24.6.2010 | 22:43
Hundshaus
Að setja upp hundshaus er aðalsmerki hinnar verklausu vinstri stjórnar, þegar hún mætir óvæntum atburðum eða andbyr. Hún situr þá með hendur í skauti og lætur sem ekkert hafi gerzt. Þetta gerðist fyrir og efir þjóðaratkvæðagreiðsluna um þrælalög hennar, og þetta gerðist nú eftir uppkvaðningu Hæstaréttardóms um ólögmæti þess að vísitölutengja höfuðstól lána í íslenzkum krónum við myntkörfu. Ríkisstjórnin þóttist fyrirfram vera tilbúin með aðgerð í kjölfar dóms, en sennilega hefur þar verið rétt einn óvitaskapurinn á ferðinni, sem hún heyktist á. Axarsköpt þessara furðufugla eru "legio".
Hin furðulega staða hefur síðan myndazt, að efnahags-og viðskiptaráðherra fær hland fyrir hjartað af tilhugsuninni um, að hinn sakfelldi taki út fulla refsingu. Algilt hefur þó hingað til verið, að einu gildi, þótt einhver telji þann dæmda ekki hafa efni á að greiða refsinguna; sá seki verður samt að standa skil á refsingu samkvæmt dómi. Hið sama á auðvitað að gilda um lánastofnanir, sem frömdu hinn refsiverða verknað og höfðu í mörgum tilvikum í frammi gylliboð og fullyrðingar um, að áhætta lánþega og lánveitanda væri svipuð. Rangsleitni ráðherrans ríður ekki við einteyming.
Vegna hringlandaháttar ríkisstjórnarinnar er nú komin upp óvissustaða um túlkun á skýrum Hæstaréttardómi. Fyrrverandi Hæstaréttardómari, Magnús Thoroddsen, telur þó engum vafa undir orpið, að þessi gjörningur lánastofnana sé ólöglegur og að hafa verði í huga, hver hafi verið ríkjandi aðili í þessum viðskiptum. Auðvitað verður sá aðili að bera tjónið.
Þá kemur gamli, þurftarfreki Trotzky-istinn í Seðlabankanum til skjalanna og fullyrðir, að þetta muni hafa neikvæð áhrif á þjóðarhag, sliga bankana og hamla viðreisn. Það er með ólíkindum, að seðlabankastjóri skuli reyna að grafa undan gildi Hæstaréttardóms og jafnvel verða valdur að ótta fólks um innistæður sínar með slíku tali. Þetta er fullkomlega ábyrgðarlaust hjal hjá Trotzky-istanum gamla og algerlega órökstutt og stenzt ekki skoðun.
Samkvæmt athugun, sem Pétur Blöndal, tryggingastærðfræðingur og Alþingismaður hefur gert og tjáð sig um á sjónvarpsstöðinni ÍNN, hafa bankarnir burði til þess arna, a.m.k. ef annað heldur. Það er tóm vitleysa hjá efnahags-og viðskiptaráðherra, að Hæstiréttur þurfi að dæma um, hvaða vexti téð lán eigi að bera. Í dómi Hæstaréttar er ekki minnzt á vexti, aðeins höfuðstól; þess vegna skulu vextir verða óbreyttir fram að uppkvaðningu dóms varðandi skuldabréf, sem sambærileg eru þeim, sem dómurinn fjallaði um.
Hins vegar er ríkisstjórninni í lófa lagið að kalla Alþingi saman strax til að ræða það, hvaða vexti þessi lán eigi að bera frá uppkvaðningu dóms, eða gildistöku slíkra laga, og jafnframt, að lántaka verði þá í lófa lagið að binda endi á lánssamninginn og greiða upp lánið samkvæmt dómi Hæstaréttar.
Ríkisstjórninni hugkvæmist ekki að höggva á hnútinn, sem flækjufætur bankavaldsins hnýta. Ríkisstjórnin getur aldrei neitt annað en flækzt fyrir þjóðþrifamálum og stundað gæluverkefnadekur. Vandamálum er mætt með hundshaus. Hún er stjórn aðgerðaleysis, þegar hæst á að hóa.
Alvarlegustu gæluverkefnin eru úr smiðju afdankaðrar sameignarstefnu og er beint að stjórnarskráarvörðum rétti - sjálfum eignarréttinum.
Bent var á dæmi um þetta í grein í Morgunblaðinu um sólstöður 2010, "Um eignarrétt á vatni", eftir formann Landssambands veiðifélaga og formann Landssamtaka landeigenda á Íslandi. Þar var bent á þá hégilju þingmanna Samfylkingar og vinstri-grænna, að hætta væri á, að vatnsforði Íslendinga kæmist í hendur útlendinga og að landsmenn kynnu að þurfa að kaupa vatn af erlendum auðhringjum. Hér er um glórulausan áróður vinstri flokkanna að ræða. Um 3/4 vatnsforðans á Íslandi er nú á höndum ríkisins, og um 1/4 eru háður nýtingarrétti, sem fylgja landeign eða fasteign.
Sameignarsinnar undirbúa nú aðför að þessum einkaeignarrétti, sem er jafngamall Grágás. Þeir reyna að fegra yfirganginn með blaðri um "þjóðareign", en þjóðin er ekki lögaðili, svo að sá fagurgali gengur ekki upp. Þetta ógæfulega gæluverkefni aðdáenda Karls, gamla, Marx er þó hjóm eitt hjá hinum þjóðhættulegu hugmyndum sameignarsinna um "fyrningu aflaheimilda".
Prófessor Ragnar Árnason hefur með glöggum hætti sýnt fram á, að "fyrning aflaheimilda" mun leiða til efnahagshruns á Íslandi, því að hún mun leiða til gjaldþrots útvegsins, sem bankarnir munu ekki geta staðið af sér. Gangi Ísland í ESB, sem sömu aðilar róa öllum árum að, munu veiðiheimildarnar hafna hjá erlendum útgerðum, segir Ragnar. Var þessari fáránlegustu og skaðlegustu hagstjórnarhugmynd síðari tíma plantað í höfuð Samfylkingarinnar af ríkisstyrktri útgerð í Evrópu ?
Kenning Ragnars er sú, að í hugarheimi sameignarsinnans ríki algert skilningsleysi á hagfræðilegum "lögmálum". Hann skilji ekki, að sjálfur einkaeignarrétturinn knýr kerfið áfram og er sjálf undirstaða verðmætasköpunarinnar og arðsemi greinarinnar. Innköllun aflaheimilda jafnast á við stórfellda skattlagningu, sem strax mun eyðileggja arðsemi fyrirtækjanna og rýra verðgildi þeirra hrapallega. Vanhugsuð jafnaðarmennska undir áróðursheitinu "kvótann í þjóðareign" getur hæglega gert út af við efnahagslegt og þar með stjórnmálalegt sjálfstæði landsins.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjármál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.