Hviklyndi leiðir til kviksyndis

Hviklyndi ríkisstjórnarinnar stendur öllum málum fyrir þrifum, sem hún kemur nálægt.  Hún hefur jafnvel slegið úr og í varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna um staðfestingu eða synjun á þrælalögunum, sem hún þrælaði gegnum Alþingi í lok árs 2009, en forseti lýðveldisins synjaði staðfestingar.  Svo langt hefur hringlandaháttur ríkisstjórnarinnar gengið, að oddviti hennar spurði á Alþingi, þegar minna en vika var til atkvæðagreiðslu, til hvers þessi atkvæðagreiðsla væri eiginlega. 

Segja má, að ekki verði á þessa ríkisstjórn logið.  Það er sama, hvaða asnastrik væri framið eða dómgreindarleysi sýnt, því væri trúandi á þessi endemis stjórnvöld landsins.  Hvers á Ísland að gjalda að sitja uppi með slíka hryggðarmynd í stjórnarráðinu, þegar hæst á að hóa ?  Ríkisstjórninni væri trúandi til að fremja hvaða heimskupör, sem hugsazt gæti.  Slík er af henni reynslan.

Þá má spyrja: til hvers situr þessi ríkisstjórn ?  Hún er klofin í herðar niður í öllum meginmálum, frá Brüssel til Bakka, og algjörlega óhæf til að stjórna.  Afturhaldsstjórnin átti að segja af sér, þegar forseti synjaði þrælalögum hennar staðfestingar, úr því að hún dró lögin ekki til baka.  Sú staðreynd, að lögin eru enn í gildi, er nægt svar við spurningu forsætisráðherra um ástæður atkvæðagreiðslunnar. 

Ríkisstjórnin hefur líka þruglað um að seinka þjóðaratkvæðagreiðslunni.  Það væri hins vegar stjórnarskráarbrot, því að kveðið er á um, að skera skuli úr um ágreining þings og forseta svo fljótt sem verða má með þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þangað til ríkir stjórnlagakreppa í landinu ofan á aðra eymd.

Úrtölumenn þessarar atkvæðagreiðslu hafa allt á hornum sér og telja málefnið illa fallið til þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem um þjóðréttarlegan samning sé að ræða og fjalli um fjármál.  Hvort tveggja er tóm vitleysa.  Samningurinn er einkaréttarlegs eðlis; það var hin mikla meinloka vinstrigræningjanna Steingríms, Svavars og handbendis þeirra, Indriða.  Þá má benda á, að Svisslendingar efna til þjóðaratkvæðagreiðslna um skatta til kantóna og ríkis, og hefur slíkt fyrirkomulag gefizt þeim vel, þannig að óvíða eru skattar lægri en í Sviss. 

Ánægður Svisslendingur að störfum

Svisslendingar eru svo ánægðir með þjóðfélag sitt, að þeir vilja alls ekki ganga í ESB, þó að þeir séu staðsettir inni í ESB, landfræðilega.  Þeir vildu ekki einu sinni vera í EFTA/EES.  Til gamans er hér til hliðar sýnt eintak af lukkulegum rafmagnsverkfræðingi, svissneskum, Max Wiestner, að störfum í frítíma sínum. 

Það hefur komið berlega fram í viðtölum við útlendinga og af viðbrögðum Hollendinga og Breta, að téðar kosningar á Íslandi eru heimssögulegar og munu þess vegna styrkja íslenzkan málstað, þó að ríkisstjórn Íslands setji upp hundshaus og reyni að gera lítið úr þessu beittasta vopni, sem Íslendingum er tiltækt í núverandi stöðu.  Þessu er þannig varið, að víðast hvar á Vesturlöndum jusu ríkisstjórnir úr fjárhirzlum og yfir í svarthol fjármálageirans, sem fallinn var að fótum fram með skuldavafninga, afleiður og önnur uppátæki af fjölbreytilegasta tagi, sem losað höfðu um mikið fé og þanið út fjármálageirann án nokkurrar innistæðu.  Gissur gullrass var að falli kominn, þegar "Samfylkingarleiðtogi" Bretaveldis, hinn viðskotailli Gordon Brúnn, sem reyndar er hrossheiti á Íslandi, bjargaði honum frá gjaldþroti á Bretlandi með feiknarlegum austri skattfjár í vasa Gissurar gullrass.  Brezka þingið var ekki spurt um þetta.  Skotinn Gordon Brúnn, sem að sögn brezkra blaða hagar sér þannig á vinnustað, að starfsfólk þarf áfallahjálp, sparkaði reyndar í liggjandi íslenzka banka í Lundúnum og gaf þannig íslenzka bankakerfinu náðarhöggið, sem ella hefði þó að líkindum orðið sjálfdautt vegna alvarlegra innanmeina. 

Eðlilega er kraumandi óánægja í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar með þjóðnýtingu taps fjármálastofnana.  Íslenzka þjóðin er sú fyrsta, sem tækifæri fær til að tjá hug sinn til slíks.  Til landsins er komið a.m.k. hálft hundrað (jafnvel stórt hundrað) fréttamanna hvaðanæva að úr heiminum til að segja fréttir af þessum heimssögulega atburði, sem hér er í uppsiglingu.  

Skrifræðisveldi ESB er skíthrætt við þá lýðræðisvakningu, sem orðið getur í Evrópu í kjölfarið.  Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi.  Af þessum ástæðum er Samfylkingin eins og hænurass í vindi um þessar mundir og slær úr og í.  Talsmenn Brüsselfylkingarinnar tuða um markleysi þjóðaratkvæðagreiðslunnar og frestun, en það er brennt fyrir, að ríkisstjórnin grípi gullið tækifæri til gagnsóknar. 

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gætti hagsmuna íslenzku þjóðarinnar hraksmánarlega illa með samkomulaginu 5. júní 2009 við Breta og Hollendinga.  Alþingi sætti sig ekki við gjörninginn og setti margvíslega fyrirvara í lögin um ríkisábyrgð þessa óþurftarsamkomulags.  Andstæðingarnir höfnuðu þessum lögum, og þar með áttu þau að falla úr gildi.  Samt er sagt í bæklingi Lagastofnunar Háskóla Íslands, sem sendur hefur verið inn á hvert heimili í landinu í tilefni kosninganna, að téð lög taki gildi, hafni þjóðin þrælalögunum, sem nú eiga að koma til atkvæðagreiðslu.  Þetta fær ekki staðizt, og ljóst er, að deilumál þetta fær nýtt upphaf, ef þjóðin tekur fram fyrir hendur óhæfrar ríkisstjórnar og Alþingis með böggum hildar.  

Allt, sem ráðherrar hafa sagt þjóðinni um "Icesave" málið, orkar mjög tvímælis, svo að vægt sé til orða tekið.  Fullyrðingin um, að lengra verði ekki komizt í samningaviðræðunum en að samningi þeim, sem nú á að greiða atkvæði um ríkisábyrgð á, er augljóslega tóm vitleysa.  Framganga ríkisstjórnar Íslands í þessu árans "Icesave"-máli er frá upphafi til enda með þeim hætti, að hún hefur sýnt eindæma undirlægjuhátt gagnvart erlendu ofríki og sett sjálfa sig að veði fyrir framgangi vilja ESB (Evrópusambandsins) hérlendis, þó að hún þori ekki að kannast við það.  Öll hennar dagskrá hefur verið undirlögð þessu viðundri í samningsmynd.  Meira að segja umsóknin um aðlögunina að ESB er í uppnámi, og er hollast að eyða ekki meira púðri í þá sjálfstortímingu en orðið er. 

Þingmenn Samfylkingar og vinstri grænna hafa í raun afsalað Alþingi lunganum úr fullveldinu í hendur Breta og Hollendinga með því að fela þeim hér skattheimtuvald.  Þetta er fullkomlega forkastanlegur gjörningur, sem ætti að dæma þessa stjórnmálaflokka út í yztu myrkur um langa framtíð.  Ríkisstjórnin reyndist fullkomlega ófær um að leiða samningaviðræður við Hollendinga og Breta, og viðreisn hagkerfisins og efnahags heimilanna er henni algerlega ofviða.  Hún er fallin á prófinu með 0,0 og á ekki að fá að reyna aftur. 

Gold Diplom Blauburgunder 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Frábær pistill hjá þér, og svo sannur.  Eins og út úr mínu hjarta talað.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.3.2010 kl. 18:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband