Dansað við úlfa

Iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, fullyrti nýlega í fjölmiðlaviðtali, að aðrir erlendir fjárfestar mundu ekki kippa sér upp við það, þó að Magma Energy hrykki úr skaptinu.  Þessi fullyrðing var órökstudd, og hún á sér enga stoð í veruleikanum.  Þá má spyrja, hvaða augum Alcoa-menn líti á framkomu iðnaðarráðherra við þá út af Bakkaverkefninu.  Sjaldan er ein báran stök.

Framferði ríkisstjórnarinnar er grafalvarlegt og hefur ótvíræð fælingaráhrif.  Ríkisstjórnin er skaðvaldur almannahagsmunum og atvinnutortímandi, nema fyrir eigin hlöðukálfa á ríkisjötunni, sem ekkert vinna af almennilegu viti og skapa þess vegna engin verðmæti, nema síður sé. Klúðurstjórnin viðheldur kreppunni.

Til þess eru refirnir skornir hjá Vinstri hreyfingunni grænu framboði og viðlíka mörðum að tefja öll framfaramál í landinu eða að drepa þeim á dreif, þar sem einkaframtakið er annars vegar.  Bakkamálið sýndi reyndar, að Samfylkingin hefur lítinn sem engan skilning á nauðsyn iðnvæðingar til að skapa hér traust, evrópskt nútímaþjóðfélag, því að umhverfisráðherra hennar, Þórunn Sveinbjarnardóttir, hvítabjarnarbani, gerði sitt til að eyðileggja málið með svo kölluðu sameiginlegu umhverfismati.

Nú um stundir háttar þannig til, að eina einkaframtakið, sem dregið getur strandaða íslenzka þjóðarskútu á flot, er erlent.  Af einskærri forpokun, fordild og forheimskun mega vinstri grænir ekki heyra á slíkt minnzt. Það er athyglivert, að einu umtalsverðu erlendu fjárfestingarnar á Íslandi eru vesturheimskar enn sem komið er, þ.e. frá Kanada og Bandaríkjunum (BNA).  Hvernig víkur því við, að alþjóðleg fyrirtæki Evrópu hafa ekki fjárfest hér neitt að ráði þrátt fyrir EES ?  Mundi innganga í ESB og upptaka evru í fyllingu tímans greiða fyrir því ?  Það er ekki að sjá, að hin vinstri sinnaða Samfylking sé hrifin af erlendum fjárfestingum.  Á hvaða leið er hún eiginlega, ef hún vill fyrir alla muni troða landinu inn í ESB, en er á sama tíma með alls kyns vífilengjur gagnvart frjálsu flæði fjármagns ?  Stefna Samfylkingarinnar gengur ekki upp.  Hún er í blindgötu og hefur glatað öllum trúverðugleika.   

Ísland hefur aldrei efni á slíkum yfirgengilegum hringlandahætti í viðskiptum við erlenda fjárfesta, sem opinberazt hefur undanfarið, og sízt af öllu nú, þegar landinu ríður á skjótri og varanlegri viðreisn atvinnulífsins til að vinna bug á atvinnuleysinu, ná jafnvægi í ríkisbúskapinum, auka gjaldeyristekjur þjóðarbúsins til að greiða niður erlendar skuldir og að skjóta stoðum undir traustan hagvöxt öllum til hagsbóta.

Samskipti stjórnmálamanna í valdastólum og embættismanna þeirra við fjárfesta eru viðkvæm, og oft veltir lítil þúfa þungu hlassi.  Í hópi fjárfestanna getur gætt hjarðhegðunar, eins og í öðrum hópum, og verði þeir varir við hringlandahátt eða lítt dulbúna andúð í garð eins, má búast við, að þeir bíði ekki boðanna, heldur leiti annað.  Ísland á í harðri samkeppni við mörg önnur lönd um erlent áhættufé, og t.d. lönd, sem óska eftir orkukræfum iðnaði, eru ýmis til, og bjóða þau m.a. orkuverð, sem Ísland getur ekki keppt við.  Ísland verður þá að geta boðið eitthvað annað á móti, t.d. úrvals starfsfólk, þróaða innviði, traust stjórnarfar og markaðsaðgengi.  Umhverfisvænar orkulindir eru viðbótar kostur.

Traustvekjandi framkoma valdhafa skiptir í þessu sambandi sköpum.  Það er t.d. skaðlegt í þessu sambandi, þegar ráðherra, í þessu tilviki Jón Bjarnason, lýsir því yfir, að verja þurfi íslenzkt athafnalíf gegn erlendum fjárfestingum.  Hér glittir í þann með horn, hala og klaufir upp úr skurðkjaftinum, en þar mun vera komin afstaða Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs til erlendra fjárfestinga á Íslandi í hnotskurn.  Það er von, að hrikti í stjórnarskriflinu, þegar svona er í pottinn búið. 

Samfylkingin berst í orði kveðnu fyrir bættum stjórnarháttum á Íslandi og kveður bezta ráðið til bættra stjórnarhátta vera að ganga í ESB (Evrópusambandið).  Þó er vandséð, að þjóðin þurfi að taka slíkt örlagaskref til að Samfylkingarráðherrar sýni gott fordæmi í þessum efnum.  Ráðherrar Samfylkingarinnar eru þvert á móti með asklok fyrir himin og nota aðstöðu sína með óbilgjörnum hætti í þágu hlöðukálfa sinna.  Fagmennskan er í sumum tilvikum fólgin í því, að ráðherrann er viðstaddur ráðningarviðtöl ráðningarstofu og getur þannig með nærveru sinni framkallað niðurstöðu með slagsíðu. Í stuttu máli mundu stjórnarhættir Samfylkingarinnar hvergi sóma sér, nema í bananalýðveldi.  Hverjum dettur í hug, að þetta ástand mundi batna við inngöngu í ESB ?  Ráðherrarnir yrðu þá strengjabrúður Brüssel í öllum hagsmunamálum ríkjasambandsins, en fengju í staðinn að leika lausum hala með frændhygli sína og ofdekur við hlöðukálfa.  Á Íslandi yrði tilveran óbærileg öllu heiðvirðu og frjálshuga fólki fyrir vikið. 

Það sætir furðu, hversu mjög vinstri grænum hefur tekizt að beygja iðnaðarráðherra afturhaldsstjórnarinnar af leið.  Má segja, að hún sé komin í skeifu miðað við það, sem hún lagði upp með í ráðherradómi sínum.  Allir vita, að Samfylkingin er eins máls flokkur, þ.e. að troða sálu landsins í poka og fleygja honum inn um gullna hliðið í Berlaymont/Brüssel eru hennar ær og kýr.  Þess vegna hefur hún enga stefnu í orkumálum aðra en þá, sem rituð er í sáttmálabók ESB.  Þar stendur, að í raforkuvinnslu skuli ríkja frjáls samkeppni og að öll fyrirtæki innan ESB (og þá EES) skuli njóta jafnstöðu í samkeppninni, hvar sem er innan EES, og njóta sömu tækifæra til fjárfestinga.  Upphaflega virtist núverandi iðnaðarráðherra "vinna" samkvæmt þessari stefnu, en nú er skeifan staðreynd, þ.e. viðsnúningur. Þessi iðnaðarráðherra mun aldrei leggja grunn að neinum verkefnum, sem um munar fyrir athafnalíf landsins.  Hún slær bara úr og í.

Nú segjast formenn Samfylkingar og VG ætla "að vinda ofan af þessari stefnu" og eiga þá við fjárfestingar annarra en opinberra fyrirtækja í orkugeiranum.  Forpokun einangrunarsinnanna í VG tröllríður húsum ríkisstjórnarinnar, svo að allt leikur á reiðiskjálfi.  Fórnarlamb einokunar í orkuvinnslu verður almenningur nú sem endranær.  Þegar rjáfur ríkisstjórnarinnar, en hún er sem fjörulús á tjöruspæni í öllum málum, brotnar, verða framfaraöfl í þessu landi að sameinast um að smyrja athafnalífið í skyndingu með erlendu fé, ekki lánsfé, enda er það illfáanlegt, heldur fjárfestingarfé, og að koma eftirspurn eftir vörum og þjónustu í gang aftur með eftirfarandi hætti:

  • Semja við alþjóðlegu álfyrirtækin um nýjar fjárfestingar.  Hagur þessara fyrirtækja er nú að vænkast eftir bankahrun, efnahagslægð í kjölfarið og mikla skuldsetningu við fyrirtækjakaup.  Spár um álmarkað benda til skorts á áli á markaðinum á næstu 20 árum vegna aukinnar markaðshlutdeildar áls, t.d. í samgöngugeiranum, og þróunar málmfræðinga á nýjum álmelmum. 
  • Semja um sölu afnotaréttar af orkulindum eða einkaframkvæmd við virkjanir, eins og iðnaðarráðherra mælir með, til að sjá álverunum og öðrum fyrir orku.
  • Afnema alla skatta vinstri stjórnarinnar strax og gera áætlun um enn meiri tekjuskattslækkun, er miði að því að laða hingað atgervisfólk, sem flúði kreppu og afturhald, og að hámarka stærð skattstofnsins.
  • Ná jafnvægi í ríkisbúskapinum á þremur árum með auknum tekjum frá vaxandi hagkerfi og samkeppni til kostnaðarlækkunar við að veita þjónustu, sem hið opinbera kostar.  Dæmi um þetta er stærsti útgjaldaliðurinn, heilbrigðisgeirinn, þar sem snarlega verður að vinda ofan af groddalegum einokunartilburðum sameignarsinnans Álfheiðar Ingadóttur, sem valda mun viðkvæmum innviðum heilbrigðisgeirans og þjóðinni allri stórtjóni, ef svo fer fram sem horfir.  Leita má fyrirmynda um þetta innan EES.
  • Leggja verður strax fyrir róða fíflagang þann með undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar, sem nefndur er "fyrning aflaheimilda" útgerðarinnar, en virkar eins og ofurskattlagning á útgerðina, sem eyðir eiginfé hennar á svipstundu og er þess vegna ígildi þjóðnýtingar, eins og búið er að sýna fram á með óhrekjanlegum, hagfræðilegum rökum. "Fyrning aflaheimilda" er hugarfóstur kaffihúsakomma og annarra afæta á ríkisjötunni án snefils af skynsemi. 
  • Útgerðin hefur tekið á sig skerðingu aflaheimilda vegna minnkandi hrygningarstofna, t.d. þorsks.  Nú er komið að því að snúa við blaðinu með aukningu, sem eitthvað hægir á vexti stofnsins, en stöðvar hann þó ekki að mati Hafrannsóknarstofnunar.  Þetta er ekki áhætta, heldur yfirveguð efnahagsleg og stjórnmálaleg aðgerð til stuðnings viðreisn hagkerfisins.
  • Stefan Füle, stækkunarstjóri ESB, hefur lýst því yfir, að engar varanlegar undanþágur standi Íslendingum til boða.  Ekkert hald er í sérlausnum, þegar farið er með ágreining fyrir Evrópudómstólinn. Þetta sannar reynsla Finna og annarra, sem höfðu skrifað undir samning án skuldbindingar að hálfu samningamanna ESB, er reist væri á Rómarsáttmálanum eða seinni sáttmálum ESB.  Því miður gera þessi atriði ESB með öllu ófýsilegt fyrir Ísland til inngöngu.  Bezt er, að nýtt Alþingi horfist í augu við þetta strax og feli nýjum utanríkisráðherra að biðja forseta ráðherraráðs ESB afsökunar á frumhlaupi fyrirrennarans um leið og óskað er hlés á viðræðum vegna óvissu um Icesave-deiluna og óvissu um þróun ESB. Síðan fái þjóðin að tjá sig um það í næstu kosningum á eftir, hvort hefja eigi leikinn að nýju eða að afturkalla illa ígrundaða umsókn. 
