19.6.2010 | 23:28
Úr Dýrafirði
Aldrei hefur nokkur forsætisráðherra fallið á Íslandssögu á sjálfan þjóðhátíðardaginn fyrr en auðvitað forystusauður hinnar fyrstu tæru vinstri stjórnar Íslandssögunnar þann 17. júní 2010 á Austurvelli. Að geta ekki farið rétt með fæðingarstað sjálfstæðishetju Íslendinga, Jóns Sigurðssonar, forseta, hið fornfræga höfðingjasetur Hrafnseyri við Arnarfjörð, vitnar um djúpstæða vanþekkingu forsætisráðherra og aðstoðarmanna hennar í Stjórnarráðinu á sögu þjóðarinnar.
Þessi atburður sýnir jafnframt, hversu fáfróða og yfirborðskennda aðstoðarmenn forsætisráðherrann hefur valið sér. Hún hefur það e.t.v. sér til málsbóta í þessu tilviki, að hún meini aldrei neitt með því, sem hún lætur út úr sér; það sé annaðhvort lýðskrum eða lygi.
Hátíðarræða forsætisráðherra einkenndist af innihaldslausu blaðri, en stórmál lágu óbætt hjá garði. Hún hrósaði sunnlenzku bændfólki réttilega, en sýndi hún því einhvern samhug í verki, þegar mest á reyndi í öskufallinu ? Markaði hún einhverja stefnu ríkisvaldsins í kjölfar nýfallins dóms Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána ? Nei. Hún ræddi heldur ekkert um það hneyksli, sem málsmeðferð utanríkisráðherra á umsókn ríkisstjórnarinnar um aðild að ESB er orðin. Að hinn kjaftgleiði utanríkisráðherra Íslands skuli hafa móðgað meirihluta landsmanna með því að róa að því öllum árum að leiðtogaráð ESB fjallaði um umsókn Íslands á þjóðhátíðardegi landsins verður í minnum haft. Með bolabrögðum virðist eiga að hindra umfjöllun Alþingis um þingsályktunartillögu Unnar Bráar Konráðsdóttur, þingmanns Sunnlendinga, um afturköllun umsóknarinnar. Það eru gjörbreyttar forsendur frá 16. júlí 2009 innanlands og utan, þannig að Alþingi ber að fjalla núna um málið og staðfesta eða afturkalla umsóknina. Alls konar óaðgengileg skilyrði ESB fyrir samningaviðræðum eru nú að koma fram.
Sami veruleikafirrti utanríkisráðherrann er nú tekinn til við að bera víurnar í borgaralegu flokkana á þingi um myndun þjóðstjórnar. Sú hugdetta hans er andvana fædd, því að Samfylkingin er óstjórntæk; hún er eins máls flokkur, sem nú gengur með steinbarn í maganum. Borgaralegu flokkarnir eiga ekki að reyna að blása lífi í liðið lík. Það verður að fækka verulega gaddfreðnum afturhaldsseggjum á þingi áður en næsta ríkisstjórn verður mynduð, svo að von verði um vitræna viðreisn.
Vinstri stjórnin hefur glatað stuðningi verkalýðshreyfingarinnar. ASÍ hefur formlega losað sig undan aðild að "Stöðugleikasamkomulaginu" vegna svika ríkisstjórnarinnar. Vinstri flokkarnir hafa engin raunveruleg tengsl lengur við verkalýðshreyfinguna. Haldreipi þeirra eru svo kallaðar kjaftastéttir þjóðfélagsins, fjölmiðlungar ýmiss konar, félagsfræðingar, kennarar og stjórnmálafræðingar. Hinar svo kölluðu vinnandi stéttir þjóðfélagsins, sem eru hryggjarstykkið í einkageiranum, sem heldur þessu þjóðfélagi uppi, eiga ekki málsvara í vinstri flokkunum. Áhugaleysi, getuleysi og beinn fjandskapur og andróður vinstri flokkanna við nýja atvinnusköpun er til vitnis um þetta. Hinar vinnandi stéttir þessa lands eiga samleið með borgaralegu öflunum. Stétt með stétt er gott og gilt einkunnarorð úr þeim herbúðum.
Með því að segja "pass" við dómi Hæstaréttar um ólögmæti gengisviðmiðunar lánasamninga, bítur ríkisstjórnin endanlega höfuðið af skömminni. Fjármálastofnanirnar, þ.á.m. ríkisstofnanir, eru hvumsa og vita ekki í hvora löppina þær eiga að stíga. Efnahags-og viðskiptaráðherra gumaði af því fyrir uppkvaðningu, að ríkisstjórnin væri tilbúin með útspil á hvorn veginn, sem dómurinn félli. Það reyndust innantóm orð og eigi hið fyrsta sinni. Bankar eru farnir að tala um, að reikna eigi afturvirkt með óverðtryggðum vöxtum, sem Seðlabanki Íslands gefur út. Það er algerlega úr lausu lofti gripið og styðst engan veginn við dóminn. Bankar hafa enga heimild til að breyta vaxtakjörum lánasamninganna einhliða. Ef eitthvert bein væri í nefi ríkisstjórnarinnar, mundi hún kveða upp úr um þetta, og Alþingi mundi væntanlega staðfesta með lögum. Þrætubókarmenn ætla að gera einfalt mál flókið.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Fjármál | Breytt s.d. kl. 23:50 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.