Að ná vopnum sínum

Merkasta niðurstaða nýafstaðinna sveitarstjórnarkosninga er, að það sannaðist, að Sjálfstæðisflokkurinn er að ná vopnum sínum.  Fylgi hans nú varð að vísu minna en í sveitarstjórnarkosningunum 2006, en meira en í þingkosningunum 2009.  Þetta sýnir, að hann er á leið upp úr öldudalnum og skyldi engan undra m.v. það, sem í boði er fyrir kjósendur.  Að frambjóðendur flokksins til sveitarstjórna skuli á landsvísu ná u.þ.b. 35 % fylgi eftir það, sem á undan er gengið, veitir von um, að næstu þingkosningar muni færa flokkinum fylgi yfir 40 %, eins og hann naut á sínum beztu stundum. 

GleðigjafiRíkisstjórnarflokkarnir guldu afhroð, og töpuðu t.d. hvor um sig um 12 þúsund atkvæðum í Reykjavík.  Hækja Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingin grænt framboð, galt reyndar afhroð um allt land, og Samfylkingin er á hraðri niðurleið.

Stjórnleysingjarnir, sem unnu sigur í höfuðborginni með tilstyrk fjölmiðlunga, sáu sér strax leik á borði að leggja upp í Dag B. Eggertsson, varaformann, Samfylkingarinnar, sem ella hefði strax hrökklazt út úr stjórnmálum.  Hinn fádæma loðmullulegi og þokulegi Dagur, sem er alræmdur af ákvarðanafælni sinni, rak misheppnaða kosningabaráttu og rak þar nagla í líkkistu síns stjórnmálaferils.  Stjórnleysingjarnir munu hafa hann og flokk hans að háði og spotti, gera hann að hirðfífli sínu og binda enda á stjórnmálaferil hans.  Fíflagangurinn í kringum Bezta flokkinn, sem er allra flokka leiðinlegastur, er rétt að hefjast.

Þetta eru aðrar kosningar ársins 2010, þar sem þjóðin lýsir yfir fullkomnu vantrausti á vinstri flokkana.  Þeir hafa reyndar virzt vera sem lamaðar flugur eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um synjun forseta lýðveldisins um staðfestingu á þrælalögum Steingríms Jóhanns, fjármálaráðherranefnu.  Ekki er ósennilegt, að halda þurfi haustkosningar á þessu ári, því að landið er stjórnlaust.  

Nú ætlar ríkisstjórnin að senda Alþingi heim eftir fáeina daga.  Þingmenn eiga ekki að láta bjóða sér þetta.  Þeir eru að ræða mikilvæg mál, eins og skjaldborg um heimilin, sem ríkisstjórnin hefur með hálfkáki sínu breytt í tjaldborg heimilanna.  Fjöldi fólks og fyrirtækja verður gjaldþrota í haust, ef ekkert verður að gert.  Þá mun ríða yfir hið seinna hrunið, sem verður algert sjálfskaparvíti volaðrar og verklausrar vinstri ríkisstjórnar.  Það er þess vegna nauðsynlegt að flýta skapadægri hennar eins og kostur er.  Hún hefur svikið samninga sína við verkalýðshreyfingu og vinnuveitendur; hún hefur svikið kjósendur sína og landslýð allan með þjónkun sinni við ESB og undirlægjuhætti við Breta og Hollendinga í Icesave-málinu.  Frumvarp hennar um fjármálastofnanir er örverpi og tekur ekki á neinum málum af viti; t.d. er ekki kveðið á um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.  Þá grefur ríkisstjórnin undan öryggi innistæðueigenda, en hyglir skuldabréfaeigendum.  Ríkisstjórnin er trausti rúin innanlands sem utan, þreklaus og getulaus, og það á að kippa undan henni fjölunum hið fyrsta.  

Engin leiðsögn er veitt að hálfu valdhafanna, og enginn veit, hvert stefnt er.  Verkstjórnin á Alþingi er í skötulíki, og þannig hefur þjóðin ekki efni á að halda áfram.  Ríkisstjórnin lafir á eiginn ótta við kosningar og sjúklegri Þórðargleði yfir því að geta haldið borgaralegum öflum frá landsstjórninni og þar með flækzt fyrir raunverulegri viðreisn hagkerfisins. 

Vinstri flokkarnir hafa kennt Sjálfstæðisflokkinum um Hrunið.  Svo heimskuleg ásökun að kenna einum stjórnmálaflokki um hrun fjármálakerfis eins lands þekkist hvergi á byggðu bóli og fær engan veginn staðizt, enda var Sjálfstæðisflokkurinn aldrei einráður hér.  Ef einum aðila er um að kenna, er það meingölluð tilskipun ESB um erlenda banka og bankaútibú erlendis ásamt aðild Íslands að innri markaði EES.  Án þessarar aðildar hefðu bankarnir ekki náð að vaxa hér eins og krabbameinsæxli.  Sjálfstæðisflokkurinn vildi dreifða eignaraðild bankanna, en Framsóknarflokkurinn með bankamálaráðherrann og Samfylkingin með stóran þingflokk vildu kjölfestufjárfesta.  Það fór sem fór, og vítin eru til þess að varast þau.  

Þetta þýðir þó ekki, að lausnin sé einangrunarstefna.  Lausnin er að virkja allar vinnufúsar hendur og efla Ísland sem framleiðslusamfélag fyrir útflutningsvörur sóttar úr hafinu og til íslenzkrar náttúru og orkulinda.  Mun þá hagur strympu skjótt skána og betri dagar birtast með blóm í haga.  Þannig losnum við úr erlendum skuldafjötrum og gjaldmiðillinn mun hjarna við, e.t.v. með svo nefndu myntráði, sem gefizt hefur t.d. Eistlendingum vel.    

Hagvöxtur á heimsvísu er að ná sér eftir fyrra hrunið með hagvöxt upp á 4 % að jafnaði, en honum er afar misskipt.  Eignabóla er nú í Kína og þar af leiðandi vaxandi verðbólga.  Eignabólu verður að hemja til að hindra hrun hagkerfisins, en líklegt er, að verðbólgan hafi nú meira fóður í Kína en við verði ráðið.  Hagkerfi Evrópu er í ömurlegu ástandi og nýting vinnuafls bágborin, sem endurspeglast í 10 %-30 % atvinnuleysi. 

Þungbærastar eru skuldir ríkissjóðanna, sem ríkisstjórnirnar lögðu á þá til að bjarga bönkunum.  Þær munu míga í skóinn sinn með því að prenta peninga, sem verður verðbólguvaldur.  Hérlendis var það lán í óláni, að ríkið hafði ekki burði til að bjarga úttútnuðu bankakerfi.  Hins vegar er skuldasöfnun vinstri stjórnarinnar svo geigvænleg, að hratt stefnir í erlenda skuldasúpu ríkisins yfir 100 % af VLF, en fjárhagshætta hefst við 60 %.  Ríkisstjórnin er þjóðhættuleg, af því að hún flýtur sofandi að feigðarósi.  Alþingi þarf þess vegna að losa þjóðina við þessa óværu hið allra fyrsta og boða þarf til þingkosninga.  Þar munu þingflokkar ríkisstjórnarinnar fá makleg málagjöld og þingmenn þeirra týna tölunni niður í e.t.v. fimmtung þingliðs, en kjósendur halla sér að borgaralegum öflum og e.t.v. stjórnleysingjum um sinn. 

Eitt fullkomnasta dýr jarðar

Þegar pappírstígrisdýrum ríkisforsjárhyggju, sem sífellt mála skrattann á vegginn og sjá fjandann í hverju horni í stað tækifæranna, sem við blasa, hefur verið rutt úr vegi, mun athafnalífið á ný taka að ráða til sín fólk, og atvinnuleysinu verður útrýmt.  Þetta verður ekki gert með því að fá ísbjörn í Húsdýragarðinn, enda varðar það við dýraverndunarlög að pína dýr við svo óeðlilegar aðstæður.  Eftirfarandi er hins vegar bæði nauðsynlegt og nægjanlegt til að koma hjólum efnahagslífsins í gang:

  •  afnema alla skatta vinstri stjórnarinnar
  • afnema öll höft á athafnalíf og fjármagnsflæði
  • fella Fjármálaeftirlitið undir Seðlabankann og setja honum hagvaxtarmarkmið í stað verðbólgumarkmiða.  Þar með lækkar hann vextina.  
  • endurskipuleggja fjármálakerfi landsins, þannig að það þjóni fyrirtækjum og heimilum landsins sem bezt, en ríkið lágmarki vaxtagreiðslur sínar til erlendra fjármagnseigenda.    
  • laða erlenda fjárfesta að íslenzku athafnalífi í miklum mæli og vinna gegn áhrifum ábyrgðarleysis fjármálaráðherra vinstri stjórnarinnar, sem lýsir sér í orðum hans: "you ain´t seen nothing yet".
  • eyða ótta sjómanna og útgerðarmanna með kistulagningu áforma um þjóðnýtingu aflaheimilda, og leggja grunn að nýju framfaraskeiði íslenzks sjávarútvegs með áframhaldandi tæknivæðingu og framleiðniaukningu hans.
  • hætta við auðlindagjald á sjávarútveginn þar til auðlindarentan finnst þar
  • falla umsvifalaust frá öllu flaðri upp um pótintáta Brüsselvaldsins og afturkalla með ákvörðun Alþingis og þjóðaratkvæðagreiðslu hina lánlausu umsókn ríkisstjórnarinnar um aðild að ESB. 
  • hefja "Icesave" málið upp á forsætisráðherrastig, þegar Ísland hefur eignazt forsætisráðherra, sem bæði getur og vill berjast fyrir land sitt.  Þannig voru landhelgisstríðin leidd til lykta.  Samningurinn verði lagður fyrir þing og þjóð.
  • hætta stórhættulegum niðurskurði heilbrigðisgeirans, en spara hinu opinbera fé með einkavæðingu, sjálfseignarstofnunum og samkeppni í þessum geira, sem bæti gæði þjónustunnar við almenning.
  • ýta undir einkarekna skóla til að bæta menntunarstig í landinu, sem er nú svo lélegt, að fjöldi nemenda út úr grunnskóla er ótalandi og óskrifandi á móðurmálinu, hvað þá á öðrum tungum.  
  • koma á persónukjöri til Alþingis, svo að gullgrísir geti ekki smyglað sé upp eftir listum flokkanna í öruggt skjól í krafti gjafa og styrkja, sem gera stjórnmálamenn í raun að mútuþegum.    

Aldrei aftur vinstri stjórn !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband