22.8.2010 | 13:13
Skæruliðinn
Enn hefur þvergirðingslegur umhverfisráðherra lagt sig þversum á veg framfara. Hún virðist að þessu sinni hafa óttazt, að Norðlingaölduveita yrði, samkvæmt Rammaáætlun, dæmdur fýsilegur orkunýtingarkostur vegna tiltölulega lítilla umhverfisáhrifa af 5 km2 lóni sunnan marka friðlandsins, sem Héraðsdómur dæmdi árið 2006, að gilda skyldu, og vegna afar ódýrrar viðbótar orku. Að líða þessa hagkvæmu nýju orkuvinnslu hefði verið algert stílbrot sannkallaðs afturhalds.
Hér er um afar hagkvæman og umhverfisvænan virkjunarkost að ræða, því að fjárfesting er lítil, en nokkur rekstrarkostnaður mun af hljótast vegna nauðsynlegrar tímabundinnar dælingar á vatni upp í Þórisvatn. Þar með eykst vinnslugeta Vatnsfells, Sigöldu, Hrauneyja og Búðarháls, þegar sú virkjun kemst í notkun, en þungt mun vera fyrir fæti um fjármögnun hennar, þó að engin áhætta fylgi fjármögnun virkjunarinnar, þar sem langtíma orkusölusamningur er þegar fyrir hendi, sem greiða mun virkjunina upp á skömmum tíma m.v. endingartíma hennar.
"Röksemdir" ráðherrans eru honum einum líkar, fáránlega firrtar og fullkomlega óboðlegar fullorðnu fólki, að ekki sé nú minnzt á þá í þessum hópi, sem misst hafa vinnu sína vegna athafnaleysis, skattahækkana og sérvizku vinstri stjórnarinnar, sem lengt hefur stórlega í kreppunni með kolrangri efnahagsstefnu.
Forystumenn vinstri-grænna framfylgja af algeru purkunarleysi í skjóli Samfylkingar stefnu sinni um andstöðu við öll tekjuaukandi verkefni fyrir samfélagið, svo að ekki sé nú minnzt á nýja gjaldeyrissköpun.
Viðbáran er jafnan sú endileysa, að núverandi kynslóð hafi ekki til þess siðferðilegan rétt að ákveða nýtingu orkulinda. Ráðherra umhverfismála ætti "að anda með nefinu" og kynna sér rannsóknarskýrslu, sem samin var af kennara við Verkfræðideild Háskóla Íslands fyrir fáeinum árum um afturkræfni virkjana á Íslandi með alþjóðlegri viðmiðun. Niðurstaðan var sú, að þær eru allar afturkræfar, og Norðlingaölduvirkjun felur í sér svo takmörkuð umhverfisáhrif, að víst má telja, að hún verði engin undantekning í þessum efnum. Hvers vegna fer ráðherra offari ?
Til þess liggja stjórnmálalegar ástæður. Vinstri hreyfingin grænt framboð er í tætlum eftir hálfs annars árs sambúð við eins máls flokkinn, sem miðar allt við að troða Íslandi inn í Evrópusambandið (ESB), jafnvel á fölskum forsendum kynningarviðræðna, sem eru í raun aðlögun að ESB. Það er reyndar óskiljanlegt, hversu hart Samfylkingin berst fyrir því að kasta Íslandi í fang auðvalds Evrópu, þó að ýmsir merðir þeirrar fyrr nefndu megi vart heyra minnzt á erlendar fjárfestingar á Íslandi.
Ljóst má vera, að téð rökleysa ráðherrans, um vísun til næstu kynslóða, felur í sér algera stöðnun þjóðfélagsins, því að engin rök standa til þess, að næsta kynslóð hafi til þess meiri siðferðilegan rétt en núverandi, eða þarnæsta, að hefja framkvæmdir við eitt eða neitt. Miklu fremur ber núverandi kynslóð til þess siðferðisleg skylda að búa í haginn fyrir næstu kynslóð, eins og kynslóðirnar á undan okkur gerðu. Til að standa straum af öllum þeim erlendu lánum, sem ríkisstjórn vinstri flokkanna hefur tekið, m.a. fyrir tilstuðlan Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS, dugar ekki, að landsframleiðslan hjakki í sama farinu, eins og fyrirsjáanlegt er með afturhald í Stjórnarráðinu, heldur verður að auka landsframleiðsluna um 5 % á ári að jafnaði á þessum áratugi.
Ef hins vegar á að fylgja fram téðu grundvallarmáli vinstri-grænna um rétt kynslóðanna, mun íslenzka þjóðfélagið breytast á örskotsstundu úr nútímalegu velferðarþjóðfélagi með öflugar gjaldeyrislindir í fátæktarbæli hafta og ofríkis stjórnmálamanna. Hver kærir sig um slíkt ? Þetta eru valkostir kjósenda nú. Skýrari geta þeir vart verið. Það verður aðalarfleifð vinstri stjórnarinnar að skerpa skilin á milli framfaraafla og afturhalds.
Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma átti að leggja fram á vorþinginu 2010 samkvæmt áætlun, en það var ekki gert. Hvers vegna ? Deilurnar í ríkisstjórninni lama hana algerlega, svo að landið er í raun stjórnlaust. Fyrir tilverknað stjórnvalda er eignarhald HS orku í uppnámi. Skipulag sveitarfélagsins Ölfuss, þar sem Hverahlíðarvirkjun kemur við sögu, situr fast í Umhverfisráðuneytinu. Svipaðri valdbeitingu óvandaðs, öfgafulls og ólýðræðislegs stjórnvalds hafa sveitarfélögin við Neðri-Þjórsá mátt sæta, og þar með er virkjun hennar sett í herkví, 3 hagstæðar virkjanir með lágmarks lónum og línum.
Öllum brögðum er beitt til að tefja frekari rannsóknir og þróun Kröflusvæðis, Gjástykkis og Þeistareykja. Með ríkisstjórnaraðild sinni hafa vinstri-grænir í skjóli Samfylkingar sett þumalskrúfu á þjóðfélagið, hindrað hagvaxtarhvetjandi framfarir, komið helzta hugðarefni sínu, skattahækkunum, til framkvæmda, og komið fyrirtækjum á vonarvöl með því að viðhalda langvarandi efnahagskreppu í landinu. Afleiðingin verður vaxandi atvinnuleysi, landflótti og minnkandi skattstofnar.
Allt þetta kemur illilega niður á hag almennings í landinu. Skjaldborgin fyrir kosningarnar síðustu varð gjaldborg heimilanna eftir þær. Vinstri flokkarnir hafa svikið öll sín fögru fyrirheit. Þeir hafa reynzt gjörspilltir, þegar til átti að taka, og getulausir til róttækrar uppstokkunar, sem leitt gæti til heilbrigðara þjóðfélags. Vinstri vítin eru til að varast þau.
Samfylkingin gerir fátt annað en að smjaðra fyrir Evrópusambandinu, ESB, með öllum þeim tilkostnaði, sem af því leiðir fyrir íslenzka ríkið. Verður að átelja hana fyrir offors, sem vart getur flokkazt til lýðræðislegra vinnubragða, þar sem minnihluti á Alþingi er nú fylgjandi áframhaldandi aðlögun og þjóðinni er enn neitað um að tjá sig beint í atkvæðagreiðslu um hið örlagaríka mál. Tal utanríkisráðherra um stórfelldan sparnað af evruupptöku fær ekki lengur staðizt í ljósi reynslunnar frá Suður-Evrópu og Írlandi, sem búa við miklu hærri vexti en Þýzkaland og eiga í vandræðum með of dýran útflutning sinn. Þjóðverjar hertu sultarólina í meiri mæli en aðrir og njóta nú ávaxtanna með spáný framleiðslutæki í austurhlutanum og gríðarlega mikla samkeppnihæfni á útflutningsmörkuðum og lága vexti.
Hver er sinnar gæfu smiður, og Evrópubankinn mun ekki leysa efnahagsvanda Íslendinga. Það mun enginn gera fyrir þá. Þeir verða að leysa vanda sinn sjálfir með því að leggja hart að sér. Að ímynda sér annað er flótti frá veruleikanum. Það, sem máli skiptir fyrir hagkerfið, er heilbrigð hagstjórn, framfarahvetjandi og ábyrgt ríkisvald, sem ver tekjum sínum, af hóflegri skattheimtu, til skuldalækkunar, þróunar á innviðum samfélagsins og inneigna (gjaldeyrisvarasjóðs) hjá Seðlabanka, og full nýting alls tiltæks vinnuafls og framleiðslutækja.
Frelsisbaráttu frjálshuga og framfarasinnaðs fólks er þörf gegn spilltum og þröngsýnum valdhöfum ("nómenklatúru"), sem engan áhuga hafa á kjörum almennings í landinu, en telja öllu skipta fyrir stjórnmálalega hagsmuni sína, að einangra Ísland frá innstreymi alþjóðlegs fjárfestingarfjármagns, sem forsjárhyggju stjórnmálamenn munu aldrei geta ráðskast með.
Þessi stefna krystallast í "Saving Iceland" samtökunum, og fylgismenn hennar, hvort sem eru stjórnleysingjar í Bezta flokkinum eða ríkisforsjárhyggjufólk í VG, eru þess vegna rétt nefndir skæruliðar gegn íslenzka lýðveldinu. Uppreisnar borgaralegra afla er þörf.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:18 | Facebook
Athugasemdir
Gott mál hjá þér Bjarni og það er rétt að það mun eingin bjarga okkur né skapa okkur lífsbrauð nema við sjálf.
Stelpuflónið hans Svavars þarf að rassskella af og til því Svavar hefur ljóslega svikist undan merkum við uppeldið.
Varðandi Össur og það flóna lið allt saman þá lýsi ég hér með eftir vopnum til handa landvarnarliði. Því ef svo á að ganga sem sýnist þá verður hér borgarastyrjöld
Hrólfur Þ Hraundal, 22.8.2010 kl. 21:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.