Í kviksyndi

Engum dylst út í hvílíkt kviksyndi ríkisstjórn Samfylkingar og vinstri-grænna hefur leitt landsmenn.  Öngþveiti og örvænting ríkir á stjórnarheimilinu, því að vandinn vex þeim yfir höfuð.  Hvorki gæfa né gjörvileikar eru meiri en Guð gaf á þeim bæ. 

Um það er t.d. "Wikileak" lekinn til vitnis, en þar birtist landsmönnum dæmi um undirmálshegðun starfsmanna utanríkisráðuneytisins og aðstoðarmanns utanríkisráðherra í sendiráði BNA-Bandaríkja Norður-Ameríku, u.þ.b. viku eftir synjun forseta lýðveldisins á þrælalögum þingmeirihluta ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. 

Ljóst er, að þessir útsendarar Össurar kunnu sig engan veginn og rikisstjórn og þý hennar skortir alla sómatilfinningu.  Þrælbein þessi, sem ætlast má til, að kunni undirstöðuatriði í kurteislegri hegðun gagnvart sendifulltrúum erlendra þjóða, eru landi og þjóð til háborinnar skammar.

Ein af fjölmörgum mistökum íslenzkra stjórnvalda undanfarin misseri er að hafa látið undir höfuð leggjast að koma sambúðinni við BNA í gott horf aftur.  BNA eru enn stórveldi með ítök um allan heim.  Lega Íslands er enn mikilvæg fyrir aðgengi að norðursvæðunum, og opnun siglingaleiða með bráðnun íss mun setja Ísland í alfaraleið siglinga.

Sambúðin við BNA er af ýmsum orsökum stirð, enda hefur nýr forseti BNA enn ekki skipað hér sendiherra.  Það er líklega af ástæðum, sem er á okkar valdi að bæta úr.  Þessi sambúð þarf hægt og sígandi að batna, en það ber vitni um kolrangt stöðumat að vaða fram og heimta af þeim alveg sérstakan og opinberan stuðning á kostnað Breta og Hollendinga, mikilla bandamanna Bandaríkjamanna. 

Að fullyrða á fundi í sendiráðinu, að annars verði Ísland gjaldþrota árið 2011 er fullkomlega óskiljanleg og vítaverð framganga.  Þetta er sama fólkið og vill bæta ofan á skuldir landsins a.m.k. þriðjungi landsframleiðslunnar.  Ólíkindatól eru vissulega Össur & Co.  Þessu máli voru gerð góð skil í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins laugardaginn 20. febrúar 2010.  Varðandi framgöngu Breta eru í lok bréfsins tvær merkilegar málsgreinar: 

"Og til er í stjórnkerfinu samtal, sem hefur ekki fengist birt, sem skýrir að hluta til a.m.k. hvers vegna ráðgjafar Darlings fjármálaráðherra gáfu honum þau ráð sem þeir gáfu og hann hunsaði.  Ráðgjafarnir voru ekki í hjarta sínu og heila þeirrar skoðunar að íslensku þjóðinni bæru neinar skyldur til að endurgreiða Icesave."   

Alveg stórfurðulegur var og sá leki birtur af "Wikileak", að brezki sendiherrann hefði farið á flot með það sem lausn við sendiherra Noregs á Íslandi, að Norðmenn borguðu fyrir okkur það, sem Bretar kalla "Icesave" reikning, en er þeirra eiginn gjörningur, sem þeir hafa ekki leyfi til að fleygja í aðra.  Síðan áttu Íslendingar að borga Norðmönnum með lægri vöxtum en 5,55 %, sem Steingrímur og Indriði sömdu um og þröngvað var gegnum Alþingi, en var synjað á Bessastöðum. 

Þjóðin mun senn fá tækifæri til að staðfesta þá synjun, væntanlega með miklum meirihluta atkvæða.  Atkvæðagreiðsla þessi markar vatnaskil á heimsvísu.  Í fyrsta sinn er fólkið spurt að því, hvort það vilji axla byrðar viðskiptamistaka Gissurar gullrass og fjármálalegs glapræðis braskara og sukkara. Þar með skapar þjóðin sér nýja og firnasterka samningsstöðu.  Lamaðri ríkisstjórn vinstri manna verður um leið hent á haugana, enda vita gagnslaus og í raun stórskaðleg. 

Ekki verður á þá garmana, Steingrím og Indriða, logið.  Nú eru þeir vændir um stórfellt undirferli gagnvart stjórnarandstöðu og hinni nýju samninganefnd við Breta og Hollendinga í hinu alræmda "Icesave"-máli.  Sakar stjórnarandstaðan þá um að fara á bak við sig og nefndina með beinum samtölum við gagnaðilana.  Þessar ásakanir eru til marks um það, hversu rúnir trausti fjármálaráðherra og aðstoðarmaður hans eru. Hvernig á annað að vera eftir það, sem á undan er gengið ?  Þeim er ekki treystandi fyrir horn.  

Þeir, ásamt forystumönnum Brüsselfylkingarinnar, hafa nú ekið þjóðarvagninum ofan í keldu.  Þar liggur vagninn með öll hjól á kafi.  Það þarf heljarafl til að ná vagninum upp, en það afl er fyrir hendi, enn óbeizlað.   

Strákurinn og keisarinnAflið til þess er sem sagt til í náttúru Íslands, en það þarf að beizla það.  Ljóst er orðið, að það verður ekki gert, nema fyrst að skipta um forystuna í landinu.  Þessi stjórnvöld, sem nú hefur fengizt staðfest, að eru innantómir kjaftaskar, sem bera ekki við að verja þjóðarhagsmuni, styðjast við skýjaglópa og úrtölumenn, sem sumir hverjir virðast hafa stóriðjuna á heilanum, sem að vísu skýtur skökku við, því að hann virðist í mörgum tilvikum ekki vera fyrir hendi.  Nú bregður svo við, að komin er fram í dagsljósið rétt ein viljayfirlýsingin um "eitthvað annað", og er það í þetta sinn gagnaver.  

Gagnaversmenn munu hafa fengið ádrátt um ráðstöfun reiðuafls í landskerfinu upp á 25 MW án virkjunar, sem, ef af verður, verður þá ekki lengur til reiðu öðrum raforkunotendum, þegar bilun á sér stað.  Þetta er með öðrum orðum forgangsorka, en hluti af orku stóriðjufyrirtækjanna er afgangsorka, sem má skerða, þegar afl skortir.  Þessi 25 MW eru tiltölulega lítið afl, sem verður afhent spennt niður í 33 kV, en orkan til stóriðjunnar er afhent á hæstu spennu, 220 kV, með lágmarkstöpum og lágmarkstilkostnaði fyrir orkufyrirtækin.  Samningstíminn er sennilega helmingi styttri en almennt gildir í stóriðjusamningum. 

Ef við gefum okkur, að núverandi verð til stóriðju skili orkufyrirtækjunum eðlilegum arði, þá þyrfti verðið, að öllu þessu virtu, að nema a.m.k. 65 mill/kWh til að gefa orkuseljanda þann sama eðlilega arð vegna miklu meiri kostnaðar orkufyrirtækjanna á hverja orkueiningu.  Nú vill svo til, að spurzt hefur, hvaða verð er til umræðu til gagnaversins.  Það nemur aðeins 60 % af því verði, sem nauðsynlegt er til að ná sömu arðsemi og stóriðjuverðið gefur orkufyrirtækjunum. 

Þetta er ekki sett fram sem röksemd gegn gagnaverum eða til að ýja að því, að þessi viðskipti orkufyrirtækjanna séu óhagkvæm.  Þessar lauslegu athuganir pistilshöfundar á arðsemi benda aðeins til, að viðskipti orkufyrirtækjanna við stóriðjuna, t.d. álverin, séu orkufyrirtækjunum miklu arðsamari en gagnaversviðskiptin.   

Alltaf skal það fara á sömu lund.  Þeir, sem mest taka upp í sig og gagnrýna atvinnulífið hvað harðast, reynast einberir hræsnarar.  Af falsspámönnum er komið nóg og tími til kominn að láta verkin tala.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Þetta var gott mál hjá þér Bjarni og engu logið og heldur ekki á Steingrím.  Þetta hyski Samfylking og Steingrímur var sko nákvæmlega ekki það sem þurfti núna.  En við það varð ekki ráðið og verður því að þreyja þorrann jafnvel fram á gor því að ekki hefur þetta fólk vit á að fara frá á meðan flýtur.

Það snjallasta í þessu öllu saman er að ráðherrar í ríkisstjórn íslands ætla og hafa gefið um það yfirlýsingar að þeir ætli að kjósa gegn vilja þjóðarinnar, alveg er þetta bráðskemtilegir visku brunnar sem við höfum þarna, en rolan hún Jóhanna nennti ekki að segja sína skoðun á atkvæða seðlinum og pikkalóinn átti sinn þagnar rétt.   

Hrólfur Þ Hraundal, 27.2.2010 kl. 00:40

2 Smámynd: Bergljót Aðalsteinsdóttir

Það er einhver munur eða sjallarinir og framarirnir sem afhentu eigur þjóðarinnar í hendur vildarvinum til að eyða og leika sér að!! Þvílíkur tvískiningur! En þjóðin mun aldrei líða slíkt aftur hve mikið sem þið reynið að þyrla upp ryki eflaust munið þið fangna valdatöku Sigmundar Kögunarsonar og Bjarna Vafnings. En þjóðin mun ekki taka þeim athugasemdalaust einsog gerst hefði 2007 og fyrr.

Bergljót Aðalsteinsdóttir, 27.2.2010 kl. 12:36

3 Smámynd: Sigurður Óskar Jónsson

Góðan daginn

Nú þekki ég þig í ekki neitt og hef í sjálfu sér enga skoðun á þessum pistli þínum.  Mig langaði bara að benda þér á að kviksyndi er skrifað með K-i.

Góðar stundir.

Sigurður Óskar Jónsson, 27.2.2010 kl. 13:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband