11.4.2011 | 10:41
"Hrafnaþing kolsvart í holti"
Tveir menn reyndust öðrum fremur verða örlagavaldar um farsæla og sjálfsagða afgreiðslu Icesave#3. Er annar forseti lýðveldisins, Ólafur Ragnar Grímsson, en án hans tilstyrks hefði þjóðin ekki fengið tækifæri til að stöðva gæfusnauða vegferð vitstola stjórnvalda með auðsveipt þing í taumi, kolsvart hrafnaþing, eins og skáldmæringurinn, Jónas Hallgrímsson, kvað forðum.
Hinn örlagavaldur málsins var ritstjóri Morgunblaðsins, Davíð Oddsson. Hann hóf þegar í upphafi skelegga baráttu gegn lögunum um Icesave#3 , og atti þar kappi við ofurefli liðs og skoðanakannanir, sem bentu til, að valdastétt landsins hefði tekizt að sannfæra meirihluta landsmanna um, að skárst væri að samþykkja ófögnuðinn. Með listfengi og meistaralegum stílbrögðum tókst Davíð fangbrögðum við réttrúnaðarfólk samfélagsins, sem með RÚV, Fréttablaðið, flesta aðra fjölmiðla , drjúgan hluta háskólasamfélagsins og aðila vinnumarkaðarins fór fram með hótunum, hálfkveðnum vísum, villandi upplýsingum og röngum ályktunum.
Að sjálfsögðu lögðu fjölmargir mætir menn og konur hönd á plóginn, lögðu fram staðreyndir og vöktu máls á hinum augljósa undirlægjuhætti Já-sinna við Evrópusambandið, ESB, sem var allan tímann hinn raunverulegi andstæðingur í þessu máli. Þess vegna er vegferð þessa máls jafnógæfuleg og raun ber vitni um. Menn kunnu eki fótum sínum forráð í þjónkun sinni við hið erlenda vald.
Ríkisstjórnin með Samfylkinguna í broddi fylkingar, ásamt öðrum áhangendum aðildar Íslands að ESB, vildu fórna hagsmunum íslenzkra skattborgara, íslenzks almennings á blótstalli ESB til að komast þar inn. Með sigrinum 9. apríl 2011 tókst að hindra þetta og þar með vannst tvöfaldur sigur. Draumur Össurar & Co. með Ísland inn í ESB er orðinn að martröð Samfylkingarinnar.
Nú er sagt, að slíðra eigi sverðin. Hvað lætur forsætisráðherra verða sitt fyrsta verk morguninn eftir niðurlægjandi ósigur sinn ? Hún lýsir því yfir við erlenda fjölmiðla, að útkoma þjóðaratkvæðagreiðslunnar hafi verið sú versta, sem hugsazt gat. Af þessu er aðeins hægt að draga þá ályktun, að núverandi forsætisráðherra er sá versti, sem hugsazt getur úr hópi hins kolsvarta hrafnaþings við Austurvöll. Hún leikur tveimur skjöldum og vinnur hagsmunum Íslands meira ógagn en gagn.
Framganga fjármálaráðherra eftir sinn bitra ósigur var ekki því markinu brenndur að taka málstað andstæðinganna að þessu sinni. Hann hóf sig yfir lágkúrulegan málflutning sinn fyrir kosningarnar og talaði nú máli þjóðar sinnar. Þessa óvæntu stefnubreytingu má þó rekja til afar óeðlilegs atburðar, sem hann stóð fyrir sama daginn í eigin þingflokki. Hann setti skákmeistarann Guðfríði Lilju út af sakramentinu með því að steypa henni af stóli þingflokksformanns vinstri-grænna fyrsta daginn hennar í vinnu eftir "barnsburðarleyfi". Fruntaháttur fjára ríður ekki við einteyming. Nú þynnist fjanda flokkur.
Sjálfstæðismenn gengu með klofinn skjöld til þessara kosninga, og höfðu sjálfstæðismenn, þversum, betur. Ástæðan fyrir þessum klofningi var það feigðarflan forystu Sjálfstæðisflokksins að ganga í berhögg við stefnumörkun Sjálfstæðisflokksins á síðasta Landsfundi. Þar var kveðið eins skýrt að orði og verða má um, að ekki skyldi undirgangast löglausar kröfur útlendinga. Það er hulin ráðgáta, hvernig forystunni og sjálfstæðismönnum, langsum, datt í hug að hunza þessa samþykkt við atkvæðagreiðslu á hinu kolsvarta hrafnaþingi við Austurvöll. Þeir verða sjálfir að útskýra þetta á réttum vettvangi, en vonandi verður ekki meira um slíka fingurbrjóta á næstunni. Formanni Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefur liðizt það að fara með stefnuskrá síns flokks, eins og brókina sína, enda er sú stefnuskrá reist á siðblindu, eignaupptöku og ófrelsi einstaklingsins á flestum sviðum, en þveröfugt á við um stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, og þess vegna gera sjálfstæðismenn háreistari kröfur til sinnar forystu.
Einn er sá maður, sem ber höfuð og herðar yfir alla stjórnmálamenn landsins, en það er forseti lýðveldisins. Hann boðaði til blaðamannafundar sunnudaginn 10. apríl 2011 að Bessastöðum. Er skemmst frá því að segja, að hann fór þar á kostum. Hann er augljóslega að blása til stórsóknar fyrir málstað Íslands á erlendri grundu. Leikur ekki á tveimur tungum, að forsetinn fyllir upp í tómarúm ríkisstjórnarinnar á þessum vettvangi, en þar fara dæmalausar liðleskjur gagnvart útlendingum og undirlægjur gagnvart ESB.
Er ekki að efa, að forseti lýðveldisins á eftir að bregða bröndum, svo vígfimur sem hann er, og að vinna málstað Íslands fylgi á meðal lykilmanna. Eins og Nei-sinnar (t.d. sjálfstæðismenn, þversum) þreyttust ekki á að benda á, er góður jarðvegur nú fyrir þennan málflutning í heiminum, ekki í sízt í Evrópu, þar sem sú stefna ESB og ECB (Evrópubankans) að bjarga lánadrottnum veikra banka og veikra ríkja er að bíða skipbrot. Nú er Portúgal komið í gapastokkinn, og er þá Spánn næstur, en þá munu Þjóðverjar stöðva þetta óheillaferli, því að ekki er stuðningur á meðal þýzkra kjósenda við slík risaútlát í björgunarsjóð ESB, sem Spánn mun útheimta. Gengi evrunnar mun þá falla, þrátt fyrir hækkandi vexti þar á bæ. Allsvakalega mun þá hrikta í stoðum Evrópusamstarfsins, og verður það mikið gjörningaveður. Verður þá smáþjóð affarasælla að standa til hlés.
Þannig fer, þegar stjórnmálamenn fara af stað með sín stóru og illa ígrunduðu verkefni, sem eru í blóra við lögmál hagfræðinnar, jafnvel náttúrulögmál og heilbrigða skynsemi. Þetta var einmitt upphaf evrunnar, stjórnmálagjörningur að undirlagi Frakka til að losna undan ægishjálmi þýzka marksins. Nú standa þeir í skugga Þjóðverja, sem eru að ná aðstöðu til að deila og drottna í Evrópu í krafti eigin dugnaðar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Snilldarpistill og allt hverju orði sannara, hafðu bestu þakkir fyrir............
Jóhann Elíasson, 11.4.2011 kl. 11:08
Og nú hefur Guðmundur Andri Thorsson lagt saman tvo og tvo og fengið út simsalabimm komma liggaliggalá. Þetta er semsagt allt lymskulegt samsæri Davíðs og Ólafs Ragnars!
Mikið er gaman að lesa blöðin þessa dagana.
Jón Steinar Ragnarsson, 11.4.2011 kl. 18:12
Algjörlega sammála hverju orði í þessari góðu grein. Og jú, ég hef ekki alltaf verið ánægður með Ólaf Ragnar en frá hruni hefur hann staðið sig meistaralega. Framtíðarkynslóðir munu þakka honum.
Davíð Pálsson, 11.4.2011 kl. 20:58
Rétttrúnaðurinn er harður húsbóndi, og þegar hann er lagður að velli, vita áhangendurnir ekki sitt rjúkandi ráð; himnarnir hafa hrunið. Veruleikafirrtur málflutningur, eins og samsæriskenningin, sem sagt er frá hér að ofan, er birtingarmynd þess sálarháska, sem þá steðjar að.
Ég þakka góðar undirtektir við hugrenningar í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu. Dr Ólafs verður mminnzt sem forseta, sem breytti gangi sögunnar, hvorki meira né minna, og geta fyrri forsetar vart státað af slíku; að þeim þó ólöstuðum. Vona ég, að forsetinn beiti sér nú allt hvað hann má gagnvart erlendum höfðingjum og fjölmiðlum, því að stjórnmálamennirnir virðast lítinn dug hafa til þess, þó að þeim ætti að renna blóðið til skyldunnar.
Með góðri kveðju,
Bjarni Jónsson, 11.4.2011 kl. 21:38
Já það er þó satt hjá þér Bjarni, rétttrúnaðurinn er harður húsbóndi. Og persónudýrkun er næsti bær og enn verri. Það hefur mannkynssagan margoft sannað.
Þórir Kjartansson, 12.4.2011 kl. 08:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.