22.4.2011 | 19:05
Báknið
Um allan hinn vestræna heim er nú efst á baugi að fást við ofþanið ríkisbákn og þungbærar ríkisskuldir. Ástæðurnar eru aðallega tvíþættar. Umsvif ríkisins eru orðin svo stór hluti vergrar landsframleiðslu, að þau standa orðið hagvexti fyrir þrifum, og í flestum ríkjum Vesturlanda hækkar meðalaldur þjóðanna ört, svo að æ færri verða til að standa undir ríkisútgjöldunum, þ.m.t. afborgunum og vöxtum. Við þetta má bæta, að margar ríkisstjórnir á Vesturlöndum yfirfærðu feikna upphæðir frá skattborgurum til fjármálastofnana til að forða hruni hinna síðarnefndu. Ríkisstjórn Geirs Haarde tók allt annan pól í hæðina. Hún hlífði skattborgurunum eftir mætti, en lét lánadrottna íslenzku bankanna taka skellinn. Þessi afstaða er nú árið 2011 óðum að öðlast alþjóðlega viðurkenningu.
Spurningin er ekki lengur, hvort vinda verði ofan af þessari óheillaþróun ríkissjóðanna, heldur hvernig. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur tekizt einstaklega óhönduglega upp viö þann samdrátt ríkisútgjalda, sem hún skuldbatt sig til gagnvart Alþjóða gjaldeyrissjóðinum, AGS. Af þvermóðsku einni saman neitaði hún að fara mildilega í skattahækkanir, eins og Sjálfstæðisflokkurinn þó lagði til. Ríkisstjórnin hefur lengt í efnahagskreppunni á Íslandi, sem bankakreppan ól af sér, með því að skera framkvæmdir á vegum ríkisins niður við trog og hækka skattheimtu stórlega á sama tíma. Slíkir stjórnarhættir eru glapræði, enda hafa þeir leitt leitt yfir þjóðina óþolandi atvinnuleysi og geigvænlegan landflótta, sem er brýnt að binda endi á.
Við þær aðstæður, sem uppi voru í þjóðfélaginu eftir Hrun og eru enn, á hiklaust að setja hagvaxtarhvetjandi aðgerðir á oddinn. Þar ber fyrstar að telja erlendar fjárfestingar, virkjanir, ný iðjuver og öruggt rekstrarumhverfi til langs tíma fyrir atvinnuvegina, ekki sízt sjávarútveginn. Hins vegar er augljós kerfisvandi fyrir hendi í rekstri hins opinbera, sem lýsir sér í hömlulausri aukningu ríkisútgjalda. Hvernig á að fást við þann vanda ?
Í þessum efnum er rétt að horfa til þeirra, sem náð hafa beztum árangri. Í Singapúr nema ríkisútgjöld aðeins 19 % af VLF, en auðvitað er tiltölulega ódýrara að halda uppi þjónustu ríkisins í borgríki en í jafnstrjálbýlu landi og Ísland er. Þó er aðalástæðan sú, að í Singapúr er notazt við allt annað kerfi ríkisútgjalda en t.d. á Íslandi. Jafnvel Kínverjar íhuga nú að taka upp Singapúr-kerfið, því að vestræna kerfið er ósjálfbært. Í Singapúr fá borgararnir ákveðna upphæð frá ríkinu til að standa straum af lækniskostnaði, kennslu barna og öðru, sem ríkið tekur þátt í. Síðan hefur borgarinn frjálsar hendur með að velja aðila, sem í frjálsri samkeppni veita umbeðna þjónustu. Ef kostnaðurinn reynist lægri en framlag ríkisins, heldur borgarinn mismuninum. Reynist kostnaðurinn hærri, kemur til skjala trygginga, lífeyrissjóða, stéttarfélagssjóða eða sparnaðar viðkomandi.
Þetta framlagskerfi felur í sér valfrelsi fyrir borgarana um að velja þjónustu; ríkið stendur ekki að því að veita þessa þjónustu, en stendur straum af áætluðum kostnaði við kaup á henni. Kerfið nýtir styrk frjálsrar samkeppni, sem keppir á gæðum og verði, til hagsbóta fyrir notendur þjónustunnar og fyrir skattborgarana. Samkeppnin leiðir til kostnðarlækkunar fyrir hið opinbera og þróunar í stað stöðnunar.
Það er ljóst, að breytingum í þessa átt verður ekki komið í kring á Íslandi eða í öðrum löndum með umsvifamikinn ríkisrekstur í einu vetfangi. Það þarf að velja ákveðna starfsemi til reynslu og sannreyna, að framlagskerfið virki. Jafnframt verður auðvitað að gera einkaframtakinu og sjálfseignarstofnunum kleift að taka að sér vissa þætti, sem ríkisvaldið hefur einokað um langa hríð eða verið algerlega ríkjandi á. Þegar árangur kemur í ljós, verður unnt að lækka skattheimtuna.
Það er alveg ljóst, að kerfisbreytingar verður að gera á ríkisrekstrinum til að hemja hann. Umfang ríkisrekstrar á Vesturlöndum sem hlutfall af VLF hefur fimmfaldzt á eitt hundrað árum. Það stefnir augljóslega í óefni með stöðnun og að lokum kollsteypu sem afleiðingu. Krötum og sameignarsinnum er ekki treystandi fyrir þessu verkefni. Ríkisrekstur er trúaratriði félagshyggjuaflanna, en allir stjórnmálaflokkar eiga nokkra sök á því, hvernig komið er. Eitt er víst, að kropp vinstri flokkanna, sem að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur standa, í viðkvæma þjónustu heilbrigðisgeirans og annars staðar, er gjörsamlega vonlaus aðferðarfræði. Uppstokkunar er þörf.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Kjaramál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.