Ríkis-Bakkabræður

Alan Greenspan (AG), seðlabankastjóri Bandaríkjanna (BNA) í áraraðir, var lengi átrúnaðargoð margra hagfræðinga.  Töldu þeir hann hafa fundið hagstjórnaraðferð eilífs hagvaxtar, sem girti fyrir kreppur.  Greenspan féll af stalli 2008 og var kennt um kreppuna, sem reið yfir seinni hluta þess árs, með því að hafa ofspennt hagkerfið og látið hjá líða að slá á eignabóluna.  

Frægur er fundur, þar sem AG gerði grein fyrir peningamálastefnu Seðlabanka BNA og blaðamaður sagði:"Ég tel mig hafa skilið rétt, það sem þú varst að segja ...", og AG greip þá fram í fyrir honum: "Sé svo, hef ég ekki hagað orðum mínum með þeim hætti, sem ég hugðist". 

Fyrirbrigðið, sem nú vermir stól seðlabankastjóra Íslands, verður að vísu aldrei kallaður "meistarinn", eins og AG, en hann gerir engu að síður sitt ýtrasta til að rugla fólk í ríminu.  Í fersku minni eru launamál þessa seðlabankastjóra Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra enn, þar sem hann vildi, að bankaráðið hækkaði laun sín um 400 kkr/mán, en kvað þessa hækkun þó vera lækkun frá umsömdum kjörum við drauginn í forsætisráðuneytinu. 

Enn sannaðist þetta dularfulla samband seðlabankastjórans við forsætisráðuneytið, þegar hann spáði Móðuharðindum af manna völdum, ef Icesave#2 yrði hafnað.  Icesave#2 var kolfellt í þjóðaratkvæðagreiðslu 6. marz 2010, og ekkert gerðist.    Reynslan síðan er sem sagt sú, að ekki stóð steinn yfir steini af málflutningi seðlabankastjóra, sem reyndist hafa farið með eintómt fleipur.  Slíkir menn eru réttilega nefndir ómerkingar. 

Enn er sami trúður kominn af stað og spáir nú óáran í hagkerfinu, verði Icesave#3 hafnað.  Ekkert er fjær lagi en að taka mark á þessum þvættingi.  Hvernig í ósköpunum getur það styrkt íslenzka hagkerfið, að ríkið gangist við skuldum vegna innlána gjaldþrota einkabanka í útlöndum ?

Píslarvættishugmyndir skjóta reyndar upp kollinum í þessu sambandi.  Fólki blöskrar með réttu framferði ósvífinna fjárglæframanna íslenzkra á erlendri grundu og vill friðþægja fyrir ófyrirleitna landsmenn sína með því að axla þessar byrðar.  Þetta er á miklum misskilningi reist.

Landsmönnum ber hvorki siðferðileg, lagaleg né stjórnmálaleg skylda eða nokkur önnur kvöð til að samþykkja Icesave#3.  Með því væru þeir að játa sig sigraða gagnvart auðvaldi fjármálageirans og embættismönnum Evrópusambandsins (ESB), og þeir mundu gera öðrum þjóðum í svipaðri stöðu mun erfiðara fyrir við að standa á rétti sínum til að forðast ríkisgjaldþrot.

Að hafna Icesave#3 er þar að auki í takti við tíðarandann nú í Evrópu, þar sem almenningur, t.d. á Írlandi og í Þýzkalandi, er búinn að fá sig fullsaddan af að axla byrðar óreiðumanna fjármálageirans norðan og sunnan Alpanna, sem þar með valda almenningi stórfelldri kjaraskerðingu.  Það er og að renna upp fyrir æ fleiri hagfræðingum og stjórnmálamönnum, að öryggisnet af þessu tagi undir fjármálafyrirtækjunum ýtir stórlega undir áhættusækni á þeim bænum; óráðsíu og vöxt út yfir allan þjófabálk.  Það er þess vegna til vitnis um kolrangt stöðumat að halda því nú fram, að sérstakar refsiaðgerðir umheimsins séu handan við hornið, felli þjóðin hin illræmdu Icesave-lög úr gildi.

Afar leiðigjörn er að verða tugga annars Ríkis-Bakkabróðurins, forstjóra Landsvirkjunar, að þungt muni verða undir fæti að sækja til erlendra lánamarkaða þangað til gengið hafi verið að afarkostum Breta og Hollendinga.  Veit hann ekki, að fjármálamarkaðir Evrópu eru nú í herkví evruvandræðanna, þar sem séð er fram á gjörningaveður bankahruns og/eða gríðarlegra fjármagnsflutninga, af því að Suður-Evrópa er komin að leiðarlokum evruævintýris með lágum vöxtum og mikilli þenslu ? Afleiðingin er algerlega ósamkeppnihæfir útflutningsatvinnuvegir þar á evruslóðum.  

Á Landsvirkjun sannast, að þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur.  Hvers vegna horfir Landsvirkjun ekki til vesturs og austurs ?  Í Kanada ríkir grózka og í BNA er hagkerfið að hjarna við.  Þar stendur mönnum nákvæmlega á sama um Icesave, og hafa trúlega fæstir heyrt á hörmungina minnzt.  Í Kína er gríðarlegt fé á lausu, og Kínverjar hafa áður sýnt góðan hug til Íslands, t.d. innan stjórnar AGS.

Veit forstjóri Landsvirkjunar, að Icesave#3 er lánasamningur fjármálaráðherra Íslands við brezka og hollenzka fjármálaráðuneytið að upphæð GBP 2,235 mia með 3,3 % vöxtum og EUR 1,332 mia með 3,0 % vöxtum og að þessi lán verða notuð til að greiða brezka og hollenzka innistæðutryggingsjóðunum strax til baka greiðslur þeirra á lágmarkstryggingu til innistæðueigenda Icesave-reikninga á Bretlandi og í Hollandi og að með þessum gjörningi verður Icesave-ævintýrið að skuldabagga íslenzka ríkisins með vöxtum frá 9. október 2009 ?  Ímyndar hann sér, að væntanlegir lánadrottnar Landsvirkjunar muni telja bakhjarl hennar, ríkissjóð Íslands, verða betur í stakk búinn að hlaupa undir bagga með henni, ef hún lendir í kröggum, með þennan viðbótar skuldabagga á bakinu, sem eykur skuldirnar verulega, því að ekki má gleyma því, að ríkið verður að fleyta skuldasúpunni á undan sér með nýjum lánum á e.t.v. 7 % vöxtum ?

Þriðji Ríkis-Bakkabróðirinn er arminginn Árni, efnahagsráðherra.  Hann upphefur vart raust sína á mannamótum öðruvísi en til að hallmæla íslenzku krónunni.  Hann er ekki einn um það, og er Kögunarþúfa Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu 19. marz 2011 sorglegt dæmi um það.  Hvað segir þessi Ríkis-Bakkabróðir þá um það, að hafni landsmenn Icesave-ánauðinni 9. apríl 2011, og verði síðan svo nefnd dómstólaleið farin, mun málið hafna fyrir íslenzkum dómstóli, sem mun dæma ríkissjóð til greiðslu í íslenzkum krónum, ef hann þá dæmir ríkissjóð til einhverra greiðslna, sem er ólíklegt, þar sem í augum uppi liggur, að kröfur Breta og Hollendinga eru löglausar og alfarið stjórnmálalegs eðlis.  

Stjórnmálamenn þessara þjóða þrjózkast við að viðurkenna að hafa hlaupið á sig og ESB vill ekki, að í ljós komi veila í löggjöf sinni um innistæðutryggingasjóðinn.  Samt er viðurkennt, m.a. af núverandi bankastjóra Evrópubankans, ECB, Jean-Claude Trichét, að kerfið var aldrei sniðið við hrun heils bankakerfis.  Lagalega og siðferðislega standa Íslendingar með pálmann í höndunum, ef þeir hafna Icesave-vitleysunni enn og aftur, en dæma sig til verulegrar kjaraskerðingar og ýta ríkissjóði jafnvel fram af bjargbrúninni, ef þeir axla ábyrgð á vitleysunni.

Á áratuginum 2001-2010 nam meðalhagvöxtur evru-svæðisins aðeins 1,2 % á ári.  Hagvöxtur Íra var þá mestur eða 2,5 % og hagvöxtur Ítala minnstur eða 0.3 %.  Hagvöxtur evrusvæðisins var og er miklu minni en Ísland þarf á að halda nú til að rjúfa vítahring skuldasöfnunar og skattahækkana.  Við verðum að ná 3 % - 5 % árlegum hagvexti á þessum áratugi til 2020 til að reisa efnahag landsins við.  Verði ofangreindum 100 milljörðum króna bætt við skuldasúpu ríkissjóðs við útlönd, getur slíkt orðið dropinn, sem fyllir mælinn og keyrir ríkissjóð í greiðsluþrot.  Þá verðum við ekki tekin neinum vettlingatökum, heldur verðum bónbjargarmenn í a.m.k. áratug með staðnað þjóðfélag.  

Innri markaður Evrópu og evran áttu að leiða Evrópuríkin til forystu í heiminum á efnahagssviðinu.  Innri markaðurinn hefur staðið undir væntingum, þó að hann þurfi að þróa betur, t.d. á sviði þjónustu, en evran hefur valdið miklum vonbrigðum.  Forysta ESB telur framtíð hennar vera í uppnámi, nema evrusvæðið verði þróað í átt að sambandsríki.  ESB er þess vegna orðið tveggja teina fyrirbæri, sem er allt annað en Alþingi samþykkti umsókn að 16. júlí 2009.  Helztu rök Árna Páls og kumpána fyrir inngöngu eru að skipta um mynt.  Með evru yrði Ísland lágvaxtarland, og því höfum við engan veginn efni á, enda alger óþarfi með gríðarlegar ónýttar orkulindir.  Myndin hér að neðan sýnir þó leið, sem eindregið á að forðast við orkunýtingu.  Landsvirkjun fjármálaráðherra vinstri-grænna (hann er eini hluthafinn) gælir nú við lagningu 1600 km sæstrengs til flutnings á 600 - 1000 MW afli til Bretlands.  Orkan er sögð eiga að koma úr jarðgufuverum.  Hér er um fásinnu að ræða.  Sóun orku yrði gríðarleg vegna tapa í orkuverum, þar sem aðeins næst 10 % nýtni við einvörðungu raforkuvinnslu úr gufu, og mikil töp verða óhjákvæmilega í afriðlum, sæstreng og áriðlum.  Þegar vindar blása fellur orkuverðið vegna vindmyllanna niður fyrir kostnaðarverð orku um sæstreng frá Íslandi, svo að léleg nýting á mannvirkjunum mundi gera út af við arðsemi þeirra.  Eftir stæði mikil fjárfesting, sem skapar aðeins vinnu í útlöndum, og hærra orkuverð til almennings og fyrirtækja á Íslandi.  Þetta er spákaupmennska af versta tagi með íslenzkar orkulindir.  

lansvirkjun-hordur-hvdc-april-2010      

   

 

         

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Þótt Greenspan hafi verið strengjabrúða Wall Street er hann hátíð miðað við fíflið Bernanke.

Georg P Sveinbjörnsson, 20.3.2011 kl. 10:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband