9.5.2010 | 12:20
Eftirlæti ríkisstjórnarinnar
Ríkisstjórn stöðnunarinnar hangir yfir engu. Helzt finnur hún sér það til dundurs eftir synjun forseta lýðveldisins á þrælalögunum að snupra hann fyrir ummæli, sem hún heldur, að valdið hafi samdrætti í ferðamannaiðnaðinum. Skýring samdráttarins er þó önnur en upplýsingar forsetans gefnar í viðtölum við erlenda fjölmiðla. Skýringin er fólgin í rétt einum herfilegum mistökum embættisbákns Evrópusambandsins, ESB. Það hafði sett reglu um "zero tolerance" eða stöðvun flugs við minnsta öskustyrk á flugleiðum. Þessi regla er algerlega út í hött, því að hún stingur í stúf við þol hreyflanna, sem áratuga reynsla er af, og hún er ekki reist á faglegri áhættugreiningu. Hefði hún farið fram, hefði komið í ljós, að alvanalegt er, að þotur fljúgi í rykmistri frá eyðimörkum, þar sem rykstyrkur er svipaður og öskustyrkur á flugleiðum. Hættan er mismikil eftir bræðslumarki efnisins og tjón og hætta af völdum stöðvunar mestalls flugs í heilli heimsálfu er svo mikið, að það dregur úr hagvexti heimsins.
Eftir að vitleysan hafði viðgengizt í viku, flugmálayfirvöldum í einstökum löndum til mikillar gremju, t.d. í Þýzkalandi, var reglunum breytt og viðmið sett við 2000 ug/m3. Styrkur gosösku frá Eyjafjallajökli fór aldrei yfir þetta viðmið á flugleiðum og var yfirleitt undir 100 ug/m3.
Ferðamenn með bókað flug komust ekki til landsins, og það er eðlilegt, að þeir hætti ekki á að verða tepptir á flugvöllum eða innlyksa á Íslandi, þegar stöðvun flugs vofir yfir. Regluverk ESB er ekki aðeins misheppnað fyrir sjávarútveginn og fjármálageirann. Það lamaði Evrópu í kjölfar lítils eldgoss á Íslandi.
Nú horfum við á upphaf dauðastríðs sameiginlegu myntarinnar, sem er afsprengi stjórnmálamanna og embættismanna ESB, en fær ekki staðizt vegna innbyrðis andstæðna á evrusvæðinu. Sjaldan er ein báran stök, og ESB siglir nú mjög krappan sjó. Nýju efnahagshruni er spáð í sumar, og skammvinnt hrun bandarísku verðbréfavísitölunnar í viku 18/2010 vitnar um óvissu markaðarins. Það kastar tólfunum, að á sama tíma er íslenzka ríkisstjórnin í mjög kostnaðarsömu aðlögunarferli að þessu fyrirbrigði, þar sem aðalhagstjórnarvandamálið nú um stundir herjar, þó að samningaviðræður íslenzku vinstri stjórnarinnar við ESB geti aldrei orðið barn í brók. Ríkisstjórnin vinnur allt með öfugum klónum og virðist hvorki vita í þennan heim né annan. Það er engin vitglóra í stefnumörkuninni. Hún er algerlega úti að aka.
Stjórnmálamenn vinstri flokkanna og vinstri sinnaðir embættismenn horfa löngunar- og öfundaraugum til Brüssel. Þar er Mekka reglugerðafargans og gagnslítils eftirlitsiðnaðar. Ráðherrar vingulslegrar vinstri stjórnar telja, að betra sé að veifa röngu tré en öngu. Þeir eru nú teknir til við að unga út lagafrumvörpum um aukinn eftirlitsiðnað og nýjar eftirlitsstofnanir. Þetta er eftirlæti forræðishyggjunnar, og þetta er kolröng stefna. Það má alls ekki auka ríkisbáknið frá því, sem nú er. Þvert á móti verður að draga verulega úr því, því að það er nú skattborgurunum allt of dýrt miðað við gagnsemina. Umsvif ríkisins verður að skera niður um fjórðung strax og hagkerfið fer að taka við sér að nýju. Aðeins einkageirinn getur skapað heilbrigðan hafvöxt, og með þessu móti fær hann starfsfólk án þess að valda þenslu á vinnumarkaðinum. Það er reyndar mjög mikið svigrúm í hagkerfinu fyrir ný störf, því að 26 þúsund mannár hafa tapazt úr athafnalífinu frá Hruninu. Eftirlitsiðnaðurinn á að vera "lean and mean", þ.e. mjósleginn og grimmur.
Í stað þess að setja á stofn nýjar stofnanir, sem meira eða minna skara starfsemi þeirra, sem fyrir eru, á að breyta lögum um þær og veita þeim ótakmarkaðar rannsóknarheimildir. Heiðarlega rekin fyrirtæki og stofnanir hafa ekkert að fela, og litlu breytir fyrir þau, hvort þau eru rannsökuð ofan í kjölinn við úrtaksskoðanir yfirvalda. Slíkt fyrirkomulag virkar hins vegar mjög fyrirbyggjandi á þá, sem erfitt eiga með að rata veg dyggðanna. Þessi leið jafngildir ekki útþenslu ríkisbáknsins, og þess vegna fer ríkisstjórnin hana ekki. Þess í stað hyggst hún fjölga silkihúfum, sem sitja og fægja á sér neglurnar á hlýlegum stöðum, en vinna ekki fyrir kaupinu sínu. Þetta er jafnaðarmennska andskotans.
Hlálegt dæmi er fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt því á að setja á stofn Fjölmiðlastofu. Þessi stofnun mun eiga að fylgjast með því, sem matreitt er ofan í landsmenn á prentmiðlum og ljósvakamiðlum, og gæta þess, að hæfilegur skammtur berist frá "norrænu velferðarþjóðfélögunum" af hrútleiðinlegri félagsmálakrufningu. Hér tröllríður forræðishyggja vinstri-grænna húsum, enda er þetta eftirlætismál menntamálaráðherrans. Kippist hún til í allar áttir, þegar talið berst að þessu efni. Öll er þessi stefna stórlega sjúkleg.
Þetta er eins vitlaus útgjaldaaukning á krepputímum og hugsazt getur. Sem betur fer er unnt að forðast eymdardagskrá RÚV og fylgjast með eðalefni frá Stóra-Bretlandi, Þýzkalandi, Bandaríkjunum og víðar. Vinstri-grænir væru líklegir til að skipa stóra nefnd til að stoppa í þau göt.
Handarverk ríkisstjórnarinnar vitna um einstakan aulahátt, þröngsýni, athafnalífs fjandsemi og skaðlega forsjárhyggju. Afgreiðsla fallins bankakerfis án lýðræðislegrar umræðu í hendur huldumanna og ónefndra vogunarsjóða ásamt síðbúnum aðgerðum með beitingu 18 mánaða gamalla neyðarlaga til yfirtöku sparisjóðanna eru stórfelld fjármálaleg mistök. Að standa gegn nýrri atvinnusköpun með orkunýtingu er aðför að 17 þúsund atvinnuleysingjum og þúsundum, sem hrakizt hafa úr landi. Skattahækkanir á fyrirtæki, launþega og sparifjáreigendur hafa dregið allan mátt úr hagkerfinu, svo að það hjakkar nú í sömu förunum án nokkurs hagvaxtar.
Þetta er hinn beiski kaleikur tærrar vinstri stjórnar. Dýr lexía hefur kennt landsmönnum, hvað vinstri stefna í stjórnarráðinu hefur í för með sér. Aldrei aftur vinstri stjórn.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:05 | Facebook
Athugasemdir
NEI - aldrei aftur vinstristjórn -
Með hvaða ráðum má losna við Jóhönnu skaðræðis-stjórnina - STRAX - ? Áður en hún gerir landsmönnum meiri skaða en orðið er ?
Benedikta E, 9.5.2010 kl. 15:42
Beiskur og banvænn kaleikur-- Koma ráð!
Helga Kristjánsdóttir, 9.5.2010 kl. 17:17
Hafa nornaveiðarnar hafa ekki tekist sem skildi???
Eyjólfur G Svavarsson, 9.5.2010 kl. 20:00
Þetta er stór góður pistill,og þörf ádrepa til þeirra manna sem mæra aumingjanna sem sitja í stjórnarráðinu.
Þórarinn Baldursson, 10.5.2010 kl. 10:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.