Neisti verður að báli

Bylting Araba veturinn 2011 hófst með því, að hinn túniski götusali, Muhammad Bouazizi, kveikti í sér í mótmælaskyni við túnísk yfirvöld, sem kippt höfðu undan honum afkomugrundvellinum með því að heimta af honum umsókn um leyfi til að stunda ávaxtasölu.  Hann vissi, að hann gat ekki uppfyllt kröfur yfirvalda, sem þannig settu þessum unga manni stólinn fyrir dyrnar við að sjá sér farborða.

Atvinnuleysi á meðal ungmenna í arabalöndunum nemur víðast hvar yfir þriðjungi undir þrítugu, en það er víðar pottur brotinn.  Á Spáni, sem ESB reisti við eftir einræðisstjórn Francisco Francos, nemur atvinnuleysi ungmenna 40 %, á Bretlandi 20 %, og ætli það sé ekki svipað á Íslandi.  Atvinnuleysi ungmenna er þjóðfélagsböl, sem hvergi ræðst við án hagvaxtar.  Á Íslandi er enginn hagvöxtur og mun ekki verða með núverandi stjórnarflokka við stjórnvölinn.  Það er þversögn fólgin í áróðri já-manna við Icesave, að hagvöxtur geti hafizt við að borga vexti, og e.t.v. hluta af tryggingarfénu, til Breta og Hollendinga, af upphæð, sem ríkissjóðir þeirra lögðu fram af ótta við bankahrun í eigin löndum. 

Lífskjörum á Íslandi hrakar óðum undir félagshyggjustjórninni, og eru aðstæður bágstaddra átakanlegar.  Þessari óheillaþróun verður aðeins snúið við með því að virkja markaðsöflin til að koma hjólum atvinnulífsins af stað.  Það mun félagshyggjustjórnin aldrei gera.  Það mun aðeins borgaraleg ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks gera.  Hún verður að byrja á því að afnema skatta félagshyggjunnar og hefja virkjanaframkvæmdir og nýja orkusölu.

Eftir að Hæstiréttur dæmdi, að hinn forstokkaði og ofstækisfulli umhverfisráðherra hefði brotið lög á Flóahreppi, lurðaðist ráðherrann til að staðfesta aðalskipulag hreppsins.  Með þessu er rudd brautin að hagkvæmasta virkjunarkosti landsins, Urriðafossvirkjun, 980 GWh/a, ásamt Hvammsvirkjun, 665 GWh/a og Holtavirkjun, 415 GWh/a, í Neðri-Þjórsá.  Á þessum áratug ætti einnig að reisa Arnardalsvirkjun í Jökulsá á Fjöllum, 4000 GWh/a, en samkvæmt Rammaáætlun hefur sú virkjun minnst umhverfisáhrif á hverja orkueiningu í för með sér.  Hún er næsthagkvæmust virkjana í röð Rammaáætlunar.  Með því að lækka tekjuskatt fyrirtækja niður í írskt gildi, 12 %, munu orkukaupendur standa í biðröð eftir að gera langtímasamninga (20-30 ár) um kaup á "grænni" orku.  Arðsemi slíkra samninga getur í núverandi efnahagsumhverfi orðið svo há, að virkjunarfyrirtæki og Landsnet geti greitt upp allan kostnað á innan við 20 árum, en mannvirkin endast í 40-100 ár og eru afturkræf.  

Ofangreindar virkjunarframkvæmdir ásamt því að reisa iðnaðarfyrirtæki, sem nýta munu þessa orku til framleiðslu á útflutningsvörum, munu útrýma atvinnuleysinu, laða brottflutta "heim ins Reich" og skjóta traustum stoðum gjaldeyrisöflunar undir greiðslu erlendra skulda hins opinbera. 

Það er hins vegar á fleiri sviðum, sem þarf að taka til hendinni.  Peningamálastjórn ríkisins er eitt af mikilvægustu sviðunum.  Það verður að afnema gjaldeyrishöftin hið bráðasta.  Í því sambandi er málflutningur seðlabankastjóra ekki hjálplegur.  Hvort hann er rugludallur skal ósagt láta, en hann ruglar a.m.k. fólk í ríminu.  Að halda því fram, að samþykki Icesave-samningsins, sem að öllum líkindum verður okkur dýrari kostur en að hafna honum, sé skilyrði fyrir afnámi haftanna í náinni framtíð, er þvættingur.  Eftir að náðst hafa samningar við erlenda iðnjöfra um verulegar fjárfestingar á Íslandi, mun verða unnt að afnema höftin án þess að krónan lækki verulega eða varanlega.

Efnahags-og viðskiptaráðherra, Árni Páll Árnason, er enn við sama heygarðshornið í evrumálum.  Gildir þá einu, þó að framtíð hennar hafi aldrei verið óvissari en nú og tekið sé til við að spá nýju bankahruni í Evrópu, bæði á Bretlandi og á evrusvæðinu.  Að þessu sinni munu ríkissjóðir Evrópu ekki hafa ráð á að dæla skattfé í bankana.  Hvort vilja menn þá heldur bankahrun eða þjóðagjaldþrot ?  Er hroðaleg spennitreyja evrunnar á Írum okkur ekki nægt víti til varnaðar ?  Lítum til Svíþjóðar.  Það er óvíða jafnmikill hagvöxtur og þar og verðbólga er þar minni en víða á evrusvæðinu.  Þennan frábæra árangur þakka Svíar sinni krónu, og þetta getum við líka með því að stokka upp hagstjórnina og nota Stjórnarskrána til að skapa stjórnmálamönnum aðhald við meðferð opinberra fjármuna og löggjöfina til að skapa Seðlabankanum viturlegar og faglegar reglur til að vinna eftir.

Stjórnarskráin er ekki vandamálið, en hana má virkja til að skapa hér nútímalega og góða stjórnarhætti og til að stuðla að stöðugleika hagkerfisins og stjórnmálanna.  Aðferðarfræði ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur við þetta er þó jafnvonlaus og hún er forkastanleg.  Aðferð ríkisstjórnarinnar nefnist hrakval.  Hún ætlar að velja til verksins fólk, sem eðli málsins samkvæmt vanvirðir núverandi Stjórnarskrá, og er þess vegna vanhæft til að smíða nýja.  Hæstiréttur dæmdi sem sagt, að fólkið, sem á stjórnlagaþingið var kosið, sé engu rétthærra en annað kjörgengt fólk á Íslandi til að gegna þessu hlutverki.  Niðurlæging Alþingis verður kvíðvænleg, samþykki það tillögu dómgreindarleysis um að fara á svig við dóm Hæstaréttar með "kennitöluflakki".  Þegar reiðin út í stjórnvöld Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs brýst út á Íslandi, verður þessum flokkum sópað út í yztu myrkur, þó að með friðsamlegum hætti verði.   

    utrasarvikingalotto

 

 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband