27.11.2010 | 19:03
Gauf og fum
Illa er högum komið einnar þjóðar, þegar stjórnarháttum forystu ríkisins verður helzt lýst sem gaufi og fumi. Einmitt þannig háttar þó til um hina voluðu vinstri stjórn, sem nú grefur sína eigin gröf. Er þá vonlegt, að hún efni til stjórnlagaþings til að færa athyglina af sér og sínum 150 nefndum (1,6 nefnd á viku að meðaltali), en nefndaskipanir í stað stefnumörkunar, skattahækkanir og daður við fullveldisframsal eru kennimörk ríkisstjórnarinnar. Leiðir þar blindur haltan.
Trúmenn á vinstri væng stjórnmálanna kynnu að spyrja, hvort seinlætið gæti verið birtingarmynd vandvirkni. Það er nú öðru nær. Önnur eins hrákasmíði við lagasetningu og stjórnvaldsákvarðanir og fum við framkvæmdina hefur aldrei sézt áður hjá nokkurri ríkisstjórn hérlendis. Hefur ríkisstjórnin verið gerð afturreka með hvern gjörninginn á fætur öðrum, fyrir dómstólum og eftirlitsstofnunum, og eru dæmin um hroðvirknina legíó. Ríkisstjórnin nær ekki máli.
Nýjasta dæmið er héraðsdómur, sem sýndi fram á, að ársgömul lagasetning um ábyrgðarmenn lántakenda var gjörsamlega haldlaus, enda stríddi hún gegn Stjórnarskrá.
Hvernig halda menn, að farið hefði fyrir Íslandi haustið 2008, þegar hrun varð á alþjóðlegum fjármálamörkuðum við gjaldþrot Lehman Brothers, hefði vinstri stjórn þá verið við völd ? Því er fljótsvarað. Landið væri gjaldþrota nú.
Eitt þessu til sannindamerkis er gauf og fum núverandi stjórnvalda við allt, sem máli skiptir. Hitt er, að langlíklegast er, að vinstri stjórn í Hruni hefði farið sömu leið og sú írska, þ.e. að láta ríkið ábyrgjast allar skuldbindingar bankanna. Þá væru skuldir ríkisins nú 8000 milljörðum meiri en raunin er, sem útilokað væri fyrir þjóðina að rísa undir. "Icesave-samningur" Svavars Gestssonar og Steingríms Jóhanns sýndi, að vinstri forystan, "nómenklatúran", svífst einskis í viðleitni sinni við að bregða á Íslendinga fátæktarhlekkjum alræðis öreiganna.
Afstaða vinstri stjórnarinnar til krafna erlendra kröfuhafa og samningar hennar um "Icesave" sýna fram á hug hennar til ríkisábyrgða á skuldbindingum einkabanka. Ríkisstjórn félagshyggjunnar hefði í Hruni umsvifalaust flaðrað upp um framkvæmdastjórn ESB og fórnað Íslandi á altari Evrópuhugsjónar kratanna. Við værum nú jafnvel öreigar með beiningastaf í Brüssel undir "verndarvæng" hrægammanna, sem Írar eru að fá smjörþefinn af nú.
Málflutningur beturvitanna í hópi hagfræðinga hérlendra, ýmissa, og háskólaprófessora úr mörgum hornum, fyrir og eftir Hrun, sýnir ennfremur, að þeir hefðu kynt undir feigðarflaninu, kinnroðalaust, þó að leið þeirra leiddi augljóslega til glötunar sjálfstæðis.
Moldvörpur höfðu þá ekki erindi sem erfiði, en skriðu fram úr fylgsnum sínum í búsáhaldabyltingunni. Íslendingar mega þakka sínum sæla fyrir að hafa haustið 2008 búið við stjórnvöld, sem gátu tekið fjöldann allan af erfiðum ákvörðunum á skömmum tíma undir miklum þrýstingi; ákvarðanir, sem nú í írsku ljósi virðast, á heildina litið, hafa verið þær beztu á peningamálasviðnu fyrir hagsmuni íslenzku þjóðarinnar, sem völ var á. Þar stóðu í stafni forsætisráðherra og formaður seðlabankastjórnar. Þó að núverandi ríkisstjórn taki sér óendanlegan tíma, getur hún samt enga óvitlausa ákvörðun tekið.
Stjórnendur landsins á Hrunstímanum sættu eftir á óvæginni og ósvífinni gagnrýni, lygamyllur niðurrifsaflanna möluðu stanzlaust, og með makalausri skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis var höfuðið bitið af skömminni. Nefndin hengdi sig í tittlingaskít, formsatriði um fundargerðir á ögurstundu, en horfði fram hjá því, að þjóðarafrek voru unnin við afar erfiðar aðstæður, nánast stríðsástand. Þetta lýkst upp fyrir mönnum nú á dögum írska hrunsins, sem er miklu svakalegra en hið íslenzka, þó að stærð íslenzku bankanna hafi líklega verið meiri í hlutfalli við landsframleiðslu móðurlandsins. Fyrir vikið sóttu félagshyggjuöflin hérlendis, blinduð af hatri lítilmenna "með skítlegt eðli", að fyrrverandi forsætisráðherra og eru nú búin að breyta þeirri lögsókn í réttarfarslegan óskapnað. Grundvallarreglur nútíma réttarríkis eru fótum troðnar af einræðisöflum, sem hunza þrígreiningu ríkisvaldsins og eru landinu til mikillar minnkunar. Sómi landsins liggur við að hætta þessum skrípaleik stjórnmálalegra ofsókna á formi réttarhalda.
Auðvitað verður þessi mynd skýrari, þegar frammistaða Hrunsstjórnar og þáverandi Seðlabankastjórnar er borin saman við núverandi hörmung í Stjórnarráði Lísu í Undralandi og í Svörtuloftum skömmtunarstjórans skrýtna, þar sem axarsköpt, fáránleiki og doði ráða nú húsum. Það er ýmislegt fleira en þessi samanburður stjórnvalda, sem bendir til, að dómur sögunnar verði Hrunsstjórninni hagfelldur, þegar öllu er á botninn hvolft, og auðvitað allt annar og betri en dómurinn yfir ríkisstjórnum Lísu í Undralandi. Þær eru hver annarri lakari og munu verða taldar hinar verstu frá upphafi Heimastjórnar. Hvernig á annað að vera ?
Þekktur hagfræðingur, Paul Krugman, hefur lýst því yfir, að íslenzka leiðin, úrlausn á neyðarástandi á kostnað erlendra lánadrottna, innlendum sparifjáreigendum í vil, hafi verið lögleg og hagfræðilega mun affarasælli en sú írska haustið 2008 gagnvart almenningi í þessum löndum, svo að hann er þar á sama báti og núverandi stjórnarandstæðingar á Íslandi. Grunnur var þarna lagður að skjótri viðreisn hagkerfisins, en hin "norræna velferðarstjórn" klúðraði því gullna tækifæri.
Með verstu ríkisstjórn sögunnar hérlendis nú í tæp 2 ár hafa ofangreindar staðreyndir Hrunsins legið í láginni þar til Írland féll. Aðdáendur ESB og evru ættu nú að beina sjónum að örlögum Portúgals, sem verður næsta fórnardýr evrunnar. Það gengur hratt á neyðarsjóðinn, sem þýzkir skattborgarar voru látnir fjármagna að mestum hluta, og Evrópa logar nú frá Atlantshafi til Eyjahafs vegna evrunnar. Pýreneaskaginn verður sviðin jörð og hagkerfi Ítalíu er helsjúkt. Meira að segja heimaland Brüssel, Belgía, hefur sýkzt. Evran, sem var gjald Þjóðverja fyrir endursameiningu lands síns, er ekki á vetur setjandi, og Deutsche Mark, dálæti þýzku þjóðarinnar, mun koma til skjalanna. Stjórnmálahamur (evrugalli) Össurar, garmsins, og hans sálufélaga, mun fuðra upp í þeim hildarleik. Að Ragnarökum loknum verður spurt um framleiðslugetu og útflutningsverðmæti hagkerfis að baki myntar, en ekki froðu á borð við stærð fjármálakerfis eða fullnustu uppátækja eins og Maastrichtssamnings.
Það er ekki nokkrum vafa undirorpið, að með borgaralega ríkisstjórn við völd undanfarin 2 ár mundum við nú búa við myndarlegan hagvöxt, þ.e. vaxandi landsframleiðslu, en ekki stöðugt minnkandi, eins og nýjustu gögn Hagstofunnar sýna. Atvinnuleysi færi minnkandi og fólk væri á leið heim á ný (heim in das Reich, eins og sagt var) að taka þátt í uppbyggingu útflutningsdrifins framleiðslusamfélags, þar sem kraftur auðvaldsskipulagsins er virkjaður öllu vinnandi fólki til hagsbóta og tekjur hins opinbera fara vaxandi þrátt fyrir lækkandi skattheimtu. Þetta verður að gerast til að losna undan þrúgandi klafa erlendra skulda ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja.
Til að svo verði þarf ekkert bóluhagkerfi, eins og bankarnir skópu hér og víðar í byrjun 21. aldarinnar, og óorði komu á alþjóðlegt markaðshagkerfi.
Stjórnmálaflokkarnir tveir, sem nú ráða ríkisstjórn, eru fullkomlega ófærir um að leiða nokkurt mál til lykta með heilbrigðum og affarasælum hætti fyrir land og þjóð. Ráðherrar þeirra vinna allt með öfugum klónum. Hver og ein þeirra gjörð keyrir þjóðina dýpra ofan í svaðið, eins og nýjustu samdráttartölur Hagstofunnar vitna um. Það er engin furða, þegar afturhaldssjónarmið ráða afstöðu til allra framfaramála og framkvæmda, og ráðherrar afturhaldsins, t.d. Svandís Svavarsdóttir, lýsa beinlínis yfir andstöðu sinni við hagvöxt. Með slíkt fólk í forystu verður aldrei hagvöxtur, sem neinu nemur. Slíkt fólk leiðir almenning í algerar ógöngur, og breyta leiktjöld, leikbrögð og látalæti, svo að ekki sé minnzt á mannalæti, þar engu um.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjármál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Gott að lesa og hughreistandi fyrir svefninn. Þakka fyrir.
Helga Kristjánsdóttir, 28.11.2010 kl. 01:05
Mín er ánægjan, Helga.
Lestur tæpitungulauss texta er líklegur til dæilegra draumfara.
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 28.11.2010 kl. 12:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.