13.8.2010 | 12:00
Fingurbrjótar ríkisstjórnar
Afleikir klúðraranna í Stjórnarráðinu eru legió. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefur lýst yfir stuðningi við vafagemlinginn, efnahags-og viðskiptaráðherra, Gylfa Magnússon, í kjölfar fingurbrjóts hans í umgengni við sannleikann.
Téður Gylfi þorði ekki, sumarið 2009, að upplýsa þing og þjóð um greinargerð yfirlögfræðings Seðlabankans, sem reist var á annarri frá lögfræðistofu í Reykjavík. Viðbára um trúnaðarskjal frá bankanum var orðhengilsháttur, því að trúnaðarskyldan lá á greinargerð lögfræðistofunnar. Yfirlýsing um þessa trúnaðarskyldu hefur enda verið borin til baka af Seðlabankanum og Efnahags-og viðskiptaráðuneytinu.
Hvers vegna blekkti ráðherrann Alþingi sumarið 2009 og áhorfendur Kastljóss RÚV 10. ágúst 2010 ? Skoðum fyrst, hvernig ráðherrann gerði þetta.
Spurning þingmannsins var skýr og einföld. Hún var um lögmæti myntkörfulána. Ráðherrann afvegaleiddi þingið með því að svara annarri spurningu. Hann sagði lögfæðiálit ráðuneytisins og stofnana hníga til þess, að lán í erlendri mynt væru lögleg. Með þessu lét hann líta þannig út, að tvö hugtök, myntkörfulán og gjaldeyrislán, þýddu hið sama og gaf þar með í skyn, að myntkörfulán væru lögleg að beztu manna yfirsýn.
Þessum leik hélt hann áfram í tilvitnuðum Kastljóssþætti. Dósentinn vissi allan tímann betur, en komst upp með blekkinguna í bæði skiptin, sem er miður. Eftir dóm Hæstaréttar um þetta efni 16. júní 2010 rann upp fyrir fólki lögfræðilegi mismunurinn á þessum tveimur hugtökum. Sekt ráðherrans er núna augljós. Seta slíks manns á ráðherrastóli er móðgun við þjóðina. Honum er ekki treystandi til að fara með forræði opinberra málefna. Forsætisráðherra lagði hins vegar blessun sína yfir setu hans, þegar málið komst í hámæli. Hvers vegna ?
Svarið er hið sama og við spurningunni um það, hvers vegna efnahags-og viðskiptaráðherra lagði út á sína blekkingabraut. Ef hann hefði svarað sannleikanum samkvæmt, á grundvelli beztu, fáanlegu upplýsinga, á Alþingi, þá hefði komið í ljós stórfelldur afleikur ríkisstjórnarinnar með fjármálaráðherra og efnahagsmálaráðherra, sem þá var Jóhanna, í broddi fylkingar, við stofnun nýju bankanna, því að þar var ein forsendan til grundvallar flutningi lánasafns til nýju bankanna sú, að myntkörfulánin væru lögleg og mundu skila sér að mestu leyti gengistryggð til baka.
Fjármálaráðherrann og þingmenn vinstri stjórnarinnar hafa hingað til vísað til þessa bankauppgjörs sem nánast einu rósarinnar í hnappagati ríkisstjórnarinnar. Nú er komið í ljós, að hún klúðraði þessu máli herfilega, eins og flestum öðrum málum, sem hún hefur komið nálægt. Er getuleysi, dómgreindarleysi og lánleysi þessarar dæmalausu langs-og þversumklofnu ríkisstjórnar með algerum endemum. Viðvaningshátturinn, þvergirðingurinn, þröngsýnin og leyndarhyggjan ríða ekki við einteyming í Stjórnarráðinu nú um stundir. Allt rekur þar á reiðanum.
Mál er að linni. Óhæfnin er ekki ein á báti, heldur er óheiðarleikinn með í för. Það sannar myntkörfuhneykslið, sem hér hefur verið reifað. Ekki tekur betra við, þegar litið er til þriðja hjólsins undir stjórnarskriflinu, utanríkisráðherrans. Hann varð að athlægi á blaðamannafundi í Brüssel nýlega með stækkunarstjóranum, Stefan Füle. Blaðamenn rak í rogastans við þá séríslenzku kenningu, að evran mundi hafa orðið Íslendingum hjálparhella í hinni alþjóðlegu bankakreppu, sem leiddi til bankahruns hér, af því að ríkið hafði ekki bolmagn til að bjarga bönkunum hér, eins og það gerði t.d. á evrusvæðinu, einnig á Bretlandi og í BNA. Þýzkir blaðamenn sperrtu eyrun, því að þeir voru vanari því að heyra evrunni kennt um vandræðin, t.d. á Írlandi og í Suður-Evrópu. Hinir einu, sem blómstra nú á evrusvæðinu, eru Þjóðverjar, með sitt sterka framleiðslukerfi og útflutningsknúna hagkerfi, sem nú er að springa út í fyrsta skipti eftir "die Wende" eða endursameiningu Þýzkalands.
Þá fimbulfambaði utanríkisráðherra Íslands um bjartsýni sína á, að Ísland fengi hagstæða samninga við ESB. Það mátti stækkunarstjórinn eiga, að hann leiðrétti þetta snarlega. Engar varanlegar undanþágur yrðu veittar. Þetta á ekki síður við um hvalveiðar, nýtingu á lögsögu Íslands, innflutning landbúnaðarafurða, herskyldu í væntanlegum Evrópuher en hvað annað, sem á fjörurnar kann að reka í aðlögunarviðræðunum. Þá er vitað, að sérsamningar án lagalegs stuðnings sáttmála ESB eru haldlausir, ef hagsmunaárekstrar verða, sem leiddir eru til lykta fyrir Evrópudómstólinum.
Taka má dæmi af sjávarútveginum. Blekið verður ekki þornað á samninginum við ESB, þegar spænskur togari fer inn í landhelgina. Varðskip mun taka hann og færa til hafnar við Ísland. Spánverjar kæra fyrir Evrópudómstólinum, sem dæmir samkvæmt sáttmálum og lögum ESB, að lögsaga ESB sé ein og óskiptanleg. Samningurinn við ESB haldlaus og Ísland breytist í verstöð Evrópu.
Það, sem í boði er í Brüssel, er ESB með sáttmálum þess, lögum og tilskipunum. Annað er blekking og/eða blindni, og er hvort tveggja ófyrirgefanlegt.
Af þessum sökum, sem hér hafa verið tíundaðar, og er þá margt óupptalið af ávirðingum ríkisstjórnarinnar, er hún ekki á vetur setjandi, heldur ber að setja hana af hið fyrsta og kjósa til Alþingis. Nú er búizt við nýrri holskeflu hagkerfissamdráttar erlendis, og þá er nauðsynlegt, að við stjórnvöl þjóðarskútunnar íslenzku séu hvorki heybrækur né hugstola fólk.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:50 | Facebook
Athugasemdir
Hér er vart einu orði hallað! Listagóð skrif, sem bera sannindi í hverri línu.
Dingli, 13.8.2010 kl. 21:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.