Asni klyfjaður gulli

Evrópusambandið (ESB) hefur nú verið þanið yfir alla Evrópu allt austur að Hvíta-Rússlandi og Úkraínu. Enginn veit, hvernig ESB mun þróast, enda er það í skipulagslegum og fjárhagslegum ólgusjó sundurlyndis, en hitt er þó vitað, að róið er að því öllum árum í Þýzkalandi og í Frakklandi að þróa það, a.m.k. evrusvæðið, í átt að sambandsríki með ein fjárlög að baki evrunni.  Sambandi ríkjanna yrði þá háttað með svipuðum hætti og tíðkast innan Sambandsríkisins Þýzkalands. Í Sambandsríkinu tíðkast ekki neitunarvald. Þetta sjónarmið er skiljanlegt að hálfu meginlandsríkja, en hagsmunir smáríkis með ráð yfir gríðarlegu hafsvæði í Norður-Evrópu fara ekki saman við hagsmuni meginlandsins.

Nú hefur þetta verðandi stórríki litið til norðurs.  Þar eru feikna hafflæmi og mikil auðævi í hafi og undir hafsbotni, og menn vænta vaxandi siglinga, þar sem nú er heimskautsís. Síðasta sókn ESB til norðurs stöðvaðist árið 1994, þegar norska þjóðin felldi aðildarskilmála, sem Stórþingið þó var hliðhollt. Í kjölfarið (1995) var aðlögunarferli innleitt fyrir umsækjendur, og felast samningaviðræður síðan í að aðlaga stjórnkerfi umsóknarríkis að ESB-kerfinu.

Eftir hrun fjármálakerfisins, þar sem íslenzkir ævintýramenn léku ótrúleg hlutverk, lítur ríkjasamband í vanda til norðvesturs og ætlar sér að gleypa smáríki í einum munnbita og gera olíuríkinu Noregi tilveruna þungbæra utan við. Forkólfar ESB vita sem er, að lítið er um varnir á Íslandi um þessar mundir og hagsmunagæzla fyrir hönd landsmanna öll í skötulíki. Ríkisstjórn landsins er siðlítil og þröngsýn, og ekki reiðir hún vitið í þverpokum.   

Samfylkingin þvingaði með offorsi fram heimild Alþingis til umsóknar um aðild að ESB 16.07.2009.  Þessa heimild notuðu forsætisráðherrann og utanríkisráðherrann síðan til að semja eitthvert ómerkilegasta plagg, sem sézt hefur í Íslandssögunni.  Það var svo einfeldningslegt, snubbótt og skilyrðalaust, að hefði ráðherraráðið einfaldlega svarað með jái á þeim grundvelli, að Ísland væri þegar í EES, þá hefðu Íslendingar orðið aðilar strax.  Svona fortakslaus fleðulæti sýndu forkólfar Samfylkingar væntanlegu stórveldi í júlí 2009. Verður það talið á meðal verstu glappaskota lýðveldisins. 

Fyrir löngu er komið í ljós, að þessi gösslaragangur mun valda okkur stórtjóni.  Ríkisstjórnin er klofin í málinu, og minnihluti á þjóðþinginu styður nú umsóknarferli, sem hefur tekið allt aðra stefnu en lagt var upp með 16. júlí 2009.  Þjóðin kærir sig ekki um að verða útnári stórríkis Evrópu, svipt forræði yfir eigin lögsögu og áhrifalaus við ákvarðanir um eigin hagsmuni eða stefnumótun stórríkis um hermál og hvaðeina.  Sviksemi og blekkingaleikur einkenna þetta umsóknarferli, sem lagt var upp með sem könnun á, hvað byðist. Verður þetta talin ein versta lágkúra Íslandssögunnar.

Furstar ESB láta ekki að sér hæða, heldur ætla þeir að brjóta andstöðu þjóðarinnar á bak aftur með því að bera fé á landsmenn.  Stofna á skrifstofu að hálfu ríkisins til að taka við fénu og dreifa því til upplýsingaherferðar og aðlögunar hins opinbera að reglum og hefðum skrifræðisbáknsins í Brüssel og annars staðar á snærum ESB. 

Það er ljóst, að ríkisstjórn, sem samþykkir þvílíkt löngu áður en samningaviðræðurnar eru leiddar til lykta, hefur glatað sómatilfinningu sinni.  Ríkisstjórnin í Reykjavík, ringluð, vingulsleg og sem í vímu, virðist vera herfilega misnotuð af biskupinum, stækkunarstjóranum í Brüssel.  Nú á við að taka sér í munn orð Oddaverjans, Jóns Loftssonar, um gagnrýni Niðaróssbiskups á líferni höfðingja 12. aldar Íslands: "Heyra má ek erkibiskups boðskap, en ráðinn em ek í að hafa hann að engu." 

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, dagsettu 27.08.2010, er utanríkisráðherranum, Össuri Skarphéðinssyni, líkt við prest, sem heldur minningarræðu yfir ættingjum og vinum hins framliðna án þess að hafa hirt um að kynna sér æviferil viðkomandi.  Þessi samlíking varpar ágætu ljósi á þekkingarleysi og óraunsæi skötuhjúanna Jóhönnu, sem er ólæs á regluverk ESB, og Össurar, sem talar sem trúmaður með glýju í augum, blindaður af trú sinni. 

Við ofangreinda líkingu höfundar Reykjavíkurbréfs má bæta við sögu, sannri.  Ættingjar hlýddu á minningarræðu prests nokkurs um framliðna frænku sína.  Þar kom ræðunni, að viðstaddir litu hver á annan í undrun yfir því, sem þeir heyrðu.  Að ræðunni lokinni stungu þeir saman nefjum um innihaldið, en enginn kannaðist við að hafa gaukað fram komnum upplýsingum að presti.  Afréðu þau loks að spyrja prestinn, hver hefði verið heimildarmaður hans um tiltekið efni.  "Elskurnar mínar, ég þurfti engan slíkan heimildarmann.  Ég var í beinu sambandi við þá framliðnu." 

Össur Skarphéðinsson er í hlutverki þessa prests gagnvart þjóðinni, þegar hann lýsir fyrir henni ESB og aðildarviðræðunum. Hann heldur því fram, að unnt sé að sveigja ESB til að hleypa Íslendingum inn með alls kyns undanþágur frá sáttmálum og lögum ESB. 

Við skulum gefa okkur, að ESB sé svo mikið í mun að ná Íslandi inn, að þeir samþykki t.d. óskertan yfirráðarétt Íslendinga yfir fiskveiðilögsögunni.  Þá mun sannast, að allt orkar tvímælis, þá gert er.  Ágreiningur, sem einhver fiskveiðiþjóðin mun gera við Íslendinga vegna veiða innan íslenzku lögsögunnar, verður lagður fyrir Evrópudómstólinn.  Fordæmi sýna, að hann ógildir hiklaust samninga, ef þeir stríða gegn grundvallarreglum ESB.  Þannig er ljóst, að áhættan við inngöngu er allt of mikil til að taka hana.  

Sumir tala um, að þeir vilji taka "upplýsta ákvörðun" um það, hvort Ísland gangi í ESB eða haldi áfram fullveldi sínu með kostum þess og göllum.  Til að unnt verði að taka þess konar ákvörðun, verði að ljúka vegferð þeirri, sem téð skötuhjú hófu í júlí árið 2009.  Þetta fólk gengur að því sem vísu, að allar nauðsynlegar upplýsingar verði þá fyrir hendi til að taka rétta ákvörðun.  Í raunveruleikanum er þetta aldrei svo.  Einhver áhætta fylgir öllum ákvörðunum, og var tilgreint dæmi um eina slíka hér að ofan, þar sem eru úrskurðir Evrópudómstólsins.

Þessu aðildarmáli fylgir gífurleg áhætta, því að afleiðingar aðildar fyrir hag landsmanna geta orðið hrapallegar.  Það er rétt, að við eigum ríkra hagsmuna að gæta í Evrópu.  Hins vegar hefur sambandið við Evrópu verið ærið stormasamt.  Hefur t.d. verið deilt um þorsk, skuldbindingar íslenzka ríkisins vegna fallins einkabanka og nú síðast makríl.  Síðast nefnda deiluefnið er afar lærdómsríkt.  Breytingar í hafinu hafa leitt til mikilla makrílgangna inn í íslenzku lögsöguna.  Sem fullvalda þjóð getum við nýtt þessa nýju tegund að vild innan lögsögunnar.  Jafnljóst er, að ESB vill meina okkur það og mundi vafalaust neyta aflsmunar, ef Ísland væri innan "Festung Europa".  

Það má nærri geta, að við hrossakaup innan ESB yrðu hagsmunir smáþjóðar úti í reginhafi að láta í minni pokann gagnvart ofurefli fjölmennis í auðlindanauð.  Hin rökrétta ályktun er sú, að umsóknin sé leikur að eldi, hún hafi í för með sér sóun mikilla fjármuna og tímasóun í stjórnkerfi ríkisins. Síðast en ekki sízt rýrir umsóknin trúverðugleika landsmanna erlendis, þar sem hugur fylgdi í raun aldrei máli, og viðsemjendum okkar mun finnast þeir hafi verið dregnir á asnaeyrunum, því að um aðild að ESB sækja einvörðungu þeir, sem tilbúnir eru til að taka upp lög og reglur sambandsins í heild sinni á ákveðnu árabili.  Aukaaðild er ekki til.   

thid_erud_einangradir_ofgamenn586px         


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er magnað hvað laumuaðildarsinnarnir í sjálfstæðis-, framsóknaflokki og vinstri grænum þurfa mikla upplýsingu til að taka sínar ákvarðanir. Mér segir svo hugur að sama hversu vel þeir verða upplýstir, þá munu þeir annað hvort ekki skilja eða vilja ekki skilja. Samfylkingarfólk veit hvað það vill; inngöngu í ESB hvað sem það kostar!

Þær upplýsingar sem nú liggja fyrir og hafa reyndar legið fyrir frá 1995 ættu að duga flestu fólki með meðalgreind til að taka ákvörðun með eða á móti.

Gunnar Heiðarsson, 29.8.2010 kl. 10:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband