Gömul plata og illa biluð

Grautargerðarmenn meirihlutans á löggjafarsamkomunni hafa verið vegnir og léttvægir fundnir af Hæstarétti landsins.  Lagasmíð stjórnarflokkanna, Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, hefur oftar en ekki reynzt hreinræktuð hrákasmíð. Þessum flokkum eru svo mislagðar hendur, að tekur út yfir allan þjófabálk.  Stjórnlagaþingsgrautargerð félagshyggjuflokkanna vó að rótum lýðveldisins , þar sem gera átti aðför að Stjórnarskránni, en flumbruháttur og gössl þingmeirihlutans er með þvílíkum eindæmum, að honum er jafnvel um megn að skipuleggja löglegar kosningar.  Þjóðin hefur fyrir vikið orðið að athlægi erlendis og situr nú á bekk með bananalýðveldum, þar sem reynt er að fúska með kosningar.

Ekki tekur betra við, þegar að viðbrögðunum kemur.  Forsætisráðherrann gargar hamstola af bræði úr ræðustóli Alþingis, að "Íhaldið sé skíthrætt".  Með því snýr hún að venju staðreyndum á haus og leggur um leið til Hæstaréttar með lúalegum hætti, enda er hún lágkúran uppmáluð.  Mannvitsbrekkur stjórnarflokkanna reyna með sínum hætti að grafa undan rökum Hæstaréttar, en varpa um leið ljósi á, hvern mann þær hafa að geyma.  Þokulegir flokkssnatar og froðusnakkar á borð við starfandi þingflokksformann vinstri grænna, Árna Þór Sigurðsson, einteinung,varpa með málflutningi sínum ljósi á, hversu órafjarri hugsunarleysi þeirra er heilbrigðri skynsemi.  Hvert einasta aðfinnsluatriði Hæstaréttar jafngilti broti á kosningalögunum til Alþingis, sem vísað var til í hrákasmíði Róberts Marshalls og meirihluta Allsherjarnefndar.  Gildir þá einu, hvort svipað fyrirkomulag hafi verið notað annars staðar, eða að ekki hafi verið sýnt fram á, að atkvæði hafi verið rakin til eigenda sinna.  Meirihluti Alþingis er viti sínu fjær, og það er hárrétt mat hjá Vigdísi Hauksdóttur, Alþingismanni, að allur málatilbúnaður hans er misheppnaður (reyndar geggjaður) og reynist sóun tíma og fjármuna.

Þeir, sem nú eru haldnir ótta, eru stjórnarflokkarnir við kosningar.  Þess vegna fáum við ekki Alþingiskosningar.   Skyldi Mubarak hafa hringt í Jóhönnu ?  Hún hefði þá getað stautað sig í annað skiptið fram úr misheppnuðum feðraorlofsbrandara á ensku, sem Hrannar skrifaði fyrir Cameron.

Það er lágmarks lífsmark, að stjórnarandstaðan á þingi beri við þessar aðstæður fram vantrauststillögu á forsætisráðherra, innanríkisráðherra og ríkisstjórnarómyndina alla.  Þó að vitið sé nú ekki meira en guð gaf hjá félagshyggjuflokkunum, hafa þeir samt með réttu greint tilvistarháska sinn, ef til kosninga kæmi, og ætla að hanga við völd án nokkurra hæfileika né getu til að stjórna þessu þjóðfélagi.  Neró leikur á hörpu undir karókísöng og fleðulátum lýðskrumara á meðan Róm brennur.

Ekki er innanríkisráðherrann barnanna beztur.  Hann fimbulfambar um, að ekkert tjón hafi orðið.  Þar liggur samt efinn.  Vafaatriði við framkvæmd voru kærð, af því að framkvæmdin orkaði tvímælis, og var fundin ólögleg.  Samkvæmt neyðarlegri vörn innanríkisráðherra og einfeldningslegri lagatúlkun hans á ég mér umtalsverðar málsbætur, aki ég um götur borgarinnar á 100 km/klst og yfir á rauðu ljósi, þar sem mér sýnist, ef ég slasa engan og veld engu tjóni.  Þetta er ekki boðlegur málflutningur frá stúdentinum á stóli innanríkisráðherra fremur en nokkuð annað, sem frá þjóðnýtingarliðinu kemur. 

Í innanríkisráðuneytinu var mótuð stefnan um framkvæmd meingallaðrar löggjafar.  Sú stefna gekk á svig við lög um leynilegar og lýðræðislegar kosningar í landinu.  Slikt er einsdæmi og svo alvarlegt, að ráðherrann verður að axla af því ábyrgð. 

Hlutur Landskjörstjórnar er stórfurðulegur.  Hún var verkefnisstjórn kosninganna, en formaður hennar gaf út þá yfirlýsingu í kjölfar úrskurðar Hæstaréttar, að hún væri ekki aðili að málinu.  Lengi getur vont versnað.  Það er ekki kyn, þó að framkvæmdin væri brokkgeng, þegar svo er í pottinn búið, að formaður Landskjörstjórnar áttar sig ekki á því, að hún hefur orðið að gjalti og orðið landinu til skammar með því að stjórna ólöglegum kosningum í lýðræðisríki, sem óhæft fólk á þingi er að draga niður á stig bananalýðveldis. Landskjörstjórn hefur nú séð að sér og axlað sín skinn.    

Nú er væflazt með það, hvað gera eigi í kjölfar dómsins, og er ríkisstjórnin þar sem sullaveik rolla að vanda.  Forsætisráðherra jarmar enn um, að þjóðin verði að fá sitt stjórnlagaþing, þó að aðeins 2 % tjái sig verulega áhugamenn um slíkt.  Kjörbréf stjórnlagaþingsfulltrúanna hafa verið ógilt, og ættu þeir við svo búið að hverfa algerlega af vettvangi, enda hafa þeir hverfandi fylgi. Nóg er komið af bruðli með fé skattborgaranna í þetta ótímabæra og ógæfulega gæluverkefni Jóhönnu Sigurðardóttur og Róberts Marshall, sem hefur reyndar beðið þjóðina afsökunar á flautaþyrilslegum störfum sem formaður Allsherjarnefndar Alþingis.  Mál er að linni.

Hið alvarlegasta við lagaklúður núverandi Alþingismeirihluta um stjórnlagaþing er þó það, að lagasetningin brýtur í bága við sjálfa Stjórnarskrána.  Þar er aðeins gefin ein forskrift að því, hvernig megi breyta Stjórnarskránni.  Sú aðferð að kjósa í almennum kosningum einhverja samkundu, sem senda eigi Alþingi tillögu að stjórnarskráarbreytingu, er þar alls ekki á dagskrá, og þessi aðferð brýtur þar með í bága við Stjórnarskrá.  Til hvers halda menn, að forskrift að aðferð um breytingu hafi verið sett í Stjórnarskrá, ef síðan er leyfilegt að nota allt aðra aðferðarfræði ?  Þetta er hin mikla meinloka biluðu plötunnar og allra plötusnúðanna hennar.  Vilji menn innleiða Stjórnlagaþingsleið, verður fyrst að setja hana í Stjórnarskrá, svo að hún hafi stjórnskipulegt gildi.  Rándýrt, vanhugsað og vonlaust gæluverkefni Jóhönnu Sigurðardóttur og hálfkák Alþingismeirihlutans er andvana fæddur loddaraskapur af verstu gerð og viðbjóðsleg aðför að Stjórnarskránni, þar sem fjöregg fullveldis er falið.  Hin þjóðhættulegu öfl sameignarsinna eru söm við sig.

Á meðan stjórnarathafnir snúast um afleit gæluverkefni ábyrgðarlauss þvergirðings í forsætisráðuneytinu eykst atvinnuleysið og hagvöxtur nær sér ekki á strik.  Fíflagangur vinstri manna tekur engan endi.  Klúður þeirra má rifja upp með eftirfarandi stikkorðum:

skjaldborg, ESB, atvinnutortíming, Icesave, stjórnlagaþing, ráðningar gæludýra á ríkisjötuna, sala Sjóváar, launamál Más, bankasýsla, "Hrafnseyri við Dýrafjörð", Magma, Landsdómur, sparisjóðirnir tveir, græðgivæðing skilanefnda, áframhaldandi bankaspilling, skattlagning undir drep, aðför að sjúklingum og heilbrigðisstéttum, hótanir um þjóðnýtingu og fjandskapur í garð erlendra fjárfesta í atvinnuskapandi starfsemi á Íslandi. 

Það dæmalausa örverpi, sem getið hefur af sér allt það klúður, sem að ofan er nefnt, og er þó margt ótalið, er að fylla tvö ár.  Það bezta, sem þetta örverpi gæti gert þjóð sinni á þessum tímamótum, er að leggja upp laupana.  Annars verður að koma því fyrir kattarnef hið fyrsta.  Farið hefur fé betra. Efasemdarmenn um, hvað við tekur, geta huggað sig við það, að ástandið getur ekki versnað á Alþingi og í Stjórnarráði.  Þetta er botninn.   

 

  

   

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Bara eitt enn,góður.

Helga Kristjánsdóttir, 29.1.2011 kl. 01:14

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Helga.

Manni blöskrar algerlega blint ofstæki og dómgreindarleysi þess fólks, sem enn er við það heygarðshornið, að brýnast sé að þjóðnýta afnotarétt að öllu, sem stjórnmálamenn vilja ráðskast með.  Með þessu yrði bananalýðveldi breytt í alþýðulýðveldi, og þá verður stutt í þjóðargjaldþrot, því að útflutningsatvinnuvegirnir munu þá hrynja.  Stjórnmálamennirnir, sem berir eru nú orðnir að því að kunna ekki réttri hendi í rass að taka, sækjast eftir því að ná hreðjataki á atvinnuvegunum.  Þessum stjórnmálamönnum, ásamt hyski þeirra, verðum við að kasta hið fyrsta á öskuhauga sögunnar.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 29.1.2011 kl. 13:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband