27.5.2010 | 21:16
Depurð umhverfis
Nýlega fann umhverfisráðherra Íslands þörf hjá sér til að upplýsa landslýðinn um sálarástand sitt, sem hún kvað þá stundina einkennast af depurð.
Þessi einstæði umhverfisráðherra, hvers helzta minnismerki verður hernaðurinn gegn landinu, sem fólginn er í að fyrirskipa eitrun fyrir tveimur tilteknum jurtategundum í yfir 400 m hæð, er ekki dapur yfir því, að fólk kunni að bíða tjón á heilsu sinni af völdum þessa eiturefnahernaðar í íslenzkri náttúru.
Er hún e.t.v. döpur út af því, að hátt í 30 þúsund mannár tapast árlega út úr íslenzku atvinnulífi frá 2008 og ekki hillir undir viðsnúning á þeirri óheillaþróun, nema síður sé ? Ekki aldeilis. Allt hennar þóf, þvergirðingsháttur, fyrirsláttur og aðgerðarleysi hefur m.a. leitt til þessarar afturfarar og eymdar.
Er hún döpur vegna þess, að allt stefnir í nýja gjaldþrotahrinu, þegar úttektir tugþúsunda launþega á séreignarlífeyrissparnaði sínum verða upp urnar ? Öðru nær. Umhverfisráðherra virðist engan raunverulegan gáning hafa á afkomu fólks. Um það vitnar allt hennar tal og framferði. Það er dæmigert fyrir sameignarsinna. Slíkir stjórnmálamenn hafa villt á sér heimildir, fengið stuðning upp í valdastóla á fölskum forsendum og valdið almúganum stórtjóni, en hampað flokksgæðingum (nómenklatúrunni).
Það, sem veldur hins vegar umhverfisráðherra depurð, er, að erlendur fjárfestir hefur keypt sig inn í orkugeirann íslenzka og öðlazt þannig nýtingarrétt á jarðvarma í Svartsengi og víðar. Þar með gæti hillt undir nýja verðmætasköpun í landinu með nýtingu jarðvarma fyrir tilstuðlan erlends áhættufjármagns, sem langflestar þjóðir reyna að laða til sín og Íslendinga vanhagar um.
Ráðherrann lætur eins og Magma Energy muni fara með þennan jarðvarma úr landi og jafnvel selja hann þar á svörtum. Þá er nú betra, að láta jarðhitann liggja áfram ónýttan djúpt í jörðu en útlendingar hætti fé sínu til atvinnuuppbyggingar á Íslandi og græði hugsanlega á því að framleiða rafmagn o.fl. úr frumorkunni. Þetta er svartagallsraus vinstri-grænna.
Málflutningur sameignarsinna um orkumál ber þess keim, að þeir telji orkufyrirtækin lúta öðrum lögmálum en önnur fyrirtæki. Þetta er argasta firra og sýnir í hnotskurn, að forkólfar Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs vita ekkert í sinn haus um hagræn efni, eru algerlega úti að aka og kunna nákvæmlega ekkert til verka, enda leggja þeir sig ekki eftir neinu því, er til hagvaxtar getur horft í þjóðfélaginu. Með þá í brúnni verður þjóðarskútunni senn siglt í strand.
Flokksbróðir Svandísar, Ögmundur, stúdent, Jónasson, spurði nýlega, eins og aðeins Þórálfur, hagfurðufræðingur, hefði getað spurt, hvers vegna ætti að leyfa einkafjármagn í orkugeiranum ? Marxistinn, gamli, heldur greinilega, að nú sé lag til að koma því inn hjá fólki, að sameignarstefnan, sem varð siðferðilega gjaldþrota snemma á 20. öldinni og seinna efnahagslega gjaldþrota, beri af einkaframtaki og frjálsum markaði hagrænt og siðferðilega. Þessu er eftirfarandi til að svara:
Í fyrsta lagi er hið opinbera á Íslandi, ríki og flest sveitarfélög, skuldsett upp fyrir haus og hafa ekki efni á neinum fjárfestingum, sem um munar. Óhóf og stöðugar kröfur þrýstihópa um framlög af skattfé landsmanna við trumbuslátt fyrirhyggjulausra vinstri manna á Alþingi og í sveitarstjórnum ásamt óstjórn og skuldasöfnun vinstri stjórnanna frá Hruni hafa leitt landið fram á hengiflug Álftanessástands. Ef á að rífa atvinnulífið upp úr núverandi eymdarástandi, verður þess vegna að veita alþjóðlegu einkaframtaki frelsi til athafna í landinu. Kerfisbundin skemmdarverk VG í ríkisstjórn og á Alþingi benda hins vegar til, að þessi stjórnmálahreyfing leggi allt í sölurnar til að koma í veg fyrir slíkt. Til harðvítugs uppgjörs hlýtur senn að koma, þar sem baráttan stendur um þjóðfélagsgerðina sjálfa, þ.e. valddreift og opið markaðshagkerfi með burði til hagvaxtar og vinnu fyrir alla annars vegar, en hins vegar lokað og staðnað og algerlega ósamkeppnihæft einokunarhagkerfi með allsráðandi stjórnmálamenn í fjármála-og athafnalífi, fjöldaatvinnuleysi og vaxandi opinberan rekstur, sem fljótlega mun leiða til þjóðargjaldþrots.
Varpa má ljósi á hinn hluta svarsins með því að taka dæmi af sjávarútveginum. Bæjarútgerðir gáfust herfilega hér á árum áður og skiluðu eigendum sínum ævinlega tapi. Þetta er í reynd það, sem stjórnarflokkarnir ætla að innleiða með hinni afdæmingarlegu fyrningarleið sinni, sem hefur hlotið falleinkunn við hverja faglegu úttektina á fætur annarri. Þegar horfið var frá þessari vonlausu sameignarstefnu á Íslandi með einkavæðingu sjávarútvegsins, hófst mikið hagræðingarferli og tæknivæðing, sem leiddi til þess, að íslenzki sjávarútvegurinn er nú sennilega með hæstu framleiðni í heimi. Mikil framleiðni í samanburði við samkeppniaðilana er grundvöllur þjóðhagslegrar hagkvæmni sjávarútvegsins og þess, að hann geti framvegis verið ein af þremur megingjaldeyrislindum landsmanna.
Með því að hleypa erlendum fjármagnseigendum að orkugeiranum er opnað fyrir aukna samkeppni þar, fjárfestingar, tækniþróun, framleiðniaukningu og fjölbreytni, sem skila mun sér til íslenzkra heimila og fyrirtækja og leggja grunn að aukinni orkukræfri starfsemi í landinu. Allt mun þetta verða hagvaxtarhvetjandi. Allt eru þetta hin almennu og vel þekktu hagfræðilegu sannindi, að almenningi vegnar bezt innan hagkerfa, þar sem stjórnmálamenn láta einkaframtakið um athafnalífið, en láta duga að setja sanngjarnar leikreglur, koma á fót öflugu eftirlitskerfi með miklum rannsóknarheimildum ásamt ströngum viðurlögum við brotum.
Þar sem vel tekst til, leiðir þetta fyrirkomulag til valddreifingar í þjóðfélaginu, en þrúgandi vald stjórnmálamanna yfir fjármálastofnunum og öðru athafnalífi felur í sér hættulega valdsamþjöppun og einokun og er ógnun við lýðræðisþróunina í landinu.
Landsmenn ættu að hafa í huga hið fornkveðna á kjördag, að skamma stund verður hönd höggi fegin. Að refsa ábyrgum sveitarstjórnarmönnum borgaralegra afla með því að kjósa gosa, loddara og lýðskrumara mun hitta þá sjálfa fyrir sem slíkum bjúgverpli beita, og eru vítin til að varast þau.
Stétt með stétt.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Umhverfismál, Fjármál | Facebook
Athugasemdir
Það er kannski ágætt að skrifa langa pistla en miklu betra þó að þekkja umræðuefnið. Hvaðan tekur þú þá fullyrðingu að í ráði sé að endurvekja rekstur bæjarútgerða?
Ég tek af þér ómakið og svara: Þetta hefur enga stoð í öðrum raunveruleika en þeim sem sjálfstæðismenn hafa smíðað handa sér og sínum smalapiltum.
Hitt er annað mál að flestar bæjarútgerðir voru reknar með tapi vegna þess að enginn bar ábyrgð og ríkið stóð á bak við. Verðmæti afla jókst ekki við kvótakerfið. Verðmætið jókst einfaldlega á fáum vikum um tugi prósenta með tilkomu fiskmarkaðanna sem tóku við af handónýtu mati á ferkum fiski.
Framleiðni í útgerð mætti stórauka með því að gefa handfæraveiðar frjálsar og auka línuútgerð til muna á landgrunninu.
Ég veit mikið um þessi útgerðarmál og hef fylgst með stjórnun fiskveiða jafnframt um áratuga skeið ásamt því að hafa starfað við mat á ferskum fiski um langt skeið auk þess að hafa átt og stjórnað fiskverkun um nokkur ár.
Hinsvegar þekki ég það vel að áróðursvél Sjálfstæðisflokks á vegum LÍÚ hefur nýtt sér hin ýmsu manngerpi og vanþekkingu þeirra á útgerð og þróun fiskistofna við Ísland til að dreifa ósannindum og blekkingum um útgerðarmál og markaðsmál.
Þar hefur orðið til nýr sannleikur sem talinn er nógu góður af þeim sem gera ekki háar kröfur.
Árni Gunnarsson, 28.5.2010 kl. 13:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.