Ný stefna á gömlum mergi

Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn boðíð þjóðinni skýran valkost við eymd þá og volæði, sem hringl, ráðleysi og beinn fjandskapur ríkisstjórnarinnar við atvinnulífið hefur og mun í æ ríkari mæli leiða yfir þjóðina.

Í fáum orðum sagt snýst þessi stefna um, að ríkisvaldið vendi nú sínu kvæði í kross og leiti allra leiða til að laða að landinu fjárfesta, sem stofna vilja til framkvæmda og atvinnurekstrar í landinu.  Með útrýmingu langtímaatvinnuleysis, lækkun allra skatta, lengingu lána og skattlagningu inngreiðslna í lífeyrissjóði, mun hagur heimila, fyrirtækja og hins opinbera vænkast. 

Þessu til viðbótar þarf að greina afleiðingar þess að aflétta öllum höftum á fjármálalífið á einu bretti, þar með að afnema allar vísitölutengingar með ákveðnum skilgreindum fyrirvara.  Ákvörðun af þessu tagi tók hin þýzka ríkisstjórn Dr Konrads Adenauers að ráði efnahagsráðherrans, Dr Ludwigs Erhards, um 10 árum eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar.  Flestir efnahagsspekingar þess tíma, m.a. í röðum hernámsveldanna, voru á móti þessu og töldu gjörninginn mundu leiða til hruns efnahagskerfis nýstofnaðs Sambandslýðveldis, en það var öðru nær.  Á svipstundu hvarf svartamarkaðsbrask, viðskipti og athafnalíf döfnuðu. 

Hin lamandi hönd ofsköttunar og ríkisforsjár hefur tafið viðreisnina og valdið heimilum og fyrirtækjm ómældu tjóni.  Nú þarf að leysa einstaklingsfamtakið úr læðingi.  Stjórnvöld geta það, en þau geta ekki reist landið við með ríkisrekstri. 

Vegur til ánauðarHér til vinstri er mynd af veginum til ánauðar.  Hann er varðaður grímulausum svikum við þing og þjóð.  Nægir í því efni að nefna umsóknina um aðild að Evrópusambandinu, ESB, og ríkisstjórnarsáttmálann, en þar segir, að ríkisstjórnin ætli "að stuðla að beinum erlendum fjárfestingum" til að hægt verði að ná góðum og jöfnum hagvexti, sem sé forsenda þess að afnema gjaldeyrishöft og lækka vexti, verja störf og fjölga þeim á ný, ná markmiðum ríkisstjórnarinnar um jafnvægi í ríkisfjármálum og verja velferðarkerfið.

Um þetta var ríkisstjórnin mynduð, en hún hefur svikið hvert einasta atriði, sem þarna er talið upp.  Hún hefur leynt og ljóst unnið gegn erlendum fjárfestingum, valdið samdrætti í stað hagvaxtar, hækkað raunvexti, þó að nafnvextir hafi lækkað, eytt störfum og hindrað nýja atvinnustarfsemi, aukið skuldasöfnun ríkissjóðs erlendis og ráðizt að grundvelli velferðarkerfisins.

Með vinstri stjórn við völd er ríkisfyrirtækið Landsvirkjun að gæla við þá fáránlegu viðskiptahugmynd að leggja eða leigja afnot af sæstreng til að flytja raforku um til og frá Íslandi, aðallega frá.  Beitt er þeirri rökleysu, þegar talað er fyrir þessu, að sæstrengur til útlanda gefi færi á bættri nýtingu raforkukerfisins.  Þeir, sem þessu halda fram, afneita staðreyndum málsins og lifa í heimi Lísu í Undralandi.  Sæstrengur krefst bindingar á óhemju miklu fjármagni, og eina ráðið til að hann geti skilað arði er að hann sé rekinn á fullum afköstum allan sólarhringinn, flesta daga ársins.  Afgangsaflið, sem í þetta þarf, er ekki til og verður aldrei til; hvað þá afgangsorkan.  Hins vegar er stórhætta á því, að hið sama mundi gerast hér og í Noregi, að orkufyrirtækin mundu hillast til að tæma lónin, þannig að orkuskortur yrði í landinu, og engin önnur ráð til en að flytja inn rándýra orku frá útlöndum á margföldu verði á við það, sem íslenzkir raforkunotendur, þ.á.m. heimilin, eiga að venjast.   

Orkuvinnsla í EvrópuSæstrengur fyrir slíka vegalengd og dýpi, sem hér um ræðir, hefur aldrei verið hannaður.  Af slíkum er þess vegna alls engin reynsla.  Hann yrði þess vegna tilraunaverkefni með þeirri rekstraráhættu, sem slíku fylgir.  Það verður þess vegna að búast við bilunum og talsverðu viðhaldi.  Með bjartsýni mætti að óreyndu búast við 300 rekstrardögum að jafnaði á ári, sem hleypir flutningskostnaðinum verulega upp. Í stað gæluverkefna af þessu tagi er ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun nær að fást við undirbúning raunhæfari verkefna en þessara sæstrengsdrauma. 

 

     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Mikið sammál þessu Bjarni/Kveðja

Haraldur Haraldsson, 7.11.2010 kl. 23:29

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér góðar undirtektir, Haraldur.

Það er engum blöðum um það að fletta, að núverandi þingmeirihluti og ríkisstjórn hafa kostað þjóðina mikla blóðtöku, og gullin tækifæri til hagvaxtar í stað samdráttar hafa farið forgörðum.  Á 20 mánaða valdatíma flónanna í VG og Samfylkingu hefði verið unnt að landa fjárfestingum erlendis frá fyrir 200 milljarða króna, sem mundu hafa bætt stöðu hvers heimilis að jafnaði um 50 þús kr á mánuði.

Það er sorglegt, að Landsvirkjun skuli nú gæla við spákaupmennsku á erlendum markaði með íslenzkar orkulindir.  Megi slíkt aldrei henda.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 8.11.2010 kl. 21:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband