26.3.2011 | 19:48
Vantraust
Ríkisstjórnin er trausti rúin, enda klúðra ráðherrar hennar öllu, sem þeir koma nálægt. Forsætisráðherra, sem henti frá sér efnahagsmálunum og tók til sín jafnréttismálin í staðinn, tókst ekki að ráða skrifstofustjóra án þess að brjóta jafnréttislög að dómi jafnréttisráðs.
Umhverfisráðherra er margdæmdur fyrir brot í starfi; kosningar til stjórnlagaþings, aðalhugðarefni forsætisráðherrans, voru ógiltar af Hæstarétti vegna óvandaðrar lagasetningar og klúðurs við framkvæmd, en þá gerði Alþingi sér lítið fyrir og skipti um nafn á fyrirbærinu, eins og aðrir skipta um brók. Nú býr stjórnlagaráð sig undir að heimta stjórnarskrárbrot með því að Alþingi láti tillögur þess, órýndar af því sjálfu, ganga til þjóðarinnar beint. Þetta er alger farsi og lágkúran helber.
Atvinnurekendur og verkalýðshreyfing hafa lýst örvæntingu sinni yfir verkleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart öllu, er til framfara og atvinnusköpunar kann að horfa. Samtök sveitarstjórna hafa gefizt upp á ríkisstjórninni. Aðeins féttastofan RÚV-TASS styður ríkisstjórnina. Réttasta lýsingin á stöðunni er sú, að ríkisstjórnin er dauð, en afturgangan er enn með tilburði til að þvælast fyrir.
Talsmenn höfuðatvinnuvega landsins hafa lýst hneykslun sinni á niðurrifsstarfsemi ríkisstjórnarinnar gagnvart atvinnuvegunum. Ríkisstjórnin sýnir iðnaðinum, sér í lagi stóriðju, beinan fjandskap, hvað sem innantómum fagurgala iðnaðarráðherra líður. Ríkisstjórnin hótar að eyðileggja áratuga uppbyggingarstarf í sjávarútvegi og að tortíma lífsnauðsynlegum viðskiptasamböndum, sem reist eru á stöðugleika, t.d. á afnotarétti aflahlutdeilda (kvóta).
Minnzt var á framkomu ríkisstjórnarómyndarinnar við atvinnuvegina hér að ofan. Engan þeirra hefur hún leikið jafngrátt og sjávarútveginn. Jón Bjarnason, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, gefur dauðann og djöfulinn í allt, sem snertir arðsemi greinarinnar. Hann, eins og flokkssystir hans í umhverfisráðuneytinu, er í stjórnmálum og stundar stjórnmál með gerðum sínum í ráðuneytum sínum. Þetta er stjórnsýslubrot og má flokka til siðrofs,sem er einkenni alræðissinnaðra stjórnmálamanna, sem hatast við einkaframtakið og einstaklingsfrelsi, en láta tilgang stjórnmálastefnu sinnar helga meðalið.
Í góðri grein prófessors Ragnars Árnasonar í Morgunblaðinu 7. marz 2011 sýnir hann með gildum rökum og tilvísunum í aðra fræðimenn, að það eru allt önnur öfl að baki byggðaröskunar á Íslandi og annars staðar en kvótakerfi sjávarútvegs. Kvótakerfið var sett á í neyð til að mæta þeirri stöðu, sem upp var komin í sjávarútvegi í upphafi 9. áratugar 20. aldarinnar, er sóknarþunginn var orðinn langt umfram veiðiþol miðanna. Aflamarkskerfið reyndist bjarga sjávarútveginum og þar með íslenzka þjóðfélaginu frá efnahagshruni, þegar leyfilegur þorskafli var minnkaður úr um 320 kt/a á áratugunum 1970-1990 í um 200 kt/a 1991-2009. Kvótakerfi með framsalsrétti veiðiheimilda hefur jafnframt komið fótunum undir sjávarútveginn að nýju þrátt fyrir þennan gríðarlega aflasamdrátt. Grundvöllur þessa góða árangurs er langtíma afnotaréttur útgerðar á miðunum, sem gerir langtíma áætlanagerð, viðskiptasambönd og fjárfestingar kleif. Ríkisvaldið, aftur á móti, hefur með ákvæðinu um þjóðareign í kvótalögunum rétt til að stjórna veiðunum í því augnamiði að hámarka veiðiþol miðanna til lengdar þjóðinni allri til hagsbóta. Neyðarúrræði hefur reynzt furðuvel, og íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið ber höfuð og herðar yfir önnur slík kerfi, þegar árangur og arðsemi er lagður til grundvallar. Það þjónar þess vegna hagsmunum almennings vel, þrátt fyrir sögulega agnúa, og má alls ekki rífa það niður með gerræðislegri forræðishyggju, sem auka mun tilkostnaðinn og minnka afrakstur útgerðarinnar auk þess að gera henni ókleift að standa við langtímasamninga sína við birgja og viðskiptavini.
Ríkisstjórnin gengur í berhögg við samtök bænda, þegar hún undirbýr aðlögun landbúnaðarins að landbúnaðarstefnu ESB, sem leikið hefur landbúnað Evrópu grátt og mundi ganga af íslenzkum landbúnaði dauðum í sinni núverandi mynd, en við tækju einhvers konar risabú og gervibú með kostum þeirra og göllum og byggðamynztri, sem fæstum Íslendingum er að skapi. Eðlileg þróun og framleiðniaukning íslenzks landbúnaðar mundi stöðvast og sérstaða hans hverfa. Spurning, hvort gæðunum yrði fórnað fyrir magnið, eins og reyndin er í ESB. Ferðamennskan kvartar sáran undan þungum álögum, sem skekkja samkeppnistöðu hennar. Atvinnuleysi er tekið að vaxa á ný.
Við þessar ömurlegu aðstæður, sem lýsa má í einu orði, þjóðfélagshrörnun, er einn aðili í þjóðfélaginu stunginn líkþorni. Það er hinn sögufrægi vinnustaður við Austurvöll, Alþingi. Í Hrunskosningum fyrir tæpum tveimur árum varð hann reyndar með endemum illa skipaður, eins og hrakfarir þingmeirihlutans við lagasetningu bera vott um. En er minnihlutinn beysnari ? Hvernig í ósköpunum stendur á því, að hann hefur enn ekki lagt fram vantraust á einstaka ráðherra og/eða á ríkisstjórnina sem heild ? Hvar er og hvað er Sjálfstæðisflokkurinn ? Eftir atkvæðagreiðslu sína á Alþingi verður forysta hans, sem valdið hefur vonbrigðum með deyfð og lélegri herstjórnarlist, að svara þessari spurningu á næsta Landsfundi. Árangur Sjálfstæðisflokksins er ófullnægjandi. Sjálfstæðisflokkurinn á að vera baráttutæki fyrir frelsi einstaklingsins og mannsæmandi kjörum allra landsmanna. Hvernig í ósköpunum er unnt að samræma þetta markmið þeim gjörningi að styðja stórskaðlega ríkisstjórn við að leggja 100 milljarða króna helsi á skattborgara landsins að óþörfu ?; og það ofan í óþverrabragð Breta að beita hryðjuverkalögum á þjóðina, sem ollu henni svipuðu tjóni og Icesave. Sigurbjörn Svavarsson hefur sýnt fram á með glöggum rökum, að 100 milljarðar verði upphæðin með vöxtum, sem greiða þarf. Síðast reit hann um þetta í Morgunblaðið þann 26. marz 2011 í greininni "Rangir útreikningar samninganefndar ríkisins".
Eitt kjörið mál til vantrausts á þingi er umsóknin um aðildina að ESB. Það mál hefur allt til að bera, sem vantraust þarf: forsendubrest, fjáraustur, óvinsældir á meðal almennings, heitar tilfinningar og klofning í stjórnarliði. Samt bólar ekki á vantrausti. Getur verið, að aumingjaskapurinn tröllríði húsum víðar en í stjórnarráðinu ? Það eru undanvillingar í stjórnarandstöðuliðinu, sem óttast er, að veita mundu ríkisstjórninni brautargengi í atkvæðagreiðslu um vantraust vegna ESB-umsóknar. Það er nauðsynlegt fyrir Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn að fá á hreint, hvorum megin hryggjar þetta fólk ætlar að liggja. Þá verður hægt að taka á því, eins og það verðskuldar, í flokksráðum og á landsfundum flokkanna með lýðræðislegum hætti, svo að ekki sé nú talað um undirbúning næstu þingkosninga. Því verður ekki trúað, að þingmenn stjórnarandstöðu yrðu til að framlengja líf lamaðrar ríkisstjórnar félagshyggjunnar, sem aðeins nær samstöðu um auknar skattbyrðar og hefur þegar kostað samfélagið 300 milljarða króna í glötuðum hagvexti og ætlar að taka 100 milljarða króna út úr hagkerfinu og senda til Breta og Hollendinga að óþörfu. Það er kysst á vöndinn.
Ríkisstjórn, sem lafir við völd á óttanum einum við kjósendur, á ekkert annað skilið en náðarhöggið með vantrausti. Að láta slíkt hjá líða verður að túlka sem annað tveggja: stjórnmálalegan lydduhátt eða óbeinan stuðning við stefnuleysi ríkisstjórnarinnar og undirmáls stjórnarhætti.
Út er komið vorhefti ársfjórðungsritsins Þjóðmál. Er unnt að komast á vefsvæði tímaritsins frá tengli hér á síðunni. Í vorheftinu er grein eftir höfund þessa vefseturs, "Viðreisn-víðtækar umbætur", þar sem viðfangsefnið er að varða veginn út úr núverandi hrörnunarástandi íslenzka þjóðfélagsins. Það er óþarfi að taka það fram, að áður en slík viðreisn getur hafizt er nauðsynlegt að setja núverandi stjórnvöld til hliðar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjármál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.