4.12.2010 | 14:01
Evrópuhugsjónin fer halloka
Örlagatímar eru nú í Evrópu vegna bresta sameiginlegu myntarinnar á evrusvæðinu. Forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins (ESB), Herman van Rompuy, hefur lýst því yfir, að hrynji evran, þá líði ESB undir lok. Þessi ummæli vitna um sálarháska þeirra, sem telja Evrópumenn aðeins verða sáluhólpna, lúti þeir stjórnun og reglugerðasetningu miðlægs og sjálflægs skrifræðisbákns, sem lýtur takmörkuðu eða engu lýðræðislegu aðhaldi almennings í Evrópu. Þetta er ókræsileg Evrópuhugsjón, enda nær hún vart eyrum annarra en opinberra starfsmanna.
Þekktur hagfræðingur, Willem Buiter, sem í skýrslu, saminni fyrir íslenzku bankana sumarið 2008, taldi innviði þeirra vera svo fúna, að þeir væru þá komnir að fótum fram, hefur nú spáð falli evrunnar. Hann telur hagkerfi Spánar vera mun veikara en bókhaldsbækur sýna og gerir ráð fyrir því, að Evrópubankinn, ECB, sem gárungarnir kalla EBB (European Bad Bank í stað - Central Bank), muni hefja stórfellda prentun peninga í örvæntingarfullri tilraun miðstýringarmanna í Frankfurt og Brüssel til bjargar Spáni.
Á talsmönnum þýzkra viðhorfa í þessum efnum er hins vegar ekki að heyra, að gripið verði til þess óyndisúrræðis, og tónninn í Berlín er tekinn að draga dám af rómi þýzks almennings, sem líkir opinberum stuðningi við nauðstadda banka við það að reyna að fylla baðker án tappa í niðurfallinu. Yrði prentun peninga hafin, mundi það leiða til mikillar verðbólgu, og til þess er reyndar leikurinn gerður að grynnka á skuldum evruríkjanna með greiðslum með verðminni mynt.
Þjóðverjar mega hins vegar ekki til slíks óstöðugleika hugsa, sem af slíku kynni að leiða, í ljósi sögunnar. Weimar lýðveldið féll 1933 vegna ráðleysis ríkisstjórna, fjöldaatvinnuleysis, óðaverðbólgu og auðmýkingar að hálfu Vesturveldanna með Versalasamningunum 1919. Þýzkur almenningur hefur nú fengið það á tilfinninguna, að ætlunin sé að láta hann greiða skuldir allra evruríkjanna, sem á þurfa að halda. Þetta er nú að renna upp fyrir stjórnendum við Potzdamer Platz, sem standa andspænis stjórnmálalegum rústum, eða að láta Spán róa og þar með evruna. Því skal spá hér, að lýðræðið verði ofan á við ákvarðanatöku í Berlín og dálæti Þjóðverja, Deutsche Mark, sjái dagsins ljós að nýju.
Við þessar aðstæður líður Alþingi Íslendinga s.k. félagshyggjustjórn, ríkisstjórn Samfylkingar og vinstri-grænna, að halda út í aðlögunarferli stjórnkerfis landsins að kröfum ESB á röngum forsendum með miklum peningalegum útlátum úr ríkissjóði, beinum og óbeinum.
Ríkisstjórnin er í óleyfi við þetta ferli vegna þess, að reginmunur er á samningaviðræðum, sem Alþingi samþykkti með semingi 16. júlí 2009, svo að vægt sé til orða tekið, og aðlögunarferli. Þá var aldrei minnzt á aðlögun, heldur viðræður, jafnvel könnunarviðræður, með það að markmiði að athuga, hvað byðist í Brüssel. Grátleg grautargerð það. Gagnaðilinn, ESB, hefur hins vegar ekki farið í launkofa með eðli málsins og að í boði væri aðeins ein með öllu, Evrópuhugsjón,stofnsáttmálar, lög og tilskipanir ESB, án nokkurra varanlegra undanþága.
Því má svo bæta við þessar hugleiðingar, að jafnvel þótt undanþágur fengjust við lok aðlögunarferlisins, sem auðvitað væru ætlaðar sem agn fyrir þing og þjóð, þá yrðu þær haldlausar síðar meir, ef einhver aðildarþjóðanna mundi kæra þær til Evrópudómstólsins, sem dæmir jafnan stranglega eftir stofnsáttmálum ESB. Þar með væri fjöregg þjóðarinnar dæmt í útlegð til Brüssel, og Alþingi og ríkisstjórn í Reykjavík yrðu að lúta boðvaldi þaðan, t.d. varðandi nýtingu lands og sjávar.
Af þessum sökum öllum leggst Alþingi með eindæmum lágt nú að láta bjóða sér framhald þessa ólýðræðislega ferlis, sem Samfylkingin keyrir nú fram af offorsi gegn vilja allra hinna stjórnmálaflokkanna. Það er skammarlegt út á við og slæm framkoma við ESB að halda því uppi á snakki af algjörri sýndarmennsku og bruðla þannig með fé skattborgaranna, sem í þokkabót er tekið að láni. Sannast þar enn, að ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms er siðlítil og ábyrgðarlaus.
Það virðist bera brýna nauðsyn til að auka veg Alþingis og sjálfstæði gagnvart framkvæmdavaldinu. Almennara má orða þetta svo, að gera þurfi sérstakar ráðstafanir í Stjórnarskrá til eflingar þrígreiningar ríkisvaldsins og til eflingar gagnkvæmu aðhaldi.
Aukin valddreifing og gagnkvæmt aðhald allra þriggja greina ríkisvaldsins er nauðsyn í okkar fámenna þjóðfélagi, þar sem tilhneiging er til valdsamþjöppunar, klíkuskapar og annarra meinsemda lítils kunningjasamfélags. Þá er alkunna, að staða forsetaembættisins er óljós og hálfutanveltu í fámennu íslenzku þjóðfélagi.
Til mótvægis þessum veikleikum og áhættuþáttum mætti slá tvær flugur í einu höggi og sameina embætti forseta lýðveldisins og forseta Alþingis. Forseti Alþingis yrði með öðrum orðum kosinn beint af þjóðinni samhliða Alþingiskosningum og mundi við það öðlast visst sjálfstæði frá stjórnmálaflokkunum, og hann mundi veita Alþingi forystu um aðhald að ríkisstjórn, þar sem ráðherrar gegndu ekki þingmennsku og hann hefði ekki atkvæðisrétt. Til að lög öðluðust gildi yrði forsetinn að undirrita þau, og hann gæti synjað lögum staðfestingar þar til þjóðin hefði greitt um þau atkvæði. Viðbótarleiðir til að framkalla þjóðaratkvæði væru tilmæli 20 þingmanna til forseta um slíkt, sem hann féllist á, eða undirskriftir 20 % atkvæðisbærra manna, sem skilmálalaust gætu framkallað þjóðaratkvæði.
Til greina kemur að fækka þingmönnum um 14, að ráðherrarnir verði 7 og að komið yrði upp Stjórnlagadómstóli 7 manna. Þangað yrði hægt að vísa til úrskurðar deilum um það, hvort samningar ríkisstjórnar, lög þingsins eða dómar Hæstaréttar brytu í bága við Stjórnarskrá landsins. Forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar mundu skipa þessa 7 dómara. Í Hæstarétt mundi Forseti Alþingis skipa að fengnum tillögum innanríkisráðherra og Hæstaréttar.
Nýkjörið stjórnlagaþing þarf að leggjast undir feld og velta fyrir sér fjölmörgum öðrum mikilvægum málum, er varða stjórnun ríkisins, kjördæmaskipan, kosningafyrirkomulag, og rétt minnihluta. Eitt af þessu er að móta reglur um með hvaða hætti Stjórnarskrá verður breytt í framtíðinni. Það má hugsa sér, að frumkvæðið gæti komið frá forseta Alþingis eða Alþingi, sem mundu senda tillögu Stjórnlagadómstóli til umsagnar og síðan þjóðinni til staðfestingar eða synjunar.
Eitt er þó víst, að núverandi Stjórnarskrá verður ekki breytt með öðrum reglum en þeim, sem hún sjálf mælir fyrir um. Það er ótrúleg hegðun að hálfu þess stjórnlagaþingmanns, sem myndin hér til hliðar er af, að hreyta því í Alþingismenn, að þeir skuli senda tillögur stjórnlagaþings óbreyttar og umsvifalaust í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það mega Alþingismenn ekki gera, því að Stjórnarskráin kveður á um, að tvö Alþingi þurfi til að samþykkja Stjórnarskrárbreytingu og Alþingiskosningar á milli. Var þetta alveg ótrúlegt frumhlaup að hálfu prófessorsins og lofar ekki góðu um framhaldið.
Þetta var með eindæmum hrokafull hegðun í ljósi þess, að líta má svo á, að meirihluti þjóðarinnar sé á móti því að setja þetta stjórnlagaþing á laggirnar nú, þar sem hann hunzaði kosningarnar. Úr því að stjórnlagaþing er nú samt að taka til starfa ber að brýna fyrir því auðmýkt gagnvart því mikilvæga starfi, sem fulltrúarnir 25 eru nú að takast á herðar, og það verður að vona, að lýðskrum víki fyrir íhygli og vönduðum vinnubrögðum. Niðurstaðan verði innviðum lýðveldisins til eflingar að beztu manna yfirsýn.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Heimspeki, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
heyr heyr!!
Guðrún Sæmundsdóttir, 4.12.2010 kl. 23:22
Mjög skörp grein og góð, tek undir hvert orð. Fæ að deila henni á Facebook.
Sigurbjörn Svavarsson, 5.12.2010 kl. 12:00
Þakka ykkur fyrir góðar undirtektir. Það þarf að skera upp herör gegn niðurlægingu Alþingis, og stjórnlagaþingið gæti lagt lóð á vogarskálarnar með tillögum, er miða að valdajafnvægi þriggja stoða ríkisvaldsins og gagnkvæmu aðhaldi, en umfram allt að smíða kerfi, sem sniðið er við fámennt samfélag með kostum þess og göllum.
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 5.12.2010 kl. 15:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.