Fordæmanleg utanríkisstefna

Utanríkisstefna ríkisstjórnarinnar vitnar um kálfslegt eðli.  Óvarlegt er að hyggja alla viðhlæjendur vini.  Betur hefði Alþingi samþykkt þann 16. júlí 2009 að veita þjóðinni kost á að tjá sig beint um jafnafdrifaríka stefnumörkun og umsókn að Evrópusambandinu, ESB, er.  Þá hefði að öllum líkindum verið forðað stórslysi, sem nú er í uppsiglingu. 

Samfylkingin, með alla sína grunnristu hlöðukálfa, hélt því fram, að umsókn jafngilti ósk um könnunarviðræður.  Nú er komið í ljós, það sem andstæðingar aðildarumsóknar vöruðu við, að hér er í raun um aðlögunarferli umsækjenda að ræða.  Ríkisstjórnin er þar með búin að skrifa upp á víxil, sem enginn samþykkjandi er að.  Þetta er lítilsvirðing við lýðræðislega stjórnarhætti, ábyrgðarleysi gagnvart íslenzku þjóðinni, og viðsemjendurnir eru hafðir að fíflum.  Ríkisstjórnin er hagsmunum þjóðarinnar hættuleg.

Það nær engri átt að halda þessu ferli áfram.  Vinstri stjórnin hefur hvorki þrek né vilja til að játa mistök sín.  Eitt fyrsta verk nýs Alþingis verður að stöðva vitleysuna á þeim grundvelli, að þetta hafi verið kosningamál, eða að fresta umsóknarferlinu fram yfir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Umsóknin mun e.t.v. kosta um 3 milljarða króna, þegar upp verður staðið, og tekur mikinn kraft úr stjórnkerfi, sem er veikburða í samanburði við önnur lönd og embættisbákn ESB.  Í ljósi þess, að umsóknin er andvana fædd, er hún forkastanleg sóun almannafjár, rekin á erlendum lánum við háum vöxtum.  Á tímum stórfelldrar erlendrar skuldasöfnunar ríkissjóðs eru þessi útgjöld óverjanleg.  Vinstri stjórnin mun verða að gjalti, ef hún lifir það að ljúka viðræðum, því að uppkastið mun verða kolfellt bæði af þingi og þjóð.  Verst er, að þetta mun bitna á orðstýr íslenzku þjóðarinnar í Evrópu, þegar það kemst í hámæli, hvers konar loddara hún hefur valið til valda. 

Aðalröksemd aðdáenda og smjaðrara fyrir ESB fyrir aðild Íslands var, að þá mundu gjaldmiðilsmálin verða leyst í eitt skipti fyrir öll.  Flestum er þó að verða ljóst, að með upptöku evru færu landsmenn úr öskunni í eldinn.  Evran virkar sem óþolandi spennitreyja á öll lönd, nema hinar framleiðsluknúnu germönsku þjóðir Mið-Evrópu.  Allsherjarverkföll og blóðsúthellingar eru hafin í Grikklandi, af því að ráðin hafa í raun verið tekin af grísku ríkisstjórninni.  AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn) setti sína menn í grísku ráðuneytin, þannig að niðurlæging Grikklands er algjör.  Er þetta langversta ástand Grikklands frá því að Wehrmacht hertók Grikkland 1941 skömmu fyrir "Operation Barbarossa" eða "Aðgerð rauðskegg" eftir að Grikkir höfðu með hetjuskap hrakið her Mússólínis af höndum sér.  Þessir atburðir töfðu innrás Þjóðverja í Rússland, svo að hetjuleg vörn Grikkja kann að hafa reynzt örlagarík. 

Evrópa 1945Um þessar mundir minnast menn þess, að 65 ár eru frá lokum hildarleiksins mikla í Evrópu, þó að enn geisaði styrjöld í Asíu.  Á þessum tímamótum refsuðu kjósendur í Nordrhein-Westphalen ríkisstjórninni í Berlín fyrir að samþykkja flutning á fjármunum þýzkra skattborgara í grísku hítina.  Hér er um að ræða um EUR 10 Mia í fyrsta áfanga, sem þýzkur almenningur telur vera hreina sóun á skattfé sínu, enda sé gríska ríkissjóðinum ekki við bjargandi.  Allt bendir til, að þetta sé rétt mat Þjóðverja og að ríkisgjaldþrot blasi nú við Grikkjum.  Hver evra þangað er töpuð evra. Tilburðir til að forða ríkisgjaldþrotum Miðjarðarhafslandanna, sem eru ósamkeppnishæf á erlendum mörkuðum með evruna, af því að þau hafa ekki tekið til í sínum ranni, munu verða dýrkeyptir og hagvaxtarhindrandi í Evrópu. 

Gjaldþrot eins evrulands mun hins vegar hafa keðjuverkandi áhrif og Suður-Evrópa mun öll falla í valinn á endanum.  Afleiðingin verður hrun evrunnar og líklega mun hún líða undir lok.  Þetta mun lama ESB, en gömlu þjóðarmyntirnar munu líta dagsins ljós að nýju.  Ekkert er nýtt undir sólunni, og líklega munu verða til viðskiptabandalög að nýju, sbr Hansasambandið, en sameiningartilraunir lagðar á hilluna.  

Íslenzkir vinstri menn geta ekki lengur réttlætt áframhaldandi viðræður um aðild að þessu öngþveiti.  Þó að stjórnarfar hafi reynzt óbeysið á Íslandi, getur það staðið til bóta án þess að kalla yfir landsmenn skrifræðisbákn ESB og fjarlægt stjórnvald. Það verður að stöðva svo kallaðar aðildarviðræður hlöðukálfa vinstri flokkanna við ESB strax.  Þeir brenna upp skattfé og valda þjóðinni orðstýrshnekki, sem seinlegt verður að bæta.  Sannast á þessu ESB-flaðri ríkisstjórnarinnar, að sjaldan verður flas til fagnaðar.  

Utanríkisstefna ríkisstjórnarinnar ber öll merki þess að hafa komið undir hjá fólki með asklok fyrir himin.  Það er ógæfuleg tilurð, og getur aldrei orðið barn í brók.  Nú þarf að snúa við blaðinu.  Forseti lýðveldisins hefur lengi verið óþreytandi að benda á mikilvægi markaða í Asíu og menningarsamskipti þangað.  Enn mikilvægara er að hleypa nýju lífi í fyrrum góð samskipti Bandaríkjanna, BNA, og Íslands og að rækta sambandið við Kanada.  Samskiptin við BNA mótuðust að vísu af hernaðarhagsmunum stórveldisins, en opnun siglingaleiða við ísbráðnun, nýting náttúruauðlinda undir hafsbotni, rísandi Rússland og vaxandi upplausn í Evrópu kunna að stuðla að meiri áhuga í Washington á Íslandi, þó að vart verði um hernaðarumsvif að ræða.

Nú hníga öll vötn til Dýrafjarðar.  Þýzkaland ber ægishjálm yfir önnur Evrópulönd á efnahagssviðinu, og sú staðreynd verður stöðugt meira áberandi á stjórnmálasviðinu.  Íslendingar hafa jafnan átt mikil og góð samskipti við hinar þýzkumælandi þjóðir.  Viðskipti á milli landanna hafa verið blómleg, og þangað hafa margir Íslendingar leitað sér menntunar og getið sér gott orð; ekki sízt á sviði verkfræði og raunvísinda.  Þýzkumælandi þjóðir hafa litið til norrænnar menningar með velþóknun frá dögum Napóleóns Bonaparte, sem þær áttu í vök að verjast gegn. Engum vafa er undir orpið, að hagsmunir Íslendinga og hinna þýzkumælandi þjóða fléttast saman í bráð og lengd.  Með þetta í huga ber að vinna að myndun öxulsins Reykjavík-Berlín, sem kann að verða smíðaður úr hágæðaáli.

Mál af þessu tagi þarf að móta af mikilli framsýni, og gösslaragangur í ætt við ESB-umsókn eða framboð til setu í Öryggisráði SÞ á engan veginn við.  Allt var það reist á fúafeni fáfræði og ofvöxnum, en samt vanþroska "egóum".  

Utanríkisstefnuna á að miða við að tryggja frelsi Íslands til langs tíma í stjórnmálum, viðskiptum og menningu.  Að binda trúss sitt um of við einn aðila er of áhættusamt.  Til skemmri tíma á utanríkisstefnuna að miða við sífellda sókn íslenzkra vöru-og þjónustuútflytjenda inn á markaði, sem hagkvæmastir eru á hverjum tíma, og að því að skapa hagsmunatengsl, sem leiða til umtalsverðra og stöðugra erlendra fjárfestinga í framleiðslufyrirtækjum á Íslandi.  

Til að laða að erlent fjármagn er grundvallaratriði að skapa traust fjárfesta til íslenzks stjórnarfars; ekki sízt réttarfarsins.  Prófsteinn nú á réttarfarið er, hvort tekst að ganga á milli bols og höfuðs á fjárglæframönnunum, sem léku þjóðina og erlenda lánadrottna svo grátt á undanförnum árum sem raun ber vitni um.  Ef það tekst má draga þá ályktun, að heiðarleiki sé enn í öndvegi hafður á Íslandi í orði sem á borði.    

  Dem deutschen Volke


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

    Mótmælum mínum,vegna Esb.umsóknar,var jafnan  mætt með þeirri fullyrðingu,að nú hæfust könnunar-viðræður.  Annað er löngu komið í ljós. Gott að lesa þennan pistil,takk fyrir. 

Helga Kristjánsdóttir, 13.5.2010 kl. 13:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband