Þvinganir og þumalskrúfur og svarið er NEI

Brezka ríkisstjórnin beitti íslenzka banka og íslenzka ríkið fantabrögðum í október 2008, er hún flokkaði íslenzku bankana og íslenzku ríkisstjórnina með ótíndum hryðjuverkamönnum.  Svo lítil hafa síðan verið geð guma, sem verja áttu hagsmuni íslenzku þjóðarinnar, að aldrei virðist hafa verið reist burst gegn þessu óþokkabragði George Browns og Alistair Darlings, ráðherra brezka Verkamannaflokksins, systurflokks Samfylkingarinnar á Íslandi.  Lee Buchheit hefur upplýst, að ekki hafi verið vakið máls á þessu í samningaviðræðunum um Icesave#3. Hér liggja stórfelldir hagsmunir Íslendinga óbættir hjá garði, sem minnast ber 9. apríl 2011. Þess má þá jafnframt minnast, að hollenzkir ráðherrar og embættismenn hafa sýnt okkur mikla óbilgirni innan ESB, þar sem þeir eru á meðal innstu koppa í búri, og hafa löngum verið með ógeðfelldar hótanir frá því þeir greiddu hollenzkum innistæðueigendum upp inneignir sínar í hollenzka Icesave-bankanum af ótta við bankahrun vegna áhlaups á banka í eigin landi.  

Icesave-málið er dæmi um frámunalega lélegan erindrekstur íslenzkra stjórnmálamanna og embættismanna með hagsmuni íslenzku þjóðarinnar.  Aldrei átti að ljá máls á vaxtagreiðslum til Breta og Hollendinga vegna útláta til að forða áhlaupi á þeirra eigin banka.  Aldrei átti heldur að ljá máls á að gangast í ábyrgð fyrir óvissa upphæð, enda stríðir slíkt gegn Stjórnarskrá. Ekki átti að hvika frá kröfunni um forgang íslenzka innlánstryggingasjóðsins í þrotabúið óskipt, því að krafan um lágmarkstrygginguna stendur á þann sjóð.

Áhættan samfara samþykki á Icesave-lögunum er gríðarleg.  Að skuldbinda ríkissjóð fyrir óvissri upphæð, sem hlaupið getur á hundruðum milljarða króna, er forkastanlegt.  Farandi dómstólaleið höfum við ekki skuldbundið okkur til eins né neins og höfum allt að vinna, en engu að tapa, í samanburðinum. Nú ganga í garð krepputímar á Bretlandi, því að Bretar eru að bíta úr nálinni með gríðarlegan fjáraustur ríkisins í brezka banka og herða þess vegna sultarólina mjög.  Hvaða áhrif halda menn, að slíkt hafi á eignaverð þrotabúsins og heimtur í það ?

Bent hefur verið á gengisáhættuna, en vegna aukins útstreymis gjaldeyris úr íslenzka hagkerfinu við fullnustu Icesave-samningsins er viðbúið, að gengi falli enn meir en þegar er orðið frá gerð samningsins. 

Icesave-samningurinn er kjánalegur séður frá íslenzkum bæjarhóli, því að yfirgnæfandi líkur standa til, að kostnaður Íslendinga af samninginum verði margfaldur á við það, sem dómstólaleiðin mundi kosta landsmenn.  Hræðsluáróður um refsingar EES eða verri lánakjör í útlöndum við höfnun Icesave er ættaður frá ESB og á ekki við nein rök að styðjast, því að heimurinn er stærri en Evrópa, og "peningar fara aldrei í fýlu".  Peningamenn líta á efnahagsumhverfið, stjórnarfarið og möguleika á samkeppnihæfri arðsemi.  

Hafa ber í huga, að nú falla öll vötn til Dýrafjarðar, þegar kemur að afstöðu Evrópumanna til ríkisábyrgðar á starfsemi fjármálastofnana.  Sú stefna ESB og ECB (Evrópubankans) hefur gengið sér til húðar.  Írar eru á heljarþröm vegna þumalskrúfu ESB, eins og Íslendingar mundu verða eftir samþykkt hinna illræmdu Icesave-laga, sem er skilgetið afkvæmi evrópsks bankaauðvalds, og þýzkir kjósendur hafa sýnt Merkel, kanzlara, gula spjaldið í fylkiskosningum undanfarið, sem túlkað er sem megn óánægja þýzkra kjósenda með að verja stórfelldum fúlgum þýzks skattfjár til veikra ríkja á evrusvæðinu til að bjarga bönkum, þýzkum og öðrum, frá útlánatapi. Öll stefna ESB er þjónkun við stórauðvaldið á kostnað almennings í Evrópu. 

Hans Tietmayer, fyrrverandi bankastjóri Bundesbank, þýzka seðlabankans, var búinn að vara við því, að sameiginlegur gjaldmiðill gengi ekki upp án sams konar fjárlaga í öllum evrulöndunum.  Nú er reynt að koma evrunni til bjargar með því að efla enn miðstýringuna frá Brüssel.  ESB-búrókratar mega ekki til þess hugsa, að til málarekstrar komi um ríkisábyrgð á innlánstryggingasjóðunum af eftirtöldum ástæðum:

  1. Ef dómstóll kveður upp úr um, að engin ríkisábyrgð sé fyrir hendi, sem líklegast er, þá missa bankarnir tiltrú og áhlaup verður gert á veikustu bankana, sem hafa mun keðjuverkandi áhrif og fella evrópska bankakerfið.  Það eru þess vegna miklu meiri hagsmunir í veði en þær smáupphæðir á evrópskan mælikvarða, en háar á íslenzkan mælikvarða, sem um er teflt í Icesave-málinu.
  2. Ef dómstóll kveður upp úr um ríkisábyrgð, mun slíkt magna ábyrgðarleysi bankanna, þeir verða enn áhættusæknari, gætu þanizt út og valdið eignabólu, sem síðan springur með brauki og bramli.

Það hefur frá upphafi verið ljóst, að Íslendingar væru að fást við ESB (Evrópusambandið), þegar Icesave var annars vegar.  ESB hrærði í stjórnmálamönnum á Norðurlöndum og AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðinum) varðandi lánveitingar, en hefur ekki lengur bolmagn til þess, vegna þess að almenningur í Evrópu er búinn að fá sig fullsaddan á þjónkuninni við bankaauðvaldið.  Tíminn hefur unnið með okkur. Með afar skýrum hætti hefur sterk tenging málsins við ESB birzt hérlendis.  Þeir sem hallir eru undir ESB, hafa stundað illvígan áróður fyrir því að gangast undir jarðarmen bankaauðvaldsins og ríkistryggja skuldbindingar fallna bankans og borga vexti í ofanálag.  Málpípur ESB hafa sumar orðið aumkvunarverðar, er þær hafa étið upp vitleysuna úr bankamönnum og skósveinum þeirra í matsfyrirtækjunum, en á þeim og greiningardeildum bankanna er harla lítill munur.  Allt étur þetta lið úr lófa bankaauðvaldsins.  Þá var og ósæmandi með öllu, að forkólfar s.k. aðila vinnumarkaðarins, SA og ASÍ, skyldu í örvæntingu kasta fram öfugsnúnum hugrenningum sínum um þróun íslenzka hagkerfisins, ef það verður losað undan Icesave-ánauðinni.  Þetta er ósæmilegur ESB-áróður úr lausu lofti gripinn. 

Nóg er nú komið af hræðsluáróðri utan þings sem innan.  Synjun um staðfestingu Icesave-laganna er um leið höfnun á leiðsögn þeirar dæmalausu ríkisstjórnar, sem nú situr.  Eftir síðustu höfnun átti hún auðvitað að sigla sinn sjó, enda hefur hún síðan staðfest, að henni er ekki treystandi til að fást af manndómi við þetta deilumál.  Eftir höfnun 9. apríl 2011 hefur ríkisstjórnin hvorki siðferðilega, málefnalega né lýðræðislega stöðu til áframhalds.  Leysa ber þá þingið upp og boða til Alþingiskosninga.  Sýnum öðrum gott fordæmi og segjum Nei.    

  Íslenzki þjóðfáninn

   

 

 

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Jamm við segjum auðvitað NEI við Icesave.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.4.2011 kl. 22:26

2 Smámynd: Dagný

Góður pistill. Nei á morgun!!!

Dagný, 8.4.2011 kl. 10:01

3 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll. Bjarni hér er smá upprifjun.

 

Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna, sagði  23. október 2008,
;; segir:
að það verði gerð uppreisn hér á landi verði gengið að kröfum Breta og Hollendinga um að Íslendingar greiði 600 milljarða króna vegna Icesave-reikninganna.”Á laugardaginn ef hann nennir á kjörstað, ætlar sami Steingrímur J. að merkja x við JÁ til að samþykkja “glæsilega” Svavars samninginn. Þó svo veit sami Steingrímur að fyrsta tilboð Breta og Hollendinga er betra sem nemur u.þ.b. heilli Kárahnjúkavirkjun.Að vísu var sami Steingrímur búinn að leggja æru og trúverðugleika sinn undir þegar hann fullyrti að Bretar og Hollendingar myndu örugglega samþykkja fyrirvarasamningin, að ekki væri möguleika að ná betri samningi en Svavarssamninginn “glæsilega”, sem og að það væri fullkomlega ógerlegt að fá kúgunarþjóðirnar aftur að samningaborðinu.Hverjar eru líkurnar á að sami Steingrímur J. hafi rétt fyrir sér að þjóðaratkvæðagreiðslan er marklaus, en samt eigi að samþykkja “glæsilega” Icesave-samninginn?  Árið 1932 ákváðu Bretar einhliða að hætta að borga af lánum sem þeir tóku í Bandaríkjunum vega WWI, sögðust einfaldlega ekki hafa efni á að borga þetta, það gerðis svo sem ekkert sérstakt en margir voru þó fúlir í Bandaríkjunum, þessi lán voru aldrei afskrifuð og í dag standa þau í um 40-80 Miljörðum dala.
Ef við heimfæru þessa upphæð yfir á Ísland þá samsvarar þessi upphæð um 30-60 Miljörðum króna eða 10-20x lægri upphæð en Bretar og Hollendingar segja okkur skulda vegna Icesave.
Lemja síðan á smáþjóðum í krafti stærðar sinnar og hjálp Íslenskra stjórnmálamanna til að þröngva Icesave sem er 10-20 sinnum meira íþyngjandi heldur en þeir töldu sig ekki getað borgað sjálfir árið 1932.
Ég minna á, að hollensk yfirvöld drógu það allt fram til aldamótanna 2000 að greiða aftur það fé sem rænt hafði verið úr búum gyðinga, lifandi og dauðra, í Hollandi. Fjármálaráðuneytið Hollendinga sá um að halda svo vel í þann ránsfeng að heimsfrægt er orðið. Þetta á að vera Íslendingum fyrirmynd.  Við þurfum 50-60 ár til að borga þær skuldir sem örfáir afbrigðilegir einstaklingar, sem er ekki búið að setja á bak við lás og slá, settu á herðar Íslendinga, án þess þó að drepa nokkurn - nema íslensku þjóðina - á bak aftur.
Ég minni líka á að báðar þessar þjóðir rændu þjógersemum frá mið Ameríka  ríkjum svo öldum skiptir að þóttum þeim það sjálfsagt og ekki skilað þeim auði aftur þá svo að mið Ameríka  ríkjum hefi farið fram á það hvað þá bætur sem þessi ríki hafa farið fram á.
Bretar og Hollendingar hafa svo sannanlega sýnt hverslags þjóð þeir eru og þeir einbeita sér að rústa okkar smá þjóð í eitt skipti fyrir öll með aðstoð í æðstu stjórn landsins.
 

Rauða Ljónið, 8.4.2011 kl. 20:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband