8.5.2011 | 16:37
Fálm í myrkri
Skötuhjúin, Jóhanna Sig. og Steingrímur J., fengu birta eftir sig grein, "Lífskjarasóknin er hafin", í Fréttablaðinu 7. maí 2011. Langt er síðan annan eins moðreyk hefur borið fyrir sjónir. Þar örlar hvorki á raunsærri greiningu efnahagsstöðunnar nú að afloknum kjarasamningum ASÍ og SA né á raunhæfum leiðum til að tryggja almenningi varanlegar kjarabætur. Augljóslega ætla skötuhjúin að svíkja allt, sem að þeim snýr og varðar þessa samninga, eins og reynslan varð um svo kallaðan "Stöðugleikasamning", sem átti að varða leiðina upp úr kreppunni, en koðnaði í ekki neitt.
Dæmi um þetta er:"Ný fjárfestingaráætlun miðar að því að auka fjárfestingar úr 13 % af landsframleiðslu í 20 % á tímabilinu". Þessir félagshyggjufrömuðir ganga í þeirri dulunni, að hægt sé við skrifborð embættismanna að framkalla fjárfestingar í athafnalífinu. Þetta er þó, eins og með fræið og Litlu gulu hænuna. Uppskeran fæst ekki án þess að sá í frjósaman jarðveg. Stjórnmálaflokkar þeirra skötuhjúanna munu aldrei leyfa þá sáningu, sem felst í erlendum fjárfestingum, og þau eru sjálf búin að menga þennan jarðveg, þannig að enginn hefur lengur nægan áhuga á sáningu. Breytir þá gagg og nefndaskipanir iðnaðarráðherra engu, því að VG er með stöðvunarvald.
Ný ríkisstjórn verður að byrja á jarðvegsskiptum, þ.e. að skapa aðlaðandi aðstæður hérlendis til fjárfestinga. Þar vegur skattaumhverfið þungt, en einnig almenn framkoma í garð fjárfestanna. Án hvata er allt tal og skrif um að glæða fjárfestingar hér blaður eitt.
Þá skrifa skötuhjúin: "Stefnt að a.m.k. tveimur umfangsmiklum fjárfestingarverkefnum í orkufrekum iðnaði". Hvað er átt við hér ? Umfangsmiklar framkvæmdir, sem þegar standa yfir í Straumsvík ? Stefnir Vinstri hreyfingin grænt framboð að því að hleypa framkvæmdum áfram við álver Norðuráls í Helguvík og álver Alcoa á Bakka ? Auðvitað ekki. Þetta er allt innantómt hjal og blekkingaleikur hjá skötuhjúunum. Hið alvarlega er hins vegar, að þess vegna munu kjarasamningarnir nýju brotlenda, ef afturhaldsstjórninni verður leyft að hjakka áfram í sama farinu. Framfarastjórn verður að leysa afturhaldið af hólmi.
Stærsti vandi íslenzka ríkisins er skuldabyrði, sem nemur um 110 % af VLF (vergri landsframleiðslu). Það má fullyrða, að vonlaust sé að standa rétt skil á vöxtum og afborgunum af slíkri skuldahrúgu án ríflegs hagvaxtar. Það þarf að vera rífandi gangur í athafnalífinu til að stækka þjóðarkökuna, sem ríkið tekur drjúga sneið af. Að lágmarki þarf meðalhagvöxtur að nema 3 % á ári og æskilegt er, að hann sé á bilinu 3 % - 5 %. Undir 5 % á ekki að vera hætta á ofhitnun með verðbólgu.
Nú hefur bætzt við enn eitt atriðið í hagkerfinu, sem gerir þennan hagvöxt lífsnauðsynlegan, þar sem eru nýgerðir kjarasamningar. Þeir munu sliga núverandi hagkerfi að óbreyttu og valda verðbólgu og/eða auknu atvinnuleysi, nema hagkerfið stækki. Þetta hafa báðir samningsaðilar viðurkennt. Líkið í lestinni í þessari ferð til fyrirheitna landsins er "norræna velferðarríkisstjórnin". Daunninn verður þjóðinni senn óbærilegur.
Langþráður hagvöxtur verður aðeins með tilkomu erlendra fjárfestinga, verulegra, um 200 milljarða kr á ári að meðaltali næstu 10 árin. Slíkt er gjörsamlega útilokað með núverandi valdhafa í stjórnarráðinu. Þeir verða þess vegna einfaldlega að víkja, því fyrr, þeim mun betra.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.