heimisdóttur fjallar um vítavert gáleysi að hálfu stjórnvalds við gæzlu mikilla þjóðarhagsmuna.
Þessi gæfusnauðu, óviturlegu og ólýðræðislegu vinnubrögð Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs hafa auðvitað dregið dilk á eftir sér og munu hitta VG og formann hennar fyrir áður en yfir lýkur. Það mun verða krafizt rannsóknar á ferli, sem jaðrar við landráð.
Þessi leikflétta VG hefði gengið upp, þrátt fyrir að leyndarhyggjan hafi að mestu mistekizt vegna einarðrar baráttu stjórnarandstöðu og gagnrýnenda úr hópi vinstri-grænna, ef forseti lýðveldisins hefði ekki synjað þrælalögunum staðfestingar. Við það komu vöflur á heybrækur Brüsselfylkingarinnar, og forsætisráðherra hennar sá sér þann kost vænstan að afneita formanni samninganefndar Steingreíms, Svavari Gestssyni. Þar með er orðin vík á milli vina og uppdráttarsýki herjar á stjórnarheimilið.
Eftir téða Fréttablaðsgrein Kristrúnar Heimisdóttur, lögfræðings, sem starfaði beint fyrir ráðherra Brüsselfylkingarinnar fram í janúar 2010, stendur Steingrímur J. Sigfússon afhjúpaður, almenningi til athlægis, sem persónulega og stjórnmálalega ábyrgur fyrir dýrustu mistökum íslenzks ráðherra á öllu Heimastjórnartímabilinu frá 1904 til þessa dags. Þegar vinnubrögð vinstri stjórnarinnar renna upp fyrir mörgum, sem í reiði og sárindum vegna Hrunsins greiddu vinstri flokkunum atkvæði sitt í Alþingiskosningunum í apríl 2009, má ætla, að vinstri hreyfingarnar í landinu kembi ekki hærurnar, enda vandséð, hvaða stjórnmálalegu hlutverki þær ætla að gegna í framtíðinni eftir það, sem á undan er gengið.
Engin eftirsjá verður að þeim úr Stjórnarráðinu, enda hafa þeir kolfallið á prófinu og ekki reynzt hafa neitt af því til að bera, sem þarf til að leysa vandamál með affarasælum hætti. Að vera utan gátta hæfir þeim bezt. Farið hefur fé betra.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.