Hangir á horriminni

Vantrauststillaga Sjálfstæðisflokksins á hendur ríkisstjórninni leiddi í ljós, að hún höktir nú á minnsta mögulega meirihluta.  Svo mjög hefur ósvífni og tækifærismennska Steingríms Jóhanns gengið fram af flokksmönnum hans, að þrír þeirra hafa nú kastað sér fyrir borð og hyggjast synda til lands og berjast við Steingrím á flokksvettvangi og utan.  Er þá deginum ljósara, að vinstri-grænir munu ganga með böggum hildar til næstu kosninga og í mörgum kjördæmum verða þurrkaðir út vegna svika við kjósendur.  Farið hefur fé betra.

Hvers vegna lafði þessi gæfusnauða og illa mannaða ríkisstjórn ?  Guðfríður Lilja, sem fékk stöðumissi í stað blómvandar við endurkomu á þing, var á báðum áttum.  Eftir að Árni Þór hafði þó lotið í gras og afsalað sér langþráðum titli þingflokksformanns í friðþægingarskyni við skákdrottninguna að skipun húsbónda síns, beit hún höfuðið af skömminni með því að gefa ríkisstjórninni líf, þó að framferði ríkisstjórnarinnar sé í veigamiklum atriðum upp á kant við stefnuna, sem hún gekk á hönd, er hún gekk til liðs við Vinstri hreyfinguna grænt framboð. 

Það var þó eitt hálmstrá, sem hún hékk á, og var það sannarlega ekki hvönn, eins og Þorgeir Hávarsson hékk í forðum á bergbrúninni að sögn Þormóðar, Kolbrúnarskálds.  Guðfríður færði það sem sérstök rök fyrir framlengingu á dauðastríði ömurlegrar ríkisstjórnar, að hún mundi standa vörð um það hugðarefni Guðfríðar að taka enga ákvörðun um virkjun Neðri-Þjórsár.  

Hvaða skoðun skyldi iðnaðarráðherra hafa á þessu afturhaldssama sjónarmiði ?  Hún hefur líklegast lagt kollhúfur við því, eins og hún er vön.  Afturhaldið, sem nú heldur um stjórnartauma landsins, á sér samnefnara í athafnaleysi og heldur þannig athafnalífinu og vinnumarkaðinum í heljargreipum. 

Þetta er engin tilviljun.  Vinstri hreyfingin grænt framboð telur hagvöxt vera illt afsprengi auðvaldsskipulagsins og þvælist þess vegna af öllum mætti fyrir öllum ákvörðunum, sem leitt geta til þess að rífa þjóðfélagið upp úr núverandi stöðnun.  Stöðnun er óskastaða vinstri-grænna, því að þannig er girt fyrir hagvöxt. 

urridafoss_1Græningjar um allan heim eru við sama heygarðshornið.  Þeir telja hagvöxt verða á kostnað náttúrunnar.  Orkuöflun er sérstakur skotspónn græningja.  Ástæðurnar eru af tvennum toga.  Annars vegar vita græningjar, að orkuöflun er forsenda hagvaxtar.  Með því að berjast gegn orkuöflun kyrkja græningjar hagvöxt

Hins vegar fylgir orkuöflun víðast erlendis aukin mengun af einhverju tagi eða geislunarhætta.  Oftast er um að ræða aukið sót, brennistein og koltvíildi út í andrúmsloftið, en einnig getur verið um að ræða hávaða, fugladauða og sjónræn umhverfisspjöll, t.d. af völdum vindmylla.

Íslenzkar vatnsaflsvirkjanir eru allar sjálfbærar og einnig afturkræfar samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu.  Mengun af þeirra völdum er í algeru lágmarki á heimsvísu.  Það er þess vegna einboðið að nýta þessa auðlind til að útrýma atvinnuleysinu í landinu.  Neðri-Þjórsá er efst á lista um hagkvæmni og lítið umhverfisrask.  Þess vegna verður ekki séð, að þessi ríkisstjórn muni samþykkja nokkra nýja virkjun, ef hún leggst gegn virkjunum í Neðri-Þjórsá.

Afstaðan til virkjana varðar grundvallar hagsmuni almennings og er þess vegna kjaramál.  Nýjar virkjanir og framhald iðnvæðingar eru grundvöllur þess, að hér verði fullt atvinnustig og og að lífskjör í landinu verði samkeppnihæf við hin beztu í Evrópu.  Helztu ástæður þessa eru eftirfarandi:

  • fjárfestingar þurfa að nema um 25 % af VLF (verg landsframleiðsla) eða tæplega ISK 400 mia. á ári til að fá hjól atvinnulífsins til að snúast nægilega hratt til að þörf verði á auknu vinnuafli og saxist á fjölda atvinnulausra. 
  • helmingurinn af þessu fé gæti komið frá hefðbundnum þáttum, þegar hagkerfið fer að taka við sér, en um ISK 200 mia. á ári þurfa að verða á formi erlendra fjárfestinga.  Engar umtalsverðar slíkar eru í sjónmáli án aukinnar nýtingar á orkuauðlindinni, og aðeins stóriðja getur nýtt hana að marki.  Ísland er enn samkeppnihæft um orkuverð til stóriðju, og enginn geiri athafnalífsins hefur meiri burði til stækkunar og framlags til hagvaxtar en stóriðja.   
  • aðeins straumur erlends gjaldeyris inn í landið af ofangreindri stærðargráðu getur gert kleift að losa um og losna við gjaldeyrishöftin, en slík eru mikill áfellisdómur yfir hagstjórn í hverju ríki, sem setur þau upp og viðheldur.  Þau brjóta í bága við frelsin  fjögur á Innri markaði EES, en þessi innri markaður er ein af rósunum (ekki þó kratarós) í hnappagati ESB og styður við heilbrigða samkeppni í Evrópu. 
  • auknar gjaldeyristekjur eru skilyrði styrkingar krónunnar og greiðslu á vöxtum og afborgunum hins opinbera og einkaaðila til útlendinga með skaplegum hætti, þ.e. að koma skuldum ríkisins niður í um 30 % af VLF á 10-15 árum án þess að innviðir samfélagsins fari við það á hliðina.  

 Það er þess vegna ekkert smáræði, sem leiða kann af því, að skákdrottningin tók þá ákvörðun 13. apríl 2011 að valda eitraða peðið, sem skírt var Steingrímur Jóhann á sinni tíð.  Ákvörðun hennar jafngildir því að halda atvinnulífinu áfram í spennitreyju, lykilatvinnuvegum í uppnámi, festa atvinnuleysi í 10 %, reka ríkissjóð á heljarþröm, og að gera kjararýrnun viðvarandi í landinu frá ári til árs.  

Þetta eru ekki dyntir skákdrottningarinnar, heldur er hún með þessu trú stefnu vinstri-grænna um að koma í veg fyrir hagvöxt með öllum mögulegum og ómögulegum ráðum.  Á þetta horfir Samfylkingin aðgerðarlaus og er ekki svo leitt sem hún lætur, enda er þetta verðið, sem hún greiddi fyrir að fá að sækja um aðild að ESB.  Sjá nú allir, hversu illa var stofnað til þessa stjórnarsamstarfs.  Þar haldast í hendur amlóðaháttur og afturhald, a&a, sem þó á ekkert skylt við hin ágætu AA-samtök. 

Myndin hér að neðan lýsir vel anda umræðunnar í Evrópu eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna á Íslandi 9. apríl 2011, þegar vanda skuldugra ríkja ber á góma.  Ísland setti þá fagurt fordæmi, en hvernig á nokkur maður, innlendur eða útlendur, að geta treyst ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur til að framfylgja hinni skýru stefnumörkun þjóðarinnar ?      

     

      Gott fordæmi fyrir Íra 

   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband