18.12.2010 | 14:11
Harmsaga fjárhirðis
Rök hafa verið leidd að því, að engin dæmi finnist um jafnhrikalegt vanmat á eigin stjórnmálalegu stöðu á seinni tímum og hjá Steingrími Jóhanni Sigfússyni (SJS), þegar hann gekk til samstarfs við Samfylkinguna 2009, sbr Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins, dags. 17.12.2010. Hann gat haft tögl og hagldir við stjórnarmyndanirnar þá, en glutraði niður tækifærinu.
Fyrir vikið lét hann Samfylkinguna leggja upp í sig og síðan teyma þægan við einteyming til samstarfs við AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðinn) og til forkastanlegra samninga um mjög þungbærar klyfjar á íslenzka skattgreiðendur vegna gjaldþrots einkabanka í útlöndum, sem voru svo herfileg mistök, að varða hiklaust Landsdómi, og síðast en ekki sízt sveik hann flokksmenn sína og kjósendur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og varðaði leiðina til inngöngu í ESB (Evrópusambandið).
Þessum fjárhirði íslenzka ríkiskassans hefur nú enn orðið á í messunni. Hann lagði fyrir Alþingi hrákasmíði í gervi fjárlagafrumvarps, sem gekk fram af almenningi og ofbauð eigin flokksmönnum. Þrír þingmenn VG helltust úr lestinni við lokaatkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið, og eftir það munu vinstri grænir ekki bera sitt barr. Ríkisstjórn Jóhönnu hefur aldrei borið neitt barr, svo að þar á verður engin breyting. Hún skilur alls staðar eftir sig sviðna jörð.
Fjármálaráðherrann er þannig orðinn ber að algeru dómgreindarleysi. Honum er ekki hægt að treysta fyrir horn. Allt, sem frá honum kemur, ber að sæta mikilli tortryggni, og vísast er það almannahag stórskaðlegt.
Það sætir þess vegna furðu, að fúsk á borð við fjárlagafrumvarp SJS skuli ekkert mótatkvæði hljóta. Fjárlögin eru reist á blekkingum og röngum hagspám. Hagspá SJS miðar við hagvöxt, en stefna ríkisstjórnarinnar leggur stein í götu framkvæmda, sem hérlendis eru forsenda hagvaxtar. Ofurskattlagning lamar hagkerfið, og fjandskapur ríkisstjórnarinnar í garð athafnalífsins heftir vilja til fjárfestinga í gjaldeyrisskapandi starfsemi, t.d. í sjávarútvegi.
Samkomulagið við AGS átti að renna út í nóvember 2010, en ríkisstjórnin er látin sitja eftir eins og hverjir aðrir tossar. Hún hefur auðvitað staðið sig illa, en kominn er tími til að losna úr viðjum AGS. Eins og myndin hér til hliðar sýnir, er fjármagnsflæði til hagkerfa á uppbyggingarskeiði mjög tekið að glæðast eftir síðasta hrun fjármálakerfis heimsins, og virðist engin þörf fyrir íslenzka ríkið lengur að vera undir handarjaðri AGS. Íslendingar standa í þakkarskuld við AGS fyrir að veita tryggingar á válegum tíma, en hegðun hans síðan er ekki alls kostar ásættanleg, og lítillækkandi er, að hann verði hér eilífur augnakarl.
Velferðarstjórn fjármálakerfisins á Íslandi er ekki á þeim buxunum að afnema fjármálahöftin í bráð. Bankarnir græða á þeim, og skömmtunarstjórarnir halda dauðahaldi í skömmtunaraðstöðuna. Skrýtni karlinn í Seðlabankanum, gamli Marx-Lenínistinn, er yfirskömmtunarstjórinn. Hann er jafnframt eini seðlabankastjórinn í heiminum, nema vera skyldi í Zimbabwe, sem rekur jafnframt tryggingafélag. Hann setti löpp á milli stafs og hurðar og kom þannig í veg fyrir endureinkavæðingu þess, trúr fornum átrúnaði sínum. Störf þessa handbendis velferðarstjórnar bankanna eru orðin að lélegum brandara.
Tveir góðkunnir hagfræðiprófessorar, Jón Daníelsson og Ragnar Árnason, rituðu haglega hugvekju í Morgunblaðið 17.12.2010 undir fyrirsögninni: "Gjaldeyrishöftunum þarf að aflétta sem fyrst". Þeir fullyrða, að efnhagsstefna ríkisstjórnarinnar sé reist á gjaldeyrishöftum. Þetta eitt og sér er nóg til að gefa stjórnarómyndinni falleinkunn, því að ríki með gjaldeyrishöft getur ekki staðizt öðrum snúning í keppninni um erlent áhættufé, getur ekki búið frumkvöðlum eðlilegt umhverfi og er dæmt til að verða undir í keppninni um að búa þegnum sínum fyrirmyndar lífskjör.
Prófessorarnir segja þegar vera kominn upp þjóðhagslega óarðbæran atvinnuveg við að framfylgja höftunum hjá hinu opinbera og hjá fyrirtækjum við að komast fram hjá þeim. Spilling grasserar og forsjárhyggjan dillir sér. Að skammta verðmæti til gullrassa og gæludýra eru hennar ær og kýr.
Téðir höfundar leiða rök að stórfelldri skaðsemi gjaldeyrishaftanna fyrir efnahagslífið, sem dragi úr samkeppnihæfni þess og rýri þannig lífskjör almennings: "Með því að viðhalda gjaldeyrishöftunum erum við í raun að tilkynna, að íslenzk stjórnvöld annaðhvort geti ekki eða vilji ekki reka hagkerfi samkvæmt þeim leikreglum, sem tíðkast í þróuðum ríkjum. Þar með er verið að lýsa því yfir, að Ísland sé þriðja heims efnahagssvæði, þar sem búast megi við, að stjórnvöld skelli á og viðhaldi beinum gjaldeyrishöftum og öðrum takmörkunum langtímum saman." (Stafsetning og ritháttur prófessoranna færð til betri vegar.)
Með vísun til ofangreindrar niðurstöðu virtra fræðimanna á hagfræðisviðinu gegnir furðu, að ríkisstjórnin skuli vera með landsmenn á vegferð inn í ESB án þess að fjarlægja þessi höft, sem klárlega eru brot á fjórfrelsinu, sem kveður á um frjálsa fjármagnsflutninga á Innri markaðinum.
Ánægjuegt er á aðventunni að sjá virta hagfræðiprófessora taka þannig til orða í téðri Morgunblaðsgrein: "Við Íslendingar, eins og svo margar aðrar þjóðir, höfum lært af biturri reynslu, að ríkisforsjá efnahagslífsins er ekki til velsældar fallin. Hún leiðir jafnan af sér óhagkvæmni og sóun og hneigist gjarnan til pólitískrar fyrirgreiðslu og mismununar."
Að fernu ber nú að vinda bráðan bug :
- Að afnema gjaldeyrishöftin með vönduðum undirbúningi, er feli í sér samstarf við erlenda seðlabanka og varaáætlun
- Að binda endi á samstarfið við AGS í núverandi mynd
- Að stöðva inngönguferlið í ESB og biðja stækkunarstjóra þess afsökunar á frumhlaupi gálausra og bernskra hérlendra stjórnvalda
- Að liðka fyrir erlendum fjárfestingum í hvívetna og greiða veg fjárfesta til nýtingar auðlinda í lögsögu landsmanna.
Með þessum hætti, og skipulegri einföldun og uppstokkun skattkerfisins, mun takast að koma hjólum atvinnulífsins í gang að nýju og öllu vinnufúsu fólki, innanlands og brottfluttu, til arðsamra starfa hér á ný. Jafnframt ber stöðugt að minnast þess, að vítin eru til að varast þau. Það má sízt fyrnast á næsta velmegunarskeiði.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 19.12.2010 kl. 20:41 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.