  • Engum dylst, að köldu andar til Íslands frá ýmsum ríkisstjórnum Evrópu, jafnvel frá einstökum ráðherrum ríkisstjórnar Noregs, eins og fram hefur komið í Makrílsmálinu, en Evrópuþjóðirnar berjast um veiðihlutdeild í þessum stofni.  Svarið við þessu er að afla annarra bandamanna.  Kínverjar hafa sýnt okkur vinarþel, t.d. innan AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðsins) og ber að þakka það, svo og Japanir.  Það liggur hins vegar beint við að leita til vesturs, til Norður-Ameríku, þ.e. BNA og Kanada, til þjóða, sem aldrei hafa rekið í okkur hornin í líkingu við Evrópuþjóðir ýmsar. Þaðan hafa helztu fjárfestingarnar hérlendis síðustu 20 árin komið, og þar er fjöldi fólks af íslenzku bergi brotið. Í Eystrasaltslöndunum og í Mið-og Austur-Evrópu eru og efnilegir bandamenn.  Nauðhyggjan ein rekur okkur í fang kvalaranna. Móta þarf nýja og víðsýna utanríkisstefnu, er tekur mið af hagsmunum okkar í bráð og lengd, en setur ekki öll eggin í eina körfu, sem aðrir halda á en við sjálf. 
  • Lega landsins reynist enn tromp á hendi.  Í þetta sinn eiga í hlut miklar auðlindir í norðurhöfum, t.d. eru taldar þar á umráðasvæði Íslands um 10 milljarðar tunna af jarðolíu undir hafsbotni.  Norðmenn eru taldir eiga svipað magn á sömu slóðum.  Fylgjast þarf náið með atferli þeirra þar norður frá, en Norðmenn hafa aflað sér gríðarlegrar þekkingar á olíuvinnslu á hafi úti.  Við þurfum að vera tilbúin að gera samning við leitarfyrirtæki, þegar tæknin leyfir og markaðir fyrir olíu gera svo dýra vinnslu arðbæra.
  • Landbúnaður hefur verið í umræðunni undanfarið.  Hér er um að ræða kjarnagrein í íslenzku athafnalífi, og flest bú á Íslandi eru rekin af miklum dugnaði, útsjónarsemi og þekkingu.  Þau framleiða hágæða vöru, sem höfundur þessa pistils vill ekki fyrir nokkurn mun skipta á. Kornyrkja fer vaxandi, hana þarf að tífalda á 15 árum og spara þannig mikinn gjaldeyri.  Framleiðslu-og markaðskerfi landbúnaðarins er hins vegar niður njörvað í gildandi búvörulögum.  Framleiðslukvótinn er hér ekki settur á til að vernda auðlindina, heldur til að hindra offramleiðslu.  Hinn tæknivæddi og stórglæsilegi íslenzki landbúnaður þarf nú að hrista af sér þessar viðjar og sækja fram í heimi sívaxandi matarskorts, einnig á meðal þjóða, sem eru að komast í álnir, þökk sé miklum fjárfestingum alþjóðlegra fyrirtækja.  Aukin framleiðsla og frjálsari verðmyndun mun leiða til aukinnar framleiðni landbúnaðarins, sem þegar er gríðarleg, neytendum og bændum til hagsbóta.                             

Olíuverð á heimsmarkaði 2009-2010

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Mikið góð grein hjá þér Bjarni og ég er algjörlega sammála þér í þessu öllu saman. Vestur átt er það sem við eigum að líta til.

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 8.8.2010 kl. 10:06

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér kærlega fyrir umsögnina, Ingibjörg Guðrún.  Ætíð gott, þegar sáðkornið fellur í frjóan jarðveg.

Bjarni Jónsson, 8.8.2010 kl. 19:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband