Orkumál í gíslingu

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs heldur orkumálunum í gíslingu.  Þetta lýsir sér með eins konar banni á öllum rannsóknum og virkjunum, sem fyrirtæki á þessum markaði hafa hug á. 

Í blekkingarskyni skipaði ríkisstjórnin nefnd 7 manna, með einum starfsmanni til viðbótar, til að móta orkustefnu.  Nú hefur króginn séð dagsins ljós, og er sá eigi björgulegur.  Segja má, m.v. fjöldann, sem að verknaðinum kom, að fjallið tók jóðsótt, en fæddist lítil mús.  Það er ofmælt að nefna drög þessi orkustefnu.  Um er að ræða samtíning héðan og þaðan og gamlar tuggur.  Ekki örlar á frumlegri hugsun í allri skýrslunni.  Hún vísar engum nokkra leið til orkunýtingar og er þess vegna einskis virði sem stefnumarkandi plagg. 

Viðvaningsbragur er á málsmeðferðinni, og hún er undir áhrifum fordóma og mismununar gagnvart notendum og þröngsýni forræðishyggjunnar. Dæmi um þetta er umfjöllunin um lengd samningstíma um afnotarétt orkulindanna.  Mikið er lagt upp úr nauðsyn þess að stytta hann úr 65 árum í 35 ár.  Hér gleymist, að löggjafinn kann með slíkri styttingu að vera að svipta handhafa auðlindarinnar miklu og öruggu tekjuflæði.  Kaupandi tímabundins afnotaréttar er að öllum líkindum fúsari til að borga hærra, ef hann sér fram á lengra tekjutímabil á móti. 

Hvers vegna í ósköpunum má ekki seljandi tímabundins afnotaréttar reikna það út sjálfur, hvað er honum hagfelldast.  Það er mikið samspil á milli einingarverðs, tímabils og samningsupphæðar, og samningsaðilar eiga að fá að vera í friði fyrir stjórnmálamönnum, sem margir þykjast vita bezt um það, hvað handhafa auðlindarinnar er fyrir beztu.  Það er reginmisskilningur þeirra.  Það er illvíg forræðishyggja.

Í Fréttatímanum, 2. tbl. 2. árgangs, birtist viðtal við formann téðs stýrihóps.  Þar fá menn innsýn í hugarfarið, sem svifið hefur yfir vötnunum.  Eftir lestur viðtalsins verður ljóst, að ekki er kyn, þó að keraldið leki, því að botninn er suður í Borgarfirði. 

"Stýrihópurinn mælir með því, að orkuauðlindum í ríkiseigu verði safnað saman í Auðlindasjóð.... ." "Þá þarf að skoða, hvort sveitarfélög eru tilbúin að taka upp sama fyrirkomulag útboða og útleigu, svo að ramminn sé samræmdur og hið opinbera tapi ekki arði vegna innbyrðis samkeppni."

Hér horfa lesendur framan í alsovézkt smetti.  Helfrosið hugarfar hafta og samkeppnihamla, og miðstýringaráráttan verður vart meiri.  Hér skal fullyrða, að þetta sovétskipulag stríðir gegn frjálsum viðskiptaháttum og reglum innri markaðar EES um frjálsa samkeppni og bann við samkeppnihamlandi hringamyndun.  Samfylkingin er langt til vinstri við markaðshyggju ESB, og þeim mun furðulegri er þráhyggja flokksins að ganga í þann klúbb.

Kjaftaskar tala mikið um auðlindarentu, en vefst tunga um tönn við að skilgreina hana.  Víst er, að hún finnst ekki í sjávarútveginum íslenzka.  Ástæðan er sú, að hann, óstuddur af fjárframlögum hins opinbera, á í harðvítugri samkeppni um fiskkaupendur við niðurgreiddan sjávarútveg í Evrópu.

Þjóðnýtingarmenn aflaheimilda eru sem ómálga börn í viðskiptalegu tilliti og horfa, meðvitað eða ómeðvitað, algerlega framhjá aðalatriði auðlindanýtingar í sjávarútvegi nú á tímum.  Hún snýst nefnilega ekki um að draga bein úr sjó, heldur að fullnægja þörfum viðskiptavina á sjávarvörumörkuðum.  Með fyrningu aflaheimilda, eða annarri viðlíka gáfulegri tilraunastarfsemi, sem enginn annar stundar þó, er stoðunum algerlega kippt undan getu birgjanna, íslenzku sjávarútvegsfyrirtækjanna, sem veiða samkvæmt langtíma-og skammtíma samkomulagi við sjávarvörukaupendur í Evrópu, til að þjónusta evrópskan markað með trúverðugum hætti.  Stjórnmálamenn mundu þannig verða valdir að tortímingu viðskiptasambanda og hruni á tekjustofnum sjávarútvegsins.  Hvaða áhrif halda menn, að það hafi á þjóðarhag ?

Í orkugeiranum er hins vegar borð fyrir báru á Íslandi vegna orkuskorts í Evrópu og koltvíildisskatts, sem leggjast mun á með vaxandi þunga.  Tal formanns "Stýrihóps um mótun orkustefnu" um allt of lágt orkuverð á Íslandi, arðsamari orkusölu til smánotenda og jafnvel orkusölu um sæstreng, er hins vegar alveg út í hött.  Hvers vegna hafa engir samningar tekizt enn við slíka ?  Svarið er, að kjörin, sem þeir hafa boðið fram að þessu, ná ekki máli og standast kjörum seljenda til stórnotenda ekki snúning.  

Þeir, sem fara út í samanburð á einingarverðum, dæma sig strax úr leik sem óhæfa í þessari umræðu.  Margvíslegir þættir fléttast saman í einum orkusamningi og hafa áhrif á hagkvæmni hans fyrir seljanda og kaupanda.  Þar má nefna grunnverð orkunnar og verðtryggingarákvæði í samningi, hlutfall forgangsorku og afgangsorku, kaupskyldu, samningstíma, samband orku og leyfilegs afltopps, aflstuðul, síun yfirsveiflna og þann tíma, sem tekur að fullnýta virkjunina frá byggingu hennar.

Vegna þess, að íslenzku orkulindirnar eru endurnýjanlegar, sjálfbærar og lítt mengandi, búa Íslendingar við náttúrulegt forskot, sem jafnvel mun fara vaxandi.  Af þessum sökum er engin goðgá að stofna íslenzkan orkusjóð í líkingu við olíusjóðinn norska.  Má hugsa sér sem tekjur í þennan sjóð allt að 5 % af söluverði orku frá raforkuvirkjun, hitaveitudælustöð og síðar meir olíu-og gaslindum Drekasvæðisins eða annars staðar, enda verði sértæk orkuskattlagning, s.s. rafskattur, aflögð samtímis.  Orkusjóðurinn gegni hlutverki viðlagasjóðs og gangi slíkir sjóðir inn í orkusjóðinn og gjöld til gömlu sjóðanna verði þá aflögð. 

Orkusjóðinum sé þannig ætlað að vera tryggingasjóður landsmanna gegn hamförum, þ.e. stóráföllum af hvaða völdum sem er.  Hann mundi þannig taka á sig byrðar af Icesave, ef landsmenn verða, t.d. með dómi, þvingaðir til að taka á sig þessar byrðar.  Orkusjóður Íslands yrði eins konar bakhjarl ríkissjóðs Íslands.  Orkusjóðurinn nyti sennilega meira lánstrausts en ríkissjóður Íslands og gæti þannig brúað þungbær tímabil með lántökum á meðan orkulindirnar eru nýttar.  Í raun er ekki vanþörf á slíkum, öflugum sjóði í landi, þar sem náttúruöflin eru jafnstórtæk og hér.  

Viðbúið er, að þessi tillaga hljóti ekki náð fyrir augliti afturhaldsins í landinu, af því að hún er uppbyggileg.  En tími afturhaldsins er senn á enda.  Stjórnarflokkarnir hafa gert í buxurnar, og segja sumir gott betur.  Sífrið úr þeim mun heyrast úr afkimum þjóðfélagsins í hvert sinn, sem eitthvert framfaraspor verður stigið.  Þá verður sífrað um, að fremur eigi að gera "eitthvað annað", þó að enginn hindri "eitthvað annað", orkuverðið sé of lágt, þó að orkuseljandi hafi gert hagkvæmasta samning, sem honum bauðst, og framin hafi verið náttúruspjöll, þó að vatnsaflsvirkjanir fegri umhverfi sitt, auki gróðurfar vegna hærra rakastigs og hærra grunnvatnsborðs og dragi úr hættu á slysum og tjóni vegna flóða, en virkjanaframkvæmdir munu þó aldrei hafa áhrif á nema lítið brot af landinu. 

Rétttrúnaðurinn vill hafa það svo, að nýtanleg orka til raforkuvinnslu í landinu sé að hámarki 50 TWh/a.  Vaðallinn í kringum þessa tölu ber vitni um þekkingarleysi og staðnað hugarfar.  Tækniþróunin mun gefa þeim langt nef, sem ríghalda í slík þök.  Þau munu hafa tilhneigingu til að lyftast, ef markaðurinn verður jafnhungraður eftir sjálfbærri orku og nú virðist stefna í.  Tækniþróunin mun auka nýtni orkuvinnslunnar og draga úr umhverfisáhrifum virkjana.  Ef tekst að þróa djúpborun og orkuvinnslu úr 5 km djúpum holum, þá tífaldast orkugeta hverrar holu á háhitasvæði.  Sjá þá allir, að orkuvinnslugeta landsins getur hæglega farið yfir 100 TWh/a.  Að gera mikið mál úr einhverju 50 TWh/a þaki er beinlínis hlálegt og sýnir, að téður stýrihópur hefur asklok fyrir himin.

Nýting orkulinda   

   

   

      

 

    

v


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